../ IS  
Útgefið gæðaskjal: Vinnulýsing
Skjalnúmer: LSH-3547
Útg.dags.: 11/15/2022
Útgáfa: 5.0
25.00.03.03 COVID-19 - gjöf súrefnis og innöndunarlyfja
    Hide details for TilgangurTilgangur
    Að lýsa súrefnismeðferð og gjöf innöndunarlyfja hjá fullorðnum sjúklingum með COVID-19
    Hide details for FramkvæmdFramkvæmd
    Súrefnismeðferð
    • Er veitt sjúklingum í andnauð, losti eða með súrefnismettun <90%
    • Markmið er að súrefnismettun hjá bráðveikum sjúklingum sé ≥94%. Þegar sjúklingur er orðinn stöðugur er markmið súrefnismettunar >90%
    • Undantekning er hjá sjúklingum með langvinna lungnasjúkdóma og langvinna koltvísýringsbilun. Þá er markmið súrefnismettunar 88-92%
    • Ef sjúklingur, sem er á fullri meðferð, er versnandi og þarf >10 L/mín af súrefni á súrefnismaska og súrefnismettun er <94%, er í samráði við sérfræðing á deild, kallað á GÁT- teymi til mats vegna mögulegrar gjörgæslumeðferðar

    Búnaður til súrefnisgjafar
    Valinn er viðeigandi búnaður til súrefnisgjafar:
    1. Hefðbundin súrefnisgleraugu (lágflæði/glær), flæði 1-5 L/mín um nös
    2. Háflæði súrefnisgleraugu (græn), flæði 1-15 L/mín um nös.
      • Má einungis nota í skamman tíma (<30 mín.) t.d. þegar sjúklingur, sem er á meðferð með súrefnismaska, matast.
    3. Einfaldur súrefnismaski, flæði 6-10 L/mín. Notað með rakagjöf
    4. Súrefnismaski með sarpi, flæði 10-15 L/mín
      • Fylla þarf sarpinn af súrefni áður en hann er settur á sjúkling
      • Sarpur á alltaf að vera útblásinn

    Ekki skal gefa saman súrefni með súrefnisgleraugum og maska (einföldum eða með sarpi).
    Undantekning frá þessari reglu er samhliða notkun í skamman tíma (<30 mín.) þegar sjúklingur, sem er á súrefni um maska, matast.

    Við súrefnisgjöf til COVID-19 smitaðra sjúklinga er ekki notaður eftirfarandi búnaður:
    • Súrefnisleggur með svampi
    • Súrefnis rakamaski/rakatjald
    • OxyMask súrefnismaski

    Háflæðisúrefni með háflæðitæki (high-flow)
    Rannsóknir benda til þess að háflæðisúrefnisgjöf með háflæðitæki geti í völdum tilfellum komið í veg fyrir innlögn á gjörgæslu, meðferð með innri öndunarvél og jafnvel lækkað dánartíðni. Ef val meðferðar stendur á milli þess að nota háflæðisúrefni með háflæðitæki eða ytri öndunarvél þá ráðleggur NIH að nota háflæðisúrefni.

    Framkvæmd notkunar háflæðisúrefnis með háflæðitæki
    • Þegar háflæðisúrefni er notað við öndunarbilun af völdum COVID-19 skal það gert í nánu samráði við lækna á gjörgæslu sem þurfa að vera upplýstir um meðferðina og við því búnir að setja innri barkarennu ef þörf krefur og ekki er um að ræða meðferðartakmarkanir. Einstaklingar á háflæðisúrefni skulu vera í sírita.
    • Búnaður er til á gjörgæslu, lungnadeild, bráðamóttöku Fossvogi, hjartadeild og á Barnaspítala.
    • Uppsetningu og stillingum á háflæðitæki er lýst í þessu gæðaskjali
    • Flæði fer upp í 60 L/mín og hlutþrýstingur súrefnis upp í 1,0.
    • Mögulega er aukin hætta á veirudreifingu við meðferð með háflæðisúrefni. Ef slík meðferð er nauðsynleg,skal hún fara fram á sjúkrastofum þar sem loftræsting hefur verið skoðuð og er metin ásættanleg:
      • A7: Stofur 17, 19, 21, 23, 25
      • Bráðamóttaka Fossvogi: Stofur 10, 11 og 17 (loka þarf þá stofu 16)
      • Gjörgæsla Fossvogi: Stofur 1, 2, 3 og salurinn
      • Gjörgæsla Hringbraut: Stofur 5,1 og 3
      • Barnaspítali: Stofur 34, 36 og 39
    • Notuð er FFP3/N99 gríma inni á stofum þessara sjúklinga. Notuð eru hlífðargleraugu frekar en andlitshlíf, þau veita betri vörn.

    Staða sjúklings
    • Sitjandi staða getur minnkað mæði og bætt súrefnismettun.
    • Grúfuleg hjá vakandi sjúklingum sem anda sjálfir bætir einnig mögulega loftskipti og súrefnismettun.
    Innúðalyf
    Hefðbundin innúðalyfjameðferð
    Almennt er haldið áfram með þá innúðameðferð sem sjúklingur var á heima ef kostur er.
      Innúðar með belg
      Ef þörf er á hærri skömmtum af innúðalyfjum eða ef um er að ræða aldraða einstaklinga eða aðra sem eiga erfitt með að nota innúðalyf, þá er hægt að gefa bæði Ventolin í innúða og Atrovent í innúða um belg. Þá má gefa 8 púst í einu af Ventolin.
      Loftúðar (,,friðarpípur'')
      Skv. ráðleggingum British Thoracic Society eru loftúðar ekki taldir valda veirudreifingu. Úðinn sem myndast kemur frá tækinu en ekki frá sjúklingnum (úðinn inniheldur berkjuvíkkandi lyf en ekki útöndunarloft frá sjúklingi). Sumar stofnanir hafa hins vegar ráðið frá notkun loftúða og nota þá frekar hærri skammta af innúðalyfjum um belg. Ef nota á loftúða er fylgt verklagi þar um.
      Hide details for HeimildirHeimildir
      1. NIH COVID-19 Treatment Guidelines (last updated December 16, 2021)
      2. ERS Guidelines: Management of hospitalized adults with COVID-19: a European Respiratory Society living guideline.
      3. BTS/ICS Guidance: Respiratory care in patients with Acute Hypoxaemic Respiratory Failure associated with COVID-19

    Ritstjórn

    Guðrún Bragadóttir - gudbraga
    Sif Hansdóttir - sifhan

    Samþykkjendur

    Ábyrgðarmaður

    Sif Hansdóttir - sifhan

    Útgefandi

    Guðrún Bragadóttir - gudbraga

    Upp »


    Skjal fyrst lesið þann 11/12/2020 hefur verið lesið 1560 sinnum