../ IS  
Útgefið gæðaskjal: Leiðbeiningar
Skjalnúmer: Rsýk-341
Útg.dags.: 03/21/2022
Útgáfa: 10.0
2.02.16 Kynfæri - Neisseria gonorrhoea ræktun
Hide details for Rannsóknir - Heiti, ábendingar, grunnatriðiRannsóknir - Heiti, ábendingar, grunnatriði
Heiti rannsóknar: Kynfæri kvenna - Neisseria gonorrhoeae ræktun, Kynfæri karla - Neisseria gonorrhoeae ræktun, Ytri kynfæri kvenna - Neisseria gonorrhoeae ræktun
Samheiti: Lekandaræktun
Pöntun: Beiðni um sýklarannsókn eða Cyberlab innan LSH. Verð: Sjá Gjaldskrá
    Hide details for ÁbendingÁbending
    Grunur um sýkingu af völdum Neisseria gonorrhoea (lekanda).

    Fræðsla um lekanda
    Neisseria gonorrhoeaeveldur kynsjúkdómnum lekanda. Bakterían er mjög viðkvæm og lifir einungis í nokkra tíma utan líkamans. Hún veldur eingöngu sýkingu hjá mönnum og sýkir slímhúðir í þvagrás, leghálsi, endaþarmi og hálsi. Lekandi smitast oftast við beina snertingu slímhúða við kynmök en einnig getur bakterían borist í augnslímhúð með sýktum vessum.

    N. gonorrhoea veldur yfirleitt staðbundinni sýkingu í þvag- og kynfærum. Hjá körlum er algengasta einkennið bráð þvagrásarbólga með graftarkenndri útferð (>80%) og/eða særindi við þvaglát. Konur eru oft einkennalausar en helstu einkenni eru breytt eða aukin útferð, kviðverkir og milliblæðingar af völdum leghálsbólgu og særindi við þvaglát af völdum þvagrásarbólgu. Sé móðir sýkt í fæðingu getur bakterían borist í augu nýbura og valdið slæmri tárubólgu (e. conjunctivitis).Sýking í endaþarmi og hálsi er oftast einkennalaus. Helstu fylgikvillar lekandasýkingar meðal karla eru eistnalyppu- og eistnabólga eða blöðruhálskirtilsbólga en hjá konum eggjaleiðara- og eggjastokkabólga (e. pelvic inflammatory disease).Bakterían getur í einstaka tilfellum (<1%) valdið dreifðri sýkingu með hita, húðútbrotum og liðbólgum, liðsýkingum og jafnvel hjartaþelsbólgu.

    Algengasta og næmasta greiningaraðferð N. gonorrhoeae er kjarnsýrumögnunarpróf (e. nucleic acid amplification test, NAAT).Einnig má greina sýkingu með smásjárskoðun og ræktun. Við smásjárskoðun sjást bakteríurnar sem Gram neikvæðir kokkar, oftast tveir og tveir saman (diplókokkar), og dæmigert er að sjá þá í tengslum við og/eða innan í kleyfkjarna átfrumum. Ræktun er eina leiðin til að greina næmi bakteríunnar fyrir sýklalyfjum, en sýklalyfjaónæmi hjá N. gonorrhoeae er vaxandi vandamál á heimsvísu.

    Við jákvæða lekanda-erfðaefnisrannsókn skal taka strok frá viðkomandi svæði til ræktunar áður en meðferð er hafin.

    Samkvæmt sóttvarnalögum nr. 19/1997 er lekandi tilkynningarskyldur sjúkdómur til sóttvarnalæknis.

    Mögulegar viðbótarrannsóknir:
    Almenn rannsókn á sýnum frá kynfærum kvenna.
    Almenn ræktun á sýnum frá kynfærum karla.
    Leit að Mycoplasma og Ureaplasma
    Sérstaklega skal tekið fram að greining á Chlamydia trachomatis (klamydíu) er ekki möguleg viðbótarrannsókn. Til greiningar Chlamydia trachomatisþarf að taka leghálssýni á aðra gerð pinna, eða senda þvagsýni, sjá leiðbeiningar. Erfðaefni N. gonorrhoeae er greint í sömu rannsókn og erfðaefni C. trachomatis.
    Hide details for Grunnatriði rannsóknarGrunnatriði rannsóknar
    Eingöngu er leitað að Neisseria gonorrhoeae á sérstöku valæti og gert næmispróf ef hún vex.
    Hide details for SýnatakaSýnataka
      Hide details for Lýsing sýnatökuLýsing sýnatöku
      Ræktun skal tekin með venjulegum ræktunarpinna, sjá efnivið til sýnatöku.

      Hjá karlmönnum skal tekið strok frá þvagrás. Hjá körlum sem stunda kynlíf með körlum er mjög mikilvægt að taka einnig sýni frá hálsi og endaþarmi. Sé einungis tekið sýni frá þvagrás er hætta á að missa af allt að helmingi lekandasýkinga í þessum hópi.

      Hjá konum skal tekið strok frá leghálsi en taka má strok frá leggöngum. Næmi rannsóknarinnar eykst ef einnig er tekið sýni frá þvagrás og endaþarmi, en 5% kvenna eru einungis með bakteríuna í endaþarmi. Við einkenni frá hálsi skal einnig tekið hálsstrok.

      Við grun um augnsýkingu skal tekið augnstrok.

      Við jákvæða lekanda-erfðaefnisrannsókn skal taka strok frá viðkomandi svæði til ræktunar áður en meðferð er hafin (3). Þó ber að athuga að þvagsýni er óhæft til ræktunar. Í þeim tilvikum þar sem lekanda-erfðaefnisrannsókn á þvagi er jákvæð ætti því að senda þvagrásarstrok frá körlum og leghálsstrok frá konum í ræktun.

      Örugg losun sýnatökuefna og áhalda

    Hide details for Sending og geymslaSending og geymsla
      Hide details for Geymsla ef bið verður á sendinguGeymsla ef bið verður á sendingu
      Bakterían er mjög viðkvæm og lifir einungis í nokkra tíma utan líkamans. Sýnið skal senda sem fyrst á sýkla- og veirufræðideild. Ef sending sýnis dregst skal geyma það við stofuhita eða í kæli. Ákjósanlegt er að sýnið komi á sýkla- og veirufræðideild innan tveggja klukkustunda frá sýnatöku. Ef því er ekki við komið skal koma því eigi síðar en einum sólarhring eftir sýnatöku.

    Hide details for NiðurstöðurNiðurstöður
      Hide details for SvarSvar
      Neikvæðri ræktun er svarað út eftir þrjá sólarhringa, en jákvætt svar berst yfirleitt eftir fjóra daga.
      Hide details for TúlkunTúlkun
      Neisseria gonorrhoeae telst alltaf vera meinvaldandi. Greinist bakterían þarf að meðhöndla einstaklinginn og mjög mikilvægt er að leita að öðrum sem hugsanlega eru smitaðir og meðhöndla þá líka.

    Hide details for HeimildirHeimildir
    1. Jorgensen JH, Pfaller MA og fél. Manual of Clinical Microbiology. ASM Press, Washington D.C.
    2. Amy L. Leber og fél. Clinical Microbiology Procedures Handbook. ASM Press, Washington D.C.
    3. Leiðbeiningar sóttvarnalæknis um greiningu og meðferð lekanda, klamydíu, sárasóttar og HIV. Embætti landlæknis, útgáfa 1.0, nóvember 2019.

      Ritstjórn

      Lena Rós Ásmundsdóttir - lenaros
      Katrín Helga Óskarsdóttir - katrinho
      Álfheiður Þórsdóttir - alfheidt
      Sara Björk Southon - sarabso

      Samþykkjendur

      Ábyrgðarmaður

      Lena Rós Ásmundsdóttir - lenaros

      Útgefandi

      Katrín Helga Óskarsdóttir - katrinho

      Upp »


      Skjal fyrst lesið þann 04/29/2010 hefur verið lesið 62215 sinnum