../ IS  
Útgefið gæðaskjal: Vinnulýsing
Skjalnúmer: LSH-3335
Útg.dags.: 01/05/2021
Útgáfa: 9.0
27.00.03.02 COVID-19 - sértæk lyfjameðferð

    Skjalið verður endurmetið og uppfært reglulega eftir því sem þekking á sjúkdómnum eykst. Helstu breytingar milli útgáfa verða litaðar gular.
    Hide details for Tilgangur, fyrirvari og ábendingTilgangur, fyrirvari og ábending
    lýsa sértækri lyfjameðferð við COVID-19 sjúkdómi á Landspítala. Leiðbeiningar þessar eru skrifaðar af læknum smitsjúkdómadeildar til að aðstoða við lyfjameðferð sjúklinga með staðfesta COVID-19 sýkingu.

    Mikilvægt er að ítreka að:
    • Þessar ráðleggingar eru byggðar á þeim afmörkuðu rannsóknaniðurstöðum sem liggja fyrir er varða mögulega gagnsemi meðferða, sem eru vegnar á móti mögulegum aukaverkunum.
    • COVID-19 er í flestum tilfellum vægur veirusjúkdómur sem gengur yfir án sértækrar meðferðar. Í litlum hluta tilfella er hins vegar um alvarlegan og stundum lífshótandi sjúkdóm að ræða.
    • Meðferð beinist að þeim sem hafa eða stefna í alvarlegustu sjúkdómsmyndirnar.
    • Nauðsynlegt er að upplýsa sjúklinga eftir fremsta megni um kosti, galla og ábendingar lyfjameðferða og tryggja samþykki. Eðlilegt er að skrá þessa þætti í sjúkraskrá.
    • Læknar sem ávísa einhverjum af þessara meðferða þurfa að vera vakandi fyrir aukaverkunum af henni og stöðva meðferð ef ástæða er talin til.
    • Mikilvægt að muna eftir að tilkynna milli- og aukaverkanir til Lyfjastofnunar, einkum þar sem um ný eða óskráð lyf er að ræða.

    Hide details for Hver framkvæmir og hvenærHver framkvæmir og hvenær
    Smitsjúkdómalæknar á Landspítala uppfæra leiðbeiningar eftir því sem þekking á eiginleikum veirunnar eykst.
    Læknar sem sinna sjúklingi eins og lýst er í framkvæmd.
    Hide details for Flæðirit um meðferðFlæðirit um meðferð




    * Samráð við smitsjúkdómalækni
      Hide details for FramkvæmdFramkvæmd
        Hide details for Vægur eða miðlungs alvarlegur sjúkdómur - meðferð heimaVægur eða miðlungs alvarlegur sjúkdómur - meðferð heima
        COVID-19 göngudeild Landspítala sinnir öllum greindum sjúklingum skv. áhættuflokkun og fylgir þeim eftir heima.

        A. Vægur sjúkdómur og engir áhættuþættir
        Almennt eiga þeir sem dvelja í heimahúsi að fá einkennameðferð eingöngu, enda jafna sig flestir.

        Ávallt ætti að hafa í huga hættu á að önnur sýking geti verið til staðar, t.d. lungnabólga. Í slíkum tilfellum ætti að hafa lágan þröskuld til að hefja hefðbundna sýklalyfjameðferð í samræmi við ástand og einkenni sjúklings.

        B. Veikur í heimahúsi og áhættuþættir til staðar

        Alvarleiki sjúkdóms felur í sér viðvarandi/versnandi einkenni án merkja um bata.

        Meðferð með favipiravir
        Favipiravir - Nýtt veirulyf sem talið er virkt gegn SARS-CoV-2.
        Það er ekki skráð í Evrópu.

        Mælt er með meðferð séu áhættuþættir til staðar hjá einstaklingi ≥18 ára:
        Áhættuþættir
        • Aldur ≥ 60 ár
        • Hjartasjúkdómur
        • Sykursýki
        • Langvinnur lungnasjúkdómur
        • Ónæmisbæling

        Sérstakar athugasemdir varðandi meðferð með favipiravir:
        • Fylgjast ætti með lifrarprufum reglulega meðan á meðferð stendur
        • Markmiðið er að hefja meðferð eins snemma og unnt er eftir greiningu hjá einstaklingum, sem eru í aukinni hættu á að fá alvarlegan sjúkdóm
        • Meðferð á síður við ef ástand er stöðugt eða greinilega batnandi, einkum ef langt er liðið frá upphafi einkenna
        • Meðferð getur átt við hjá einstaklingum undir 60 ára aldri, séu ofangreindir sjúkdómar/áhættuþættir til staðar
        • Ástæða getur verið til að lengja meðferð umfram 5 daga hafi hún hafist mjög snemma og virðist gagnast sjúklingi, ekki síst ef aldur er >70 ár

        Frábendingar við favipiravir
        Þungun er algjör frábending. Þungunarpróf er nauðsynlegt hjá konum á barneignaraldri áður en meðferð hefst. Notkun getnaðarvarna á meðan meðferð stendur er nauðsynleg.
        Ath: Lyf er til staðar í sæði. Karlar ættu að forðast að stunda kynlíf á meðan á meðferð stendur og í sjö daga eftir að henni lýkur. Sé stundað kynlíf er notkun smokks nauðsynleg. Er það sérstaklega mikilvægt í samræði við þungaðar konur.
        Ath: Milliverkanir eru þekktar við pyrazinamid, repaglinide, theophilline, famciclovir, sulindac og lyf sem eru umbrotin fyrir tilstilli CYP2C8. Leita má til Miðstöðvar lyfjaupplýsinga á Landspítala ef ástæða er til.

        Skammtur
        Heildarmeðferð er 5 dagar:
        • 1.800 mg x 2 um munn á fyrsta degi meðferðar
        • 800 mg x 2 um munn daga 2-5, og þá endurmat
        • Senda þarf beiðni á Lyfjanefnd vegna lyfsins.
        • Um er að ræða óskráð lyf sem til er í sjúkrahúsapóteki Landspítala, sem gefa þarf í samráði við smitsjúkdómalækni. Lyfið er eingöngu til í töfluformi.
        • Upplýsa þarf sjúkling og/eða aðstandendur að um óskráða meðferð sé að ræða. Æskilegt er að fá skriflegt upplýst samþykki þeirra og skrá skilmerkilega í sjúkraskrá áður en gjöf lyfsins á sér stað.
        Hide details for Miðlungs alvarlegur sjúkdómur án öndunarbilunar - innlögn á sjúkrahús
Miðlungs alvarlegur sjúkdómur án öndunarbilunar - innlögn á sjúkrahús

        Almennt
        • Huga þarf að blóðsegavarnandi meðferð hjá innlögðum sjúklingum sem liggja mikið fyrir.
        • Meta ætti hvort aðrar sýkingar kunni að vera til staðar og þá hefja viðeigandi meðferð.

        Miðlungs alvarlegur sjúkdómur án öndunarbilunar
        • Innlögn vegna líkamslegs ástands eða t.d. vegna félagslegra aðstæðna.

        Meðferð:
        Favipiravir meðferð, nema frábendingar séu til staðar, sbr. meðferð fyrir veikan einstakling í heimahúsi með eða án áhættuþátta.
        Hide details for Alvarlegur sjúkdómur með öndunarbilun - innlögn á sjúkrahúsAlvarlegur sjúkdómur með öndunarbilun - innlögn á sjúkrahús
        Meðferð fyrir sjúklinga sem leggjast inn og COVID-19 sýking er staðfest með PCR eða það er sterkur, klínískur grunur.

        Almennt
        • Huga þarf að blóðsegavarnandi meðferð hjá innlögðum sjúklingum sem liggja mikið fyrir.
        • Meta ætti hvort aðrar sýkingar kunni að vera til staðar og þá hefja viðeigandi meðferð.

        Meðferð með dexamethasone
        • Meðferð með steralyfi gaf góðan árangur í stórri slembaðri breskri rannsókn.
        • Niðurstöður rannsókna sýna að meðferð gaf bætta lifun meðal einstaklinga sem þurftu súrefni og/eða öndunarvélameðferð. Ávinningurinn var stærri í síðari hópnum
        • Ekki hefur veirð sýnt fram á ávinning af meðferð hjá þeim sem ekki þurfa súrefni.
        • Gagnsemi var meiri hjá einstaklingum með einkenni í >7 daga.

        Í ljósi fyrirliggjandi gagna og að teknu tilliti til mikillar og góðrar reynslu af dexamethasone, er rétt að mæla með notkun lyfsins í samráði við smitsjúkdómalækni sé frábending ekki til staðar.

        Ath. notkun dexamethasone er EKKI frábending fyrir samhliða meðferð með virku veirulyfi, þ.e. remdesivír eða favipiravír.

        Mælt er með meðferð með dexamethasone þegar sjúklingur er með öndunarbilun sem
        • krefst öndunarvélameðferðar
        • krefst súrefnis, einkum ef einkenni hafa staðið >7 daga og ástand sjúklings er versnandi

        Skammtur
        6 mg po/iv x1 í 10 daga

        Við klíníska svörun má stöðva meðferð við útskrift

        Meðferð með remdesivír
        Remdesivir er nýtt veirulyf, sem hefur fengið tímabundna skráningu í Evrópu fyrir fullorðna og börn ≥12 ára (þyngd ≥40 kg ef sjúklingur er barn). Það er talið hafa virkni gegn SARS-COV-2.
        Lyfið er alltaf gefið í samráði við smitsjúkdómalækni.

        Notkun remdesivir
        • Mælt er með notkun remdesivir þegar öndunarbilun krefst innlagnar með súrefni (SpO2≤94%), einkum ef ástand sjúklings er versnandi
        • Íhuga má notkun þess þegar sjúklingur er með öndunarbilun, sem krefst öndunarvélameðferðar

        Frábendingar
        • Nýrnabilun (eGFR <30ml/min)
        • ALAT > 5x efri mörk
        • Lifrarbilun
        • Forðast ætti notkun NSAID og lyfja sem hafa áhrif á nýrnastarfsemi.
        • Konur á barneignaraldri þurfa að nota getnaðarvarnir og hætta með börn á brjósti á meðan á meðferð stendur
        • Remdesivir flokkast sem B:3 fyrir þungaðar konur. Gögn skortir til að meta áhrif á þungun. Remdesivir ætti ekki að nota í þungun, nema klínískt ástand sjúklings kalli á slíka meðferð.

        Aðgengi að lyfi á LSH
        • Lyfið er geymt í Sjúkrahúsapóteki LSH Hringbraut. Lyfjafræðingar senda lyf á deild.
        • Á deildum A7 og gjörgæslu Fossvogi eru möppur sem innihalda ítarefni um remdesivír og gjöf þess.

        Skammtar
        Inj. Remdesivir

        Dagur 1: 200 mg x 1 iv.
        Dagar 2-5 eða 2-10: 100 mg x 1 iv.:
        • Sjúklingur, sem ekki fer í öndunarvél, fær 5 daga meðferð
        • Sjúklingur í öndunarvél fær 10 daga meðferð
        • Fari sjúklingur í öndunarvél eftir að meðferð hófst, er gefin 10 daga meðferð
        • Við klíníska svörun má stöðva meðferð við útskrift

        Blöndun og inngjöf
        Lyfið er blandað og gefið skv. leiðbeiningum um blöndun og inngjöf remdesivír
        • Hettuglas þarf að ná stofuhita fyrir notkun
        • Lyf er blandað í 250 ml 0,9% NaCl
        • Dreypið er gefið á 30 mínútum


        Meðferð með Tocilizumab
        Tocilizumab er IL-6 viðtakahemill með langan helmingunartíma

        Lyfið hefur hugsanlega verkun í tilfellum með ofaukið bólgusvar.
        Við grun um slíkt ástand má íhuga gjöf lyfsins.
        Lyfið þarf að vera aðgengilegt á deildum sem sinna COIVD-19 sjúklingum.

        Eingöngu ætti að íhuga gjöf lyfsins að eftirfarandi skilyrðum uppfylltum OG í samráði við og með samþykki ráðgefandi smitsjúkdómalæknis
        • Liðnir eru a.m.k. 7 dagar frá upphafi einkenna OG
        • Viðvarandi hiti (>38,0°C) OG
        • Öndunarbilun með vaxandi súrefnisþörf (5L í nös og SpO2<93%) EÐA ARDS PaO2/FiO2<200

        Einnig má hafa ferritin, D-dimer og IL-6 til hliðsjónar.

        Samþykki fyrir lyfjagjöf
        Lyf þarf samþykki lyfjanefndar – senda þarf erindi með kennitölu og ábendingu gegnum Heilsugátt á vöktuðu spjallrásina „COVID umsókn tocilizumab“ til að koma umsókn í réttan farveg.

        Skammtur lyfs
        Stakur skammtur í æð, 400 mg

        Blöndun
        Lyf er blandað í 100 ml NaCl og gefið á minnst 1 klst.
          Helstu heimildir:
          1. Beigel, J. H., Tomashek, K. M., Dodd, L. E., Mehta, A. K., Zingman, B. S., Kalil, A. C., ... & Lopez de Castilla, D. (2020). Remdesivir for the treatment of Covid-19—preliminary report. New England Journal of Medicine. DOI:10.1056/NEJMoa2007764
          2. “Diagnosis and treatment protocol for novel coronavirus pneumonia” 2020-03-03. National Health Commission and State Administration of Traditional Chinese Medicine.
          3. http://www.kankyokansen.org/uploads/uploads/files/jsipc/protocol_V7.pdf
          4. Guidance of antiviral drug treatment for COVID-19 1st edition. 2020-02-26. The Japanese Association for Infectious Diseases.
          5. Goldman, J. D., Lye, D. C., Hui, D. S., Marks, K. M., Bruno, R., Montejano, R., ... & Chen, Y. S. (2020). Remdesivir for 5 or 10 days in patients with severe Covid-19. New England Journal of Medicine. DOI:10.1056/NEJMoa2015301
          6. Horby, P., Lim, W. S., Emberson, J. R., Mafham, M., Bell, J. L., Linsell, L., ... & Prudon, B. (2020). Dexamethasone in Hospitalized Patients with Covid-19-Preliminary Report. The New England journal of medicine.
          7. Interim clinical guideance for adults with suspected or confirmed COVID-19 in Belgium. Version 11; 2020-07-12.
          8. https://epidemio.wiv-isp.be/ID/Documents/Covid19/COVID-19_InterimGuidelines_Treatment_ENG.pdf
          9. “Nationellt vårdprogram för misstänkt och bekräftd covid-19. Version 1.0 juni 2020. Svenska Infektionsläkarföreningen, Svenska Hygienläkarföreningen och Föreningen för Klinisk Mikrobiologi.
          10. https://infektion.net/wp-content/uploads/2020/06/nationella_covid_200626_final_silf.pdf
          11. Remdesivir – Leiðbeiningar AMD2. Útg.1.0, 10.júní 2020. Gilead.
          12. UW Medicine Interim Treatment Guidelines for SARS-CoV-2 Infection/COVID-19. 2020-09-07. University of Washington. Downloaded 2020-09-16. https://covid-19.uwmedicine.org/Pages/default.aspx
          13. Xu, Xiaoling,Han, Mingfeng,Li, Tiantian,Sun, Wei,Wang, Dongsheng,Fu, Binqing,Zhou, Yonggang,Zheng, Xiaohu,Yang, Yun,Li, Xiuyong,Zhang, Xiaohua,Pan, Aijun,Wei, Haiming.(2020). Effective Treatment of Severe COVID-19 Patients with Tocilizumab.[ChinaXiv:202003.00026] http://www.chinaxiv.org/abs/202003.00026v1
          14. Översikt experimentella behandlingsalternativ av COVID-19 infektion. Version 2020-04-16. Referensgruppen för Antiviral Terapi (RAV). https://www.sls.se/globalassets/rav/rekommendationer/coronan-rav-16-april-2020.pdf
          Fara aftur í verklagsreglu: Uppvinnsla og meðferð einstaklinga með COVID-19
          Tengd skjöl: COVID-19 - handbók

        Ritstjórn

        Agnar Bjarnason - agnarbja
        Anna María Þórðardóttir
        Guðrún Bragadóttir - gudbraga

        Samþykkjendur

        Ábyrgðarmaður

        Már Kristjánsson

        Útgefandi

        Guðrún Bragadóttir - gudbraga

        Upp »


        Skjal fyrst lesið þann 04/01/2020 hefur verið lesið 1320 sinnum