../ IS  
Útgefið gæðaskjal: Verklagsregla
Skjalnúmer: LSH-2882
Útg.dags.: 09/07/2020
Útgáfa: 9.0
27.00.01 COVID-19 - sýkingavarnir

9. útg. - breytingar yfirstrikaðar með gulu.

    Hide details for TilgangurTilgangur
    Að lýsa sýkingavörnum til að fyrirbyggja útbreiðslu COVID-19 (Corona virus disease-2019; SARS-CoV-2) innan Landspítala.
    Hide details for Ábyrgð og eftirfylgniÁbyrgð og eftirfylgni
    Verklagsreglan er byggð á núverandi vitneskju um COVID-19. Farsóttanefnd og sýkingavarnadeild bera ábyrgð á því að uppfæra upplýsingar og leiðbeiningar eftir því sem þekking á eiginleikum veirunnar eykst og umfangi COVID-19 í samfélaginu.

    Yfirlæknir og deildarstjóri bera ábyrgð á því að upplýsa starfsmenn og innleiða verkferla til að fyrirbyggja útbreiðslu veirunnar innan Landspítala. Þeim ber einnig að hafa eftirlit með því að starfsmenn fylgi settum verkferlum. Starfsmenn bera ábyrgð á því að kynna sér verkferla og fara eftir leiðbeiningum við störf sín.
    Hide details for Um kórónaveiruUm kórónaveiru
    Kórónaveirur eru mjög algengar veirur sem valda oftast vægum efri öndunarfærasýkingum (kvefi). Nokkrar undirtegundir kórónaveira geta þó valdið alvarlegum neðri öndunarfærasýkingum eins og lungnabólgu með öndunarbilun. Má þar nefna SARS-CoV (ísl. HABL) og MERS-CoV sýkingar sem hafa valdið faröldrum á ákveðnum landssvæðum og inni á sjúkrahúsum.
    Í lok árs 2019 fór að bera á alvarlegri veirulungnabólgu í Wuhan í Kína. Orsökin var ný veira sem ekki hafði áður greinst í mönnum. Hún var kölluð 2019-nCoV en heitir nú SARS-CoV-2 og sjúkdómurinn COVID-19 (stytting á Corona virus disease-2019).
    Uppruni veirunnar er óljós en komið hefur í ljós að hún er mjög skyld veirum sem hafa fundist í leðurblökum. Grunur er um að veiran hafi stokkið milli hýsla, þ.e. frá dýrum yfir í mannfólk en ekki er staðfest að um beint smit milli leðurblaka og mannfólks sé að ræða. Líklegast er að SARS-CoV-2 hafi borist í menn úr annarri tegund (millihýsli) og rannsóknir á erfðamengi veirusýkinga í fleiri villtum dýrategundum eru í gangi til að staðfesta þá tilgátu. SARS-CoV-2 veiran smitast á milli manna og COVID-19 hefur breiðst hratt út um allan heim. Þann 11. mars 2020 lýsti Alþjóðaheilbrigðismálastofnun yfir heimsfaraldri vegna COVID-19. Sjá skilgreind áhættusvæði á vef Landlæknis um Kórónaveiru.

    Smitleið og hætta á dreifingu
    • Veiran berst á milli manna með dropasmiti og/eða snertismiti. Við inngrip í öndunarveg (t.d. barkaþræðingu, berkjuspeglun, sogun) er gert ráð fyrir að úðasmit geti átt sér stað.
    • Líklegt þykir að einstaklingar geti smitað í 1-2 daga áður en einkenni koma fram.
    • Reynslan af SARS- og MERS-sýkingunum sýnir að viðeigandi smitvarnir eins og handhreinsun, hóstavarúð og einangrun sjúklinga eru árangursríkar við að hefta útbreiðslu.
    • Almennt eru ytri öndunarvélar (BiPAP, öndunarvélar að heiman, svefnvélar) ekki notaðar vegna hættu á úðasmiti. Notkun BiPAP er íhuguð ef öll önnur úrræði eru á þrotum og þá aðeins í völdum tilfellum. Fylgt er verklagi um notkun BiPAP vegna COVID-19.
    • Ef notkun svefnvélar/heimaöndunarvélar er talin nauðsynleg er fylgt verklagi um heimaöndunarvél eða svefnvél hjá sjúklingum með COVID sjúkdóm.

    Meðgöngutími
    Meðgöngutími er talinn vera 2-14 dagar. Miðað er við 14 daga frá mögulegri útsetningu. Algengast er að einkenni komi fram á fjórða til fimmta degi frá útsetningu.

    Einkenni
    Einkenni COVID-19 eru oftast ósértæk „flensulík“ einkenni. Algengustu einkennin eru almenn vanlíðan og slappleiki, hiti, hósti og mæði. Við upphaf einkenna finnur fólk oft einnig fyrir nefkvefi, hálssærindum, breytingu á lyktar- og bragðskyni ásamt því að sumir hafa meltingareinkenni (kviðverkir, ógleði/uppköst og niðurgang). Sumir virðast fá lítil sem engin einkenni COVID-19 en aðrir geta orðið lífshættulega veikir með einkenni um neðri öndunarfærasýkingu og lungnabólgu með öndunarbilun. Einkenni um öndunarerfiðleika koma gjarnan fram á fjórða til áttunda degi veikinda og eru veikindin oft langdregin. Talið er að um 80% sjúklinga fái vægan sjúkdóm, um 15% fái alvarlegan sjúkdóm og um 5% fái mjög alvarlegan sjúkdóm. Líkur á alvarlegum COVID-19 sjúkdómi aukast með hækkandi aldri (sérstaklega eftir 60 ára aldur) og ef ákveðnir undirliggjandi sjúkdómar eru til staðar s.s. hjartasjúkdómar, langvinnir lungasjúkdómar, sykursýki, offita, krabbamein og langvinn nýrnabilun. Ekki er vitað hvort ónæmisbælandi meðferð (s.s sterar og líftæknilyf) auki líkur á alvarlegum COVID-19 sjúkdómi.

    Meðferð
    COVID-19 er í flestum tilfellum vægur veirusjúkdómur sem gengur yfir án sértækrar meðferðar. Í fáum tilfellum er hins vegar um alvarlegan og stundum lífshótandi sjúkdóm að ræða. Ekki er til sértæk meðferð eða bóluefni gegn COVID-19. Landspítali hefur gefið út meðferðarleiðbeiningar um COVID-19 sem eru byggðar á þeim takmörkuðu rannsóknarniðurstöðum sem liggja fyrir varðandi mögulega gagnsemi meðferða. Mikilvægt er að hafa í huga að ekki er búið að sýna fram á gagnsemi nokkurrar meðferðar við COVID-19 sýkingu með óyggjandi hætti og eru þessar meðferðarleiðbeiningar ætlaðar þeim sjúklingum sem hafa eða stefna í alvarlegustu sjúkdómsmyndir COVID-19.





Ritstjórn

Ásdís Elfarsdóttir
Lovísa Björk Ólafsdóttir - lovisao
Ólafur Guðlaugsson
Ingunn Steingrímsdóttir - ingunnst

Samþykkjendur

Ábyrgðarmaður

Ásdís Elfarsdóttir

Útgefandi

Ingunn Steingrímsdóttir - ingunnst

Upp »


Skjal fyrst lesið þann 02/07/2020 hefur verið lesið 11031 sinnum