../ IS  
Útgefið gæðaskjal: Vinnulýsing
Skjalnúmer: LSH-3189
Útg.dags.: 01/04/2021
Útgáfa: 4.0
16.03.01.01 Brjóstabólga og ígerð í brjósti
    Hide details for TilgangurTilgangur
    Að lýsa greiningu og meðferð við brjóstabólgu og ígerð í brjósti. Um 3-10% mjólkandi mæðra fá brjóstabólgu og um 3% kvenna með brjóstabólgu fá abscess. Algengt er að bólgan komi fram á fyrstu sex vikum eftir fæðingu. Algengustu bakteríur eru Stafýlókokkar aureus en aðrir orsakavaldar geta verið Streptókokkar (grúppa A og B) eða E. Coli. Helstu einkenni brjóstabólgu eru roði, hiti, bólga og verkur á afmörkuðu svæði á brjóstinu,
    með eða án hitahækkunar.
    Hide details for Skilgreiningar og orsakirSkilgreiningar og orsakir
    Brjóstabólga án sýkingar
    Roði, eymsli og hiti í brjóstinu. Getur verið almennur hiti en oftast ekki almenn sýkingareinkenni eins koma fram þegar um flensu er að ræða. Orsakast af ófullnægjandi tæmingu úr brjósti eða stíflu.

    Brjóstabólga með sýkingu
    Roði, eymsli, bólga og hiti í brjóstinu ásamt hitahækkun 38,5°C, í meira en 24 klst. Kuldahrollur og flensulík einkenni geta komið fram. Uppruni brjóstabólgu getur verið frá sári á geirvörtu og sýkingin þannig orsakast af húðbakteríum. Algengasta baktería sem orsakar brjóstasýkingu er Stafýlókokkus aureus (Staphylococcus aureus) en einnig geta koagulasa neikvæðir Stafýlókokkar ræktast, viridans Streptókokkar, gruppa B Streptókokkar (GBS) og Enterókokkar fecalis en er það þó ekki eins algengt. Við húðsýkingar geta ræktast streptókokkar, oftast beta hemolytiskir grúppa A en einnig grúppa C og G. Bakteríurnar geta einnig ræktast úr bjóstamjólk einkennalausra kvenna.

    Ígerð í brjósti (abscess)
    Sýking sem hefur valdið graftarpolli í brjóstvef. Bólgusvæðið er vel afmarkað, hart, rautt og aumt þrátt fyrir viðeigandi sýklalyfjameðferð. Ígerðin lýsir sér í afmarkaðri vökvasöfnun og sést í ómskoðun. Helsta ástæða fyrir abscess myndun er vanmeðhöndluð brjóstabólga og sömu meinvaldar og þegar um sýkingu er að ræða.

    Þættir sem geta valdið því að bólga myndast í brjósti
    • Sár á geirvörtu.
    • Ófullnægjandi tæming úr brjósti.
    • Barnið nær ekki góðu taki á geirvörtu eða ósamhæft sog barns.
    • Veikindi hjá móður eða barni.
    • Mikil mjólkurframleiðsla.
    • Þrýstingur á brjóstið (þröngur brjóstahaldari eða bílbelti).
    • Streita og þreyta hjá móður.
    • Aðskilnaður móður og barns.

    Mismunagreiningar
    Í sængurlegu þarf að hafa í huga mismunagreiningar eins og sýkingu í legi (endometrit), blóðsegarek (DVT/lungnaemboliu), þvagfærasýkingu, efri loftvegasýkingu eða veirusýkingu.
    Hide details for FramkvæmdFramkvæmd
      Hide details for Brjóstabólga (mastitis)Brjóstabólga (mastitis)
      Kona kemur á deild vegna roða og eymsla í brjósti með eða án hita
      • Brjóstagjafarráðgjafi eða ljósmóðir metur hvort um stíflur/sýkingu er að ræða, sjá Brjóstabólga - skoðun.
      • Ef grunur er um sýkingu er haft samband við lækni.
      • Ef kona hefur haft einkenni brjóstasýkingar í meira en 24 klukkustundir og er ekki batnandi eru gefin sýklalyf.

      Rannsóknir
      • Í flestum tilfellum er ekki þörf blóðrannsóknum eða ræktunum í upphafi brjóstasýkingar, en það er þó metið hverju sinni.
      • Brjóstamjólk er send í ræktun ef:
        • Ekki er fullnægjandi árangur af sýklalyfjameðferð.
        • Brjóstabólga er endurtekin.
      • Sýni tekið úr brjóstamjólk:
        1. Geirvarta er þvegin
        2. Brjóstamjólk er handmjólkuð í sterílt ílát. Sýni er tekið úr miðjuflæðinu til að minnka hættu á mengun af húðflóru.

      Brjóstabólga án sýkingar
      Veitt er styðjandi meðferð. Afhent er fræðsluefni um fyrirbyggjandi meðferð og farið yfir það með konu: Brjóstabólga og brjóstagjöf. Ef einkenni brjóstabólgu eru væg og hafa staðið í minna en sólahring, þá dugar jafnvel að mjólka úr brjóstinu og tæma vel, ásamt hvíld hjá móður.
      Kona er hvött til að:
      • Tæma brjóstið oft og vel og vanda álögn á geirvörtu.
      • Hætta ekki með barnið á brjósti þar sem það getur aukið áhættu á sýkingu og ígerð.
      • Leggja barnið oft á brjóst og byrja á sýkta brjóstinu.
      • Staðsetja barnið á brjóstinu með höku eða nef í áttina að stíflaða (veika) svæðinu, það bætir tæmingu þar.
      • Nudda brjóstið meðan á gjöf stendur til að auðvelda mjólkurflæðið. Nudda frá stíflaða svæðinu í átt að geirvörtu. Handmjólka úr brjóstinu eða nota mjaltavél eftir brjóstagjöf.
      • Hvílast og nærast og drekka vel.
      • Nota hitabakstur fyrir brjóstagjöf því það auðveldar mjólkurflæðið.
      • Nota kælibakstur í 10 til 15 mínútur eftir brjóstagjöf eða mjólkun til að minnka verki og bjúg.

      Brjóstabólga með sýkingu
      Kona er meðhöndluð með lyfjagjöf og veitt styðjandi meðferð og fræðsla. Tekin er upplýsingasöfnun og læknir gerir skoðun á konu. Ef grunur er um ígerð í brjósti (abcess) er brjóstið ómskoðað. Aðrar mismunagreiningar sem geta komið upp eftir fæðingu eru hafðar í huga svo sem sýkingu í legi (endometrit), bláæðasegi (DVT), þvagfærasýking, efri loftvegasýking og veirusýking. Ef líðan konu er ekki betri eftir tvo sólarhringa á lyfjameðferð um munn þarf hún að koma í endurmat á kvennadeild. Sama gildir ef kona byrjar lyfjameðferð á heilsugæslu. Lögð er áhersla á að hafa barnið áfram á brjósti þrátt fyrir sýkinguna því mikilvægasta meðferðin er að tæma mjólk oft og vel úr brjóstinu með því að leggja barnið oft á brjóst, handmjólka eða nota mjaltavél. Ef hún vill hætta með barnið á brjósti er mikilvægt að halda áfram meðhöndlun sýkingarinnar.

      Verkjalyf
      Yfirleitt eru miklir verkir í brjósti, því er mikilvægt að meðhöndla verki með verkjalyfjum: T. Íbufen 400-600 mg x 3 og/eða T. Parasetamól 1 gr x 4.

      Sýklalyfjameðferð
      • Kona sem er með hita og einkenni sýkingar í brjósti í meira en 24 klukkustundir þrátt fyrir góða tæmingu úr brjóstinu fær meðhöndlun með sýklalyfjum. Fyrsta val á sýklalyfjum við Staphylococcus Aureus og Streptococcus er:
      • T. Staklox 1 gr x 4 í 7-10 daga. Minnka má skammt í 500 mg x 4 eftir 2-3 daga ef svörun er góð. Ef penicillínofnæmi er til staðar, er gefið T. Keflex 500 mg x 4 eða T. Dalacin 300 mg x 3.

      Ef kona er með hita 38,5°C og grun um sýklasótt er tekin blóðræktun og fylgt verklagi um sýklasótt. Ef metið er að konan þurfi innlögn er gefið inj. Eqvacillin 2 gr x 4 i.v. þar til hún er hitalaus í 24 klst. og þá er skipt í meðferð um munn.

      Eftirfylgd þegar um sýkingu er að ræða
      Bókaður er símatími hjá vaktljósmóður eða brjóstagjafaráðgjafa sem fylgir konu eftir með símtali um tveimur dögum eftir að meðferð með sýklalyfjum hefst.

      Skráning
      • Meðferð er skráð í sjúkraskrá.
      • ICD10 greining: Brjóstabólga í kjölfar barnsburðar O91.2.
      Hide details for Ígerð í brjósti (abscess)Ígerð í brjósti (abscess)
      Oftast myndast graftarpollur (abcess) í brjóstinu yfir lengri tíma. Konur geta verið með hefðbundin sjúkdómseinkenni en einnig verið hitalausar. Brjóstið getur verið spennt, með glansandi húð og bjúgað. Dúandi fyrirferð á brjóstinu getur þreifast.

      Ef grunur er um ígerð gerir læknir ómskoðun á brjósti til greiningar. Í ómskoðun sést þá graftarpollur í bjósti og ómsnautt svæði þar sem ekkert flæði er sjáanlegt.

      Ástunga
      1. Vökvafyllt svæði < 3 cm: Gerð er ástunga á brjóstið í staðdeyfingu, til að fjarlægja vökva/gröft og sýni sent í ræktun. Ef ekki kemur gröftur er hjálplegt að nota ómhausinn til að sjá hvar nálin liggur. Skolað er með saltvatni í abscessholuna. Endurkoma eftir 3-5 daga og ástunga endurtekin ef nauðsyn krefur. Fara þarf sérstaklega varlega við ástungu ef kona er með sögu um aðgerð á brjósti (brjóstafyllingu).
      2. Vökvafyllt svæði > 3 cm: Sett er pigtail dren.
        1. Húðin er deyfð og lítill skurður gerður með hnífi í húðina.
        2. Drenið sett inn í abscess og gröftur dreginn út.
        3. Sýni er sent í ræktun.
        4. Skolað er með saltvatni.
        5. Dren er fest með umbúðum og skolað 2-3 með saltvatni. Reynt er að hafa drenið staðsett þannig að geirvartan sé ekki hulin umbúðum og konan geti haldið áfram að gefa brjóst (sjá mynd).
        6. Konu og maka eru veittar upplýsingar um hvernig skola á abscess og tæma út vökva 3-4 sinnum á sólarhring heima. Fyrst er skolað með sama magni af saltvatni og kom út við fyrstu tæmingu en holrýmið ætti að minnka fljótt. Við hverja skolun á að fylla og tæma holrýmið 3-4 sinnum í hvert sinn.
        7. Misjafnt er hvenær dren er fjarlægt, oft eftir 3-7 daga.
      Aðrar ráðleggingar
      • Sama verkjalyfjameðferð er ráðlögð og við brjóstasýkingu (sjá ofan)
      • Sýklalyfjameðferð er sú sama og ráðlögð að ofan við brjóstasýkingu en meðhöndlum er breytt skv. ræktunarsvari hafi það borist.
      • Kona er hvött til að hafa barnið áfram á brjósti, nema ef húðdrep hefur myndast.

      Ef viðunandi árangur næst ekki eða húðrof verður er haft samband við brjóstaskurðlækni eða brjóstateymi á göngudeild 10E í sima 825-3520.

      Skráning
      • Meðferð er skráð í sjúkraskrá.
      • ICD10 greining: Ígerð (abscess) í brjósti í kjölfar barnsburðar 091.1.
      • Aðgerðarnúmer HASA00 - stungið á abscess.
    Hide details for HeimildirHeimildir
    1. Up to date, lactational mastitis, breast abscess.
    2. A descriptive study of mastitis in Australian breastfeeding women: incidence and determinants. Amir, L.H., Forester D.A., Lumley, J., og McLachlan H. BMC Public health, 2007, 7:62.
    3. ABM Clinical Protocol #4: Mastitis, revisited March 2014. Amir, L.H. and the akademy of brestfeeding medicine protocol committee. Breastfeeding Medicine, 2014, 9(5). 239-243.
    4. Mastitis and breast (lactational) abscess - readmission for threatment. The Royal hospital for women. Clinical policies, procedures & guidelines. 2015.
    5. Pubmed, Management of mastitis in breastfeeding women, JP Spencer A, m Fam Physician 2008 sept 15,78( 6) 723-31.
    6. PubMed , Antibiotics for mastitis in breastfeeding women,S Jahanfar, Cochrane database syst rev 2009 jan 21.
    7. NHS choices Breast abscess treatment.
    8. WHO- World Health Organization (2000). Mastitis: Causes and management. World Health Organization.
    9. Walker, M. (2017). Breastfeeding Management for the Clinician. Using the evidence. Fourth edt. Canada: Jones and Bartletts Publishers.
    10. Wamback, K. Og Spencer, B. (2021). Breastfeeding and human lactation. Sixth edt. Burlington, MA: Jones & Bartlett Learning.

Ritstjórn

Eva Jónasdóttir - evajonas
Ingibjörg Eiríksdóttir - ingieiri
Kolbrún Gísladóttir
Margrét Sjöfn Torp

Samþykkjendur

Ábyrgðarmaður

Ingibjörg Th Hreiðarsdóttir
María G Þórisdóttir
Hulda Hjartardóttir

Útgefandi

Kolbrún Gísladóttir

Upp »


Skjal fyrst lesið þann 11/03/2015 hefur verið lesið 1653 sinnum