../ IS  
Útgefið gæðaskjal: Leiðbeiningar
Skjalnúmer: Rsýk-207
Útg.dags.: 10/07/2023
Útgáfa: 11.0
2.02.15 Húð, hár og neglur - sveppir
Hide details for Rannsóknir - Heiti, ábendingar, grunnatriðiRannsóknir - Heiti, ábendingar, grunnatriði
Heiti rannsóknar: Hornvefur - svepparannsókn
Samheiti: Hár, húð, neglur - svepparæktun
Pöntun: Beiðni um sýklarannsókn eða Cyberlab innan LSH. Verð: Sjá Gjaldskrá
    Hide details for ÁbendingÁbending
    Grunur um sýkingar í hornvef af völdum eftirfarandi sveppa.
    1) Húðsveppir (dermatophytes) sýkja húð, hár og neglur. Algengasta smitleiðin er úr umhverfi, oftast frá gólfi, mengað með sýktum húðflögum frá öðru fólki. Önnur smitleið ákveðinna sveppategunda er frá sýktum dýrum í menn. Langvarandi leyndar sýkingar eru algengar í táfitjum og geta blossað upp í raka og hita.
    (i) Sýking á húð getur verið hvar sem er, en hér á landi er hún oftast á fótum (táfitjar og iljar); einkenni fara eftir staðsetningu. Á sléttri húð og í stærri húðfellingum myndast roðablettur með flögnun og stundum vægum kláða. Bletturinn stækkar, miðjusvæðið læknast en brúnir eru rauðar, upphleyptar með vægri flögnun. Á iljum og í táfitjum er hreistrun og sprungur algengt. Roði og kláði í táfitjum benda til fylgisýkingar af völdum baktería.
    (ii) Sýking í hári einkennist venjulega af skallablettum, stórum eða litlum og einkennum sýkingar í hársverði. Sýking í skeggi einkennist oft af mikilli bólgu í húð.
    (iii) Sýkingar í nöglum eru algengari í tánöglum en fingurnöglum, byrja oftast yst undir nöglinni og vaxa í átta að naglrót. Sjaldgæfara er að sjá sýkingu byrja við naglrót eða í stökum blettum í naglplötunni. Naglvefurinn þykknar, breytir um lit (gulgrár eða hvítleitur), morknar og stundum verður nagllos.
    2) Candida gersveppir sýkja húð og neglur og koma venjulega úr eigin flóru. Húðsýkingar eru venjulega í stórum húðfellingum s.s á bleyjusvæði eða undir brjóstum. Sýkingarnar einkennast af roða og bólgu, en ekki flögnun, á afmörkuðu svæði, stundum með minni útbrotum í kringum svæðið. Naglsýkingar verða helst í fingurnöglum, sjaldnar í tánöglum. Þær byrja venjulega í eða við naglrót og vaxa fram með nöglinni. Á fingrum er oft greinileg bólga í naglrót. Naglvefur þykknar og hvítnar.
    3) Myglusveppir koma úr ytra umhverfi og valda örsjaldan naglsýkingum á fótum. Einkenni eru eins og við naglsýkingar af völdum húðsveppa.
    4) Malassezia gersveppir lifa á fituríkum húðsvæðum (í eðlilegri húðflóru) og verða sýkingar því aðallega á efri hluta bols, í andliti og hársverði. Á bol veldur sveppurinn (a) pityriasis versicolor, þ.e. ljósbrúnir eða hvítir blettir, sem geta runnið saman í skellur, án bólgu eða annarra einkenna og (b) folliculitis. Í andliti og hársverði veldur Malassezia flösuþrefi (seborrheic dermatitis).

    Grunur um blóðborna sýkingu (bólur í húð): sýnataka og sýklarannsókn eru ólíkar neðangreindu, sjá 2.02.07.01.30 Vefjasýni - bakteríur, sveppir, mýkóbakteríur
    Hide details for Grunnatriði rannsóknarGrunnatriði rannsóknar
    Sýkingar aðrar en pityriasis versicolor: sýni er: (i) blandað við 5 – 10% KOH með litarefni í og skoðað í smásjá; (ii) sáð á æti og ræktað í 3 vikur. Alltaf er greint frá húðsveppum sem ræktast og þeir tegundagreindir (t.d. Trichophyton rubrum). Candida finnst í eðlilegri flóru og ræktast oft í litlu magni í húð og naglsýnum án þess að vera sýkingarvaldur. Greint er frá Candida þegar: (a) aðrir sýkingarvaldar ræktast ekki og (b) sveppurinn vex í miklu magni með öðrum sýkingarvöldum. Candida er tegundargreind (t.d. C. albicans) ef líklegt þykir að sveppurinn sé sýkingarvaldur. Greint er frá myglusveppum þegar húðsveppir ræktast ekki og: (a) um er að ræða sveppi sem hefur áður verið lýst í naglsýkingum; (b) sveppir sjást í sýni við smásjárskoðun og margar þyrpingar af sama svepp ræktast. Undantekning frá þessu eru örfáir myglusveppir sem eru vel þekktir naglsýkingarvaldar (t.d. Scopulariopsis brevicaulis) og er alltaf greint frá þeim, jafnvel þó húðsveppir ræktist líka. Næmispróf á sveppum í hornvefjasýkingum eru ekki framkvæmd í rútínu.
    Pityriasis versicolor (Malassezia sp): Best er að greina Malassezia með límbandsprófi. Smásjárskoðun á límbandssýninu sýnir litlar gersveppafrumur og sveppþræði. Malassezia er fitusækin og ræktast illa á venjulegum ætum; þarf að bæta olíu í þau til að fá fram vöxt.
    Hide details for SýnatakaSýnataka
      Hide details for Sérstök tímasetning sýnatökuSérstök tímasetning sýnatöku
      Æskilegt er að taka sýni fyrir upphaf sveppalyfjagjafar. Vöxtur sveppa bælist þó síðar (eftir lyfjagjöf) en vöxtur baktería eftir bakteríulyfjagjöf.
      Hide details for Ílát og áhöldÍlát og áhöld
      Húð, hár og neglur: húðskafa, töng og sterkar naglklippur; sýni sett í dauðhreinsað glas með utanáskrúfuðu loki.
      Candida sýkingar (ef of rakar fyrir skaf): strokpinni fyrir loftháða sýkla eins og fyrir venjulega bakteríuræktun (t.d. Copan Innovation með bláum tappa).
      Pityriasis versicolor (Malassezia sp.): skafa, límband og smásjárgler.
      Hide details for Gerð og magn sýnisGerð og magn sýnis
      Skaf frá húð, hári (ásamt sýktum hárum) og nöglum; magn skal vera sjáanlegt í glasi. Skaf frá > 2 táfitjum má setja í sama glas, skaf frá > 2 tá- eða fingurnöglum má setja í sama glas. Skaf úr hársverði og sýkt hár má setja í sama glas.
      Strok frá rökum húðsýkingum ef skaf fæst ekki (Candidasýkingar). Einn pinni nægir.
      Límband á gleri ef grunur um pityriasis versicolor af völdum Malassezia,eitt gler nægir.
      Hide details for Lýsing sýnatökuLýsing sýnatöku
      Húð- eða hársýkingar af völdum húðsveppa og Candida húðsýkingar: skrapa skal húðflögur úr jaðri hins sýkta svæðis, eftir að hafa hreinsað húðina með alkóhóli. Ef sýking er rök og ekki unnt að skrapa húðflögur skal nudda jaðarsvæðið þétt með bómullarpinna. Á táfitjum og iljum er sýking yfirleitt ekki jafn vel afmörkuð og er þá skafið í allt sýkta svæði. Grunur um hársýkingu. Kippa skal upp sýktum hárum og skrapa hársvörð á sýktu svæði.
      Grunur um pityriasis versicolor (af völdum Malassezia): skafið er í útbrot þannig að væg flögnun sjáist, leggja svo límband á til að festa húðflögur við það (þarf ekki að liggja á) og líma límbandið á smásjárgler sem sent er á rannsóknastofuna.
      Grunur um naglsýkingu: Algengast er að naglsýking byrji í distal enda naglar og færi sig í átt að naglrót. Eftir að hafa hreinsað nöglina með alkóhóli skal klippa distal endann af og henda. Síðan er þykkur, morknaður naglvefur skafinn ofan í ílát. Ef sýking nær upp í naglplötuna má einnig taka sýni þaðan. Ef sýking myndar staka bletti ofan á nögl eða byrjar við naglrót skal skafa upp úr sýktum vef með hnífsblaði eða sköfu.

      Örugg losun sýnatökuefna og áhalda

    Hide details for Sending og geymslaSending og geymsla

    Hide details for NiðurstöðurNiðurstöður
      Hide details for SvarSvar
      Ef sveppir sjást í smásjárskoðun á sýni þá er neikvæðri ræktun svarað eftir 4 vikur, en eftir 3 vikur ef engir sveppir sjást. Jákvæð svör geta borist fyrr. Svar við smásjárskoðun á sýni við leit að Malassezia fæst innan sólarhrings á virkum dögum.
      Hide details for TúlkunTúlkun
      Húðsveppir í húð, hári og nöglum teljast alltaf meinvaldar.
      Candida tegundir, að C. albicans undanskilinni (býr í meltingarvegi og skeið), finnast í eðlilegri húðflóru og þarf að túlka niðurstöður ræktunar út frá smásjárskoðun, magni sem ræktast og einkennum sjúklings.
      Myglusveppir í yfirborðssýnum eru langoftast mengun í sýni sjúklings. Meðferð myglusveppasýkinga í nöglum er ekki stöðluð og gengur stundum illa vegna lélegs lyfjanæmis. Því er mikilvægt að staðfesta sýkingu áður en meðferð er hafin. Sýking telst staðfest eftir þrjár jákvæðar svepparannsóknir, sem allar sýna sveppi við smásjárskoðun og sama svepp í ræktun í öll skiptin.
      Malassezia telst sýkingarvaldur þegar sveppurinn greinist í dæmigerðum húðblettum.
      Neikvæð rannsókn.
      Neikvæð rannsókn útilokar ekki sveppasýkingu; niðurstöður rannsóknar eru háðar gæði sýnis. Almennt gildir að taka húðsýni á réttum stað í sýkingu og fá nægilegt magn (sjá "Lýsing sýnatöku"). Fylgisýkingar eða sýklun af völdum baktería verða gjarna í sveppasýktum táfitjum í kjölfar raka og hita. Merki um slíkt eru aukin soðnun, roði, kláði og bólga. Í þessum tilvikum getur reynst erfiðara að einangra sveppina, sem virðast hörfa í dýpri lög hornvefjar, og getur þurft að meðhöndla bakteríusýklun/sýkingu áður en tekið er sýni fyrir svepparannsókn. Í nöglum er mikilvægt að taka sýni sem næst hinum heilbrigða naglvef, þar sem sýkingin er virkust. Tvennt dregur úr líkum á jákvæðri rannsókn á sýkingum sem byrja distalt í nögl : (i) fremsti bútur naglar inniheldur mengun af völdum baktería og sveppa sem hindra vöxt húðsveppa á agarskálum ; (ii) húðsveppir vaxa í átt að heilbrigðum vef og eru sveppþræðir distalt í nöglinni oft dauðir.

    Hide details for HeimildirHeimildir
    1. Karen C. Carroll og Michael A. Pfaller. Manual of Clinical Microbiology. ASM Press, Washington D.C.
    2. Amy L. Leber og fél. Clinical Microbiology Procedures Handbook. ASM Press, Washington D.C.

    Ritstjórn

    Álfheiður Þórsdóttir - alfheidt
    Ingibjörg Hilmarsdóttir
    Sara Björk Southon - sarabso
    Katrín Rún Jóhannsdóttir - katrinrj

    Samþykkjendur

    Ábyrgðarmaður

    Ingibjörg Hilmarsdóttir

    Útgefandi

    Álfheiður Þórsdóttir - alfheidt

    Upp »


    Skjal fyrst lesið þann 04/29/2010 hefur verið lesið 70518 sinnum