../ IS  
Útgefið gæðaskjal: Verklagsregla
Skjalnúmer: LSH-2882
Útg.dags.: 10/21/2022
Útgáfa: 17.0
27.00.01 COVID-19 - sýkingavarnir

    17. útg. - breytingar gullitaðar.
    Hide details for TilgangurTilgangur
    Að lýsa sýkingavörnum til að fyrirbyggja útbreiðslu COVID-19 (Corona virus disease-2019; SARS-CoV-2) innan Landspítala.
    Hide details for Ábyrgð og eftirfylgniÁbyrgð og eftirfylgni
    Verklagsreglan er byggð á núverandi vitneskju um COVID-19. Farsóttanefnd og sýkingavarnadeild bera ábyrgð á því að uppfæra upplýsingar og leiðbeiningar eftir því sem þekking á eiginleikum veirunnar eykst.

    Yfirlæknir og deildarstjóri bera ábyrgð á því að upplýsa starfsmenn og innleiða verkferla til að fyrirbyggja útbreiðslu veirunnar innan Landspítala. Þeim ber einnig að hafa eftirlit með því að starfsmenn fylgi settum verkferlum. Starfsmenn bera ábyrgð á því að kynna sér verkferla og fara eftir leiðbeiningum við störf sín.
    Hide details for Um kórónaveiruUm kórónaveiru
    Kórónaveirur eru algengar veirur sem valda oftast vægum efri öndunarfærasýkingum (kvefi). Nokkrar undirtegundir kórónaveira geta þó valdið alvarlegum neðri öndunarfærasýkingum eins og lungnabólgu með öndunarbilun. Má þar nefna SARS-CoV (ísl. HABL) og MERS-CoV sýkingar sem hafa valdið faröldrum á ákveðnum landssvæðum og inni á sjúkrahúsum.
    Undir lok árs 2019 bárust fregnir frá Wuhan borg í Kína að þar væru að greinast sjúklingar með alvarlegar lungnabólgur af óþekktri orsök. Rannsókn leiddi í ljós að orsökin var nýtt afbrigði af beta-kórónaveiru sem síðar var nefnd SARS-CoV-2 og sjúkdómurinn nefndur Corona virus disease 2019 (COVID-19). Útbreiðsla SARS-CoV-2 var hröð og 11. mars 2020 skilgreindi Alþjóðaheilbrigðisstofnunun COVID-19 sem heimsfaraldur. Veiran er í stöðugri þróun og ýmis afbrigði (e. variant) komið fram síðan.

    Smitleið og hætta á dreifingu
    Talið er að SARS-CoV-2 smitist aðallega á milli manna með dropasmiti (þ.e með dropum úr öndunarvegi sýktra einstaklinga). Rannsóknir hafa þó sýnt fram á að SARS-CoV-2 getur í einstaka tilfellum smitast með úðasmiti þ.e. með agnarsmáum dropum eða svifúða, sem smitberi gefur frá sér við það að tala, hrópa eða syngja. Á heilbrigðisstofnunum getur úðasmit einnig átt sér stað við inngrip í öndunarveg (t.d við barkaþræðingu, berkjuspeglun, sogun). Þéttni sýktra öndunarfæradropa/svifúða í loftinu er mest innan tveggja metra frá smitberanum og því minnka líkur á smitdreifingu með aukinni fjarlægð milli einstaklinga og góðri loftræstingu.
    Einnig er talið að smitdreifing geti verið með beinu og óbeinu snertismiti en rannsóknir á nærumhverfi COVID-19 smitaðra einstaklinga hafa sýnt að RNA erfðaefni veirunnar finnst á yfirborðsflötum og í loftsýnum.
    Rannsóknir benda til þess að sjúklingar hafi mest magn af veiru í öndunarfærum rétt áður og í kringum þann tíma sem einkenni eru að koma fram. Veirumagn í öndunarfærum fer svo minnkandi á 1-2 vikum frá upphafi einkenna.
    Líklegast er að einstaklingar séu mest smitandi einum til tveimur dögum fyrir upphaf einkenna og í nokkra daga eftir að einkenni koma fram.
    Reynslan hefur sýnt að einstaklingsbundnar smitvarnir eins og nándartakmörk, grímunotkun, handhreinsun og einangrun hafa verið árangursríkar við að hefta útbreiðslu COVID-19.

    Meðgöngutími
    Meðgöngutími er talinn vera 2-14 dagar. Algengast er að einkenni komi fram á fjórða til fimmta degi frá útsetningu en það er þó breytilegt eftir afbrigðum. T.d. virðist meðgöngutími ómíkron afbrigðis vera 2-4 dagar skv. sumum rannsóknum.

    Einkenni
    Einkenni COVID-19 eru oftast ósértæk „flensulík“ einkenni. Algengustu einkennin eru almenn vanlíðan og slappleiki, hiti, hósti og mæði. Við upphaf einkenna finnur fólk oft einnig fyrir nefkvefi, hálssærindum, breytingu á lyktar- og bragðskyni ásamt því að sumir hafa meltingareinkenni (kviðverkir, ógleði/uppköst og niðurgang). Sumir virðast fá lítil sem engin einkenni COVID-19 en aðrir geta orðið lífshættulega veikir með einkenni um neðri öndunarfærasýkingu og lungnabólgu með öndunarbilun. Einkenni um öndunarerfiðleika koma gjarnan fram á fjórða til áttunda degi veikinda og eru veikindin oft langdregin. Talið er að um 80% sjúklinga fái vægan sjúkdóm, um 15% fái alvarlegan sjúkdóm og um 5% fái mjög alvarlegan sjúkdóm. Líkur á alvarlegum COVID-19 sjúkdómi aukast með hækkandi aldri (sérstaklega eftir 60 ára aldur) og ef ákveðnir undirliggjandi sjúkdómar eru til staðar s.s. hjartasjúkdómar, langvinnir lungasjúkdómar, sykursýki, offita, langvinn nýrnabilun, krabbamein og viss ónæmisbælandi meðferð .

    Bóluefni
    SARS-CoV-2 veiran var einangruð og raðgreind í janúar 2020. Grunnrannsóknir í kjölfarið sýndu að mýs sem voru bólusettar með broddpróteini SARS-CoV-2 (e. spike protein) mynduðu mótefni sem hindruðu sýkingu með SARS-CoV-2 veirunni og frumniðurstöður bentu til að bólusetning gæti vakið hlutleysandi og verndandi mótefni gegn broddpróteinum SARS-CoV-2. Þessi vitneskja var nýtt til að þróa bóluefni gegn COVID-19 fyrir menn. Markmið bólusetningar við COVID-19 er að vernda einstaklinga fyrir COVID-19 sjúkdómnum og draga úr veikindum vegna hans. Sjá nánar á https://www.covid.is/bolusetningar.

    Meðferð
    COVID-19 er í flestum tilfellum vægur veirusjúkdómur sem gengur yfir án sértækrar meðferðar. Sumir sjúklingar þróa þó með sér alvarlegan og stundum lífshótandi sjúkdóm. Landspítali hefur gefið út leiðbeiningar sem lýsa sértækri lyfjameðferð við COVID-19 sjúkdómi og beinist meðferðin fyrst og fremst að þeim sem hafa eða stefna í alvarlegustu sjúkdómsmyndirnar. Leiðbeiningarnar eru byggðar á þeim á þeim rannsóknarniðurstöðum sem liggja fyrir varðandi mögulega gagnsemi meðferða. Þær eru endurmetnar og uppfærðar reglulega eftir því sem þekking á sjúkdómunum og meðferðarmöguleikum eykst.
    Hide details for FramkvæmdFramkvæmd
    Sýkingavarnir fela í sér að smitleið sýkils milli manna er rofin. Nauðsynlegt er að starfsmenn fylgi reglum Landspítala um handhreinsun og rétta notkun hlífðarbúnaðar sem eru mikilvæg atriði til að koma í veg fyrir dreifingu sýkla.
    Starfsmenn viðhafa grundvallarsmitgát við öll störf sem felst meðal annars í handhreinsun, viðeigandi notkun hlífðarbúnaðar, fyrirbyggingu stunguóhappa, þrifa í umhverfi, örugga meðferð sorps og líns og sótthreinsun eða dauðhreinsun áhalda/búnaðar sem notaður er við ummönnun og meðferð sjúklinga.

    Móttaka á Landspítala
    Landspítali er aðgangsstýrður og opnir inngangar eru mannaðir. Öryggisvörður/starfsmaður í móttöku afhendir sjúklingum og gestum skurðstofugrímu skv. gildandi leiðbeiningum hverju sinni: COVID-19 - grímunotkun starfsmanna, gesta og sjúklinga.

    Skimun fyrir COVID-19
    Skimun við komu á Landspítala og skimun inniliggjandi sjúklinga er skv. "COVID-19 - skimun sjúklinga. Ef grunur er um COVID-19 er tekið sýni úr sjúklingi. Sjá nánar í COVID-19 - útsettir sjúklingar - innlögn/inniliggjandi - flæðirit

    Sjúklingur með COVID-19 eða þekkta útsetningu fyrir COVID-19
    1. Sjúklingur er útsettur fyrir COVID-19: Fylgt er verklagi um komu og móttöku sjúklings á dag- og göngudeild eða bráðamóttöku og smitgát innlagðs sjúklings í sóttkví. Talið er að sjúklingur geti ver smitandi í 1-2 sólarhringa áður en einkenni koma fram. Þess vegna fara þeir í einangrun í snerti- og dropasmitgát á sóttkvíartímabili til að koma í veg fyrir útsetningu starfsfólks og/eða annarra sjúklinga.
    2. Sjúklingur er með grun um eða staðfest COVID-19 smit: Ef sjúklingur er með staðfest smit eða grun um smit (einkenni) er fylgt verklagi um móttöku sjúklings í einangrun og smitgát innlagðs sjúklings í einangrun. Þegar einangrun er aflétt hjá sjúklingi með COVID-19 er fylgt verklagi um COVID-19 - einangrun aflétt.

    Umgengni og smitvarnir
    Umgengni og smitvarnir taka mið af því hvort sjúklingur er í sóttkví eða einangrun. Sértæk skjöl deilda eru í COVID-19 - handbók. Fylgt er eftirfarandi verklagi:
    Leyfi sjúklings
    Á farsóttatímum eru leyfi sjúklinga háð ákvörðun farsóttanefndar hverju sinni. Þó eru leyfi sjúklinga í endurhæfingarskyni og/eða sem undirbúningur fyrir útskrift heimil án leyfis frá farsóttanefnd.

    Heimsóknir
    Heimsóknir eru með takmörkunum á faraldurstímum og eru skv. ákvörðun farsóttanefndar og viðbragsstjórnar. Stjórnendur deilda hafa heimild og umboð til að takmarka heimsóknir enn frekar við sérstakar aðstæður eða veita undanþágur frá heimsóknatakmörkunum. Sjá nánar verklag í gæðaskjalinu COVID-19 - komur sjúklinga og gesta á Landspítala.

    Meðferð og fræðsla
    Flutningur
    Við flutning sjúklinga í einangrun er fylgt leiðbeiningum um flutningsleiðir. Öryggisverðir eru upplýstir um flutning ef þörf er á aðkomu þeirra skv. mati hjúkrunarfræðings/læknis deildar sem sjúklingur flyst frá og fara þá eftir verklagi öryggisvarða. Ef sjúklingur getur ekki notað fínagnagrímu og er ekki barkaþræddur og með veiruheldan filter á öndunarvél er notað flutningshúdd.
    Flutningsþjónusta sér um flutning einkennalausra sjúklinga í sóttkví, sjá skjal um smitgát þegar inniliggjandi sjúklingur er í sóttkví.

    Einkennavöktun
    Daglega er fylgst með mögulegum COVID-19 einkennum hjá sjúklingum sem eru útsettir fyrir smiti og eru annað hvort í einkennavöktun eða sóttkví. Ef einkenni koma fram er tekið PCR sýni fyrir COVID-19 og sjúklingur settur í einangrun. Einkenni eru skráð í sjúkraskrá sjúklings.

    Starfsmenn
    Smitvörnum starfsmanna er lýst í verklagsreglunni COVID-19 - smitvarnir starfsmanna.

Ritstjórn

Ásdís Elfarsdóttir
Lovísa Björk Ólafsdóttir - lovisao
Ólafur Guðlaugsson
Ingunn Steingrímsdóttir - ingunnst

Samþykkjendur

Ábyrgðarmaður

Ásdís Elfarsdóttir

Útgefandi

Ingunn Steingrímsdóttir - ingunnst

Upp »


Skjal fyrst lesið þann 02/07/2020 hefur verið lesið 14059 sinnum