../ IS  
Útgefið gæðaskjal: Vinnulýsing
Skjalnúmer: LSH-3298
Útg.dags.: 04/14/2023
Útgáfa: 5.0
5 COVID-19 - viðbragðsáætlun á Vökudeild
    Hide details for TilgangurTilgangur
    Að lýsa viðbragðsáætlun á Vökudeild vegna COVID-19 faraldurs.
    Samkvæmt þeim upplýsingum sem liggja fyrir um COVID-19 eru nýburar ekki í áhættuhóp að veikjast alvarlega af COVID-19. Aðeins eru örfá dæmi um sýkingu nýbura í móðurkviði og ekki hefur verið sýnt fram á veiruna í leggöngum, legvatni, naflastrengsblóði, brjóstamjólk eða koki nýbura. Þetta er í samræmi við það sem vitað er um SARS og MERS sem eru sambærilegar coronaveirur. Þessar leiðbeiningar eru í samræmi við alþjóðlegar leiðbeiningar.
    Hide details for FramkvæmdFramkvæmd
    Fæðing COVID-19 sýktrar móður eða þegar grunur er um COVID-19 smit
    • Ekki er sérstaklega þörf á viðveru barnalæknis við fæðingu þó svo að móðir sé með staðfest COVID-19 eða grunuð um COVID-19 smit. Ábendingar fyrir viðveru barnalæknis við fæðingu eru þær sömu og við aðrar fæðingar.
    • Ef móðir með staðfest COVID-19 smit kemur inn í fæðingu upplýsir vaktstjóri fæðingarvaktar vaktstjóra Vökudeildar um væntanlega fæðingu. Vaktstjóri Vökudeildar setur upp endurlífgunaraðstöðu fyrir utan fæðingarstofu. Þar á að vera endurlífgunarborð, ambubelgur tengdur við súrefni, Neopuff tengt við súrefni, loft og sog. Ef barn þarf aðstoð eða brátt mat barnalæknis þurrkar ljósmóðir vel af barninu, leggur það í hreina vöggu og færir það í hendur nýburateymis fyrir utan fæðingarstofu.
    • Nýburateymið (nýburalæknir, hjúkrunarfræðingur, deildarlæknir) fer ekki inn á fæðingarstofuna sjálfa. Á þessum tímapunkti er barnið ekki álitið smitandi og nýburateymið klæðist hlífðarsloppi og er með hanska og skurðstofugrímu.
    • Aðstandandi fylgir barni ekki út af fæðingarstofu. Ef barn þarf sértækt eftirlit nýburateymis leggst það inn á Vökudeild.
    • Barnið er hér ekki álitið útsett fyrir COVID-19 og þarf ekki að einangra barnið sérstaklega.
    • Reynt er að stuðla að samveru móður og barns við fyrsta tækifæri.

    Barn í umsjón COVID-19 smitaðrar móður á sængurlegudeild eða í heimaþjónustu
    • Foreldrar eða aðrir aðstandendur annast einkennalaus börn, ekki er þörf á aðskilnaði móður og barns.
    • Einkennalaus börn mega fara í heimaþjónustu ljósmæðra en brýnt er fyrir foreldrum mikilvægi handþvottar og sýkingavarna við umönnun barns.
    • Börnin mega fara á brjóst en þá ber móður að huga vel að handþvotti og fylgja leiðbeiningum um sóttvarnir.
    • Ef sinna þarf barni sem hefur verið í umsjón móður með COVID-19 smit er fullur COVID-19 hlífðarbúnaður nauðsynlegur. Þetta á líka við um hefðbundna nýburaskoðun sem nýburalæknir framkvæmir. Haft er samband við yfirlækni Vökudeildar varðandi 5 daga skoðun.
    • Ekki er þörf á sýnatöku fyrir SARS-CoV-2 hjá einkennalausum börnum.
    Börn sem leggjast inn á Vökudeild
    • Börn sem leggjast inn á Vökudeild strax eftir fæðingu og hafa ekki verið í umsjón móður eru ekki álitin smitandi. Grundvallarsmitgátar er gætt en ekki er þörf á einangrun eða einbýli.
    • Börn sem hafa verið í umsjón móður með staðfest COVID-19 smit eru einangruð frá öðrum sjúklingum og sinnt í COVID-19 hlífðarbúnaði.
    • Börnin mega fá brjóstamjólk móður en gæta þarf vel að hreinlæti. Hér er fyrst og fremst átt við snertismit en ekki hefur verið sýnt fram á veiru í brjóstamjólk.
    • Eftir sem áður gildir að öll börn 7 daga eða yngri og þurfa innlögn á sjúkrahús leggjast inn á Vökudeild og börn yngri en 12 vikna sem þurfa gjörgæslumeðferð leggjast inn á Vökudeild óháð COVID-19 smiti.
    Heimsóknir
    • Gestir þurfa að nota skurðstofugrímu og ekki koma á deildina ef þeir hafa einkenni um sýkingu. Fylgt er gildandi heimsóknarreglum deildar.
    • Hafi foreldri staðfest COVID-19 smit má viðkomandi ekki koma á deild fyrr en sjö dagar eru liðnir frá greiningu og sé einkennalaus.
    SARS-CoV-2 sýnataka hjá barni
    Ef barnið leggst inn á Vökudeild eftir að hafa verið útsett fyrir COVID-19 smiti er því sinnt í sóttkví og einangrað frá öðrum sjúklingum. Sóttkví lýkur með neikvæðu PCR sýni á 4. degi frá útsetningu. Sýnataka er fyrr ef barn er með einkenni.

    Börn að heiman sem þurfa mat barnalæknis
    Um börn sem eru 7 daga gömul eða yngri og þurfa að koma að heiman til skoðunar hjá barnalækni gildir eftirfarandi:
    1. Barn kemur af heimili þar sem er staðfest COVID-19 smit:
      • Barn kemur á bráðamóttöku Barnaspítalans. Starfsmönnum bráðamóttöku er gert viðvart við komu.
      • Ef barn þarf að leggjast inn er það flutt á einangrunarherbergi Vökudeildar í hitakassa. Hitakassi er ekki opnaður meðan á flutningi stendur nema í neyðartilfellum þar sem umhverfissmit getur átt sér stað sé kassinn opnaður. Starfsmenn sem flytja barnið eru í hreinum COVID-19 hlífðarbúnaði.
    2. Barn með nýburagulu:
      Barn móður, sem er í einangrun vegna COVID-19 og þarf ljósameðferð leggst inn á Vökudeild án foreldra sinna. Til greina kemur að meðhöndla barnið í ljósum heima til að fyrirbyggja aðskilnað foreldra og barns.
    Útskrifað barn veikist heima og er með staðfest COVID-19 smit
    Ef barn yngra en 12 vikna þarf sjúkrahúsvist leggst það inn á barnadeild 22E/dagdeild barna 23E:
    1. Ef barnið þarf á gjörgæslumeðferð að halda er því sinnt af hjúkrunarfræðingum og læknum Vökudeildar.
    2. Öllum börnum, sem eru 7 daga gömul eða yngri, er sinnt af hjúkrunarfræðingum og læknum Vökudeildar, hvort sem þau þurfa á gjörgæslumeðferð að halda eða ekki.

Ritstjórn

Björg Skúladóttir - bjorgsku
Elín Ögmundsdóttir
Hrólfur Brynjarsson - hrolfurb
Ingileif Sigfúsdóttir
Sigríður María Atladóttir
Kolbrún Gísladóttir
Margrét Sjöfn Torp
Þórður Þórkelsson
Ragnar Bjarnason
Snjólaug Sveinsdóttir - snjosvei
Valtýr Stefánsson Thors - valtyr

Samþykkjendur

Ábyrgðarmaður

Sigríður María Atladóttir
Þórður Þórkelsson

Útgefandi

Kolbrún Gísladóttir

Upp »


Skjal fyrst lesið þann 03/26/2020 hefur verið lesið 1029 sinnum