../ IS  
Útgefið gæðaskjal: Verklagsregla
Skjalnúmer: LSH-1422
Útg.dags.: 01/17/2022
Útgáfa: 4.0
16.12 Fyrirbyggjandi meðferð í fæðingu vegna keðjukokka (streptococcus) af hjúpgerð B (GBS)
    Hide details for Tilgangur og umfangTilgangur og umfang
    Að lýsa verklagi um fyrirbyggjandi meðferð vegna keðjukokka (streptococcus) af hjúpgerð B (GBS eða streptococcus agalactiae) til að fyrirbyggja sýkingar hjá nýbura af völdum GBS með því að meðhöndla mæður sem þekkt er að beri bakteríuna.
    Hide details for Ábyrgð og eftirfylgniÁbyrgð og eftirfylgni
    Yfirlæknir fæðingarþjónustu og yfirljósmóðir fæðingarvaktar bera ábyrgð á því að upplýsa starfsmenn og innleiða verklag ásamt því að bregðast við ef í ljós kemur að því hefur ekki verið fylgt. Ljósmóðir og vakthafandi læknir sem annast konuna bera ábyrgð á að fara eftir verklagsreglu.

    Mögulegir útkomuþættir (audit) fyrir úttekt
    • Konur með neðangreinda áhættuþætti sem fá sýklalyfjagjöf
    • Konur sem fá sýklalyfjagjöf í fæðingu a.m.k. 4 klst. fyrir fæðingu
    • Konur með merki um sýkingu í legi (chorioamnionitis) sem fá meðferð með breiðvirkum sýklalyfjum
    • Börn með áhættuþætti sem eru í eftirliti 12-24 klst. eftir fæðingu
    • Börn með möguleg einkenni af GBS eftir að hafa fengið viðeigandi rannsóknir og meðferð.
    Hide details for InngangurInngangur
    Gera má ráð fyrir að um 10-40% kvenna beri GBS í leggöngum (sýklun) (1-3). Þegar fæðing er hafin eða legvatn farið að leka getur GBS borist í legvatn og sýkt barnið (2,3). Snemmkomin GBS sýking nýbura (innan 7 daga frá fæðingu) getur valdið alvarlegum heilsufarsvandamálum, þar með talið nýburadauða (4). Meiri líkur eru á GBS sýkingu nýbura sem fæðast fyrir tímann (1). GBS getur einnig valdið alvarlegum sýkingum hjá móður, svo sem þvagfærasýkingu, sýkingu í leg, lungnabólgu og sepsis (2).

    Sýklalyfjagjöf í æð í fæðingu hjá GBS sýkluðum mæðrum virðist draga marktækt úr líkum á snemmkominni GBS sýkingu nýbura og GBS sýklun í húð nýbura en rannsóknir hafa ekki sýnt fram á að sýklalyfjagjöf lækki tíðni síðkominna GBS sýkinga (eftir 7 daga frá fæðingu) eða nýburadauða vegna GBS (5-7).

    Notkun sýklalyfja í fæðingu er talin geta ýtt undir þróun ónæmra bakteríustofna (1,3,5,7,8). Hún er einnig talin tengjast aukinni tíðni sveppasýkinga hjá móður og barni (5) og hafa neikvæð áhrif á þarmaflóru nýbura, en slík áhrif eru talin geta tengst margvíslegum heilsufarsvandamálum á borð við ofnæmi, ofþyngd og sykursýki síðar á ævinni (1,8).
    Hide details for FramkvæmdFramkvæmd
    Ljósmóðir spyr konu hvort hún hafi sögu um GBS og skoðar upplýsingar í rafrænni mæðraskrá:
    • Þegar kona hringir vegna legvatnsleka.
    • Þegar kona kemur á deild.
      Konum sem ganga með fullburða barn og hafa ekki þekkta GBS sýklun eða sögu um GBS sýkingu eldra barns, eru hitalausar og hafa ekki önnur klínísk einkenni um sýkingu ætti ekki að bjóða fyrirbyggjandi meðferð með sýklalyfjum í æð, jafnvel þótt legvatn sé farið í > 24 klst. (9).
      Hide details for Fyrirbyggjandi sýklalyfjagjöf í fæðingu (FSF)Fyrirbyggjandi sýklalyfjagjöf í fæðingu (FSF)
      Hjá konum með þekkta GBS sýklun ætti meðferð að hefjast strax við upphaf fæðingar eða þegar legvatn fer að renna. Bestur árangur næst ef meðferð er hafin ≥ 4 klst. fyrir fæðingu (1-3). Þar sem ekki er hægt að vita fyrirfram hvenær fæðing verður er mælt með að hefja meðferð sem fyrst (4). Endursýklun getur átt sér stað eftir að meðferð lýkur.

      Kjörlyf
      Penicillin (bezylpenicillin) (1-4) 3 g (5 millj. ein) í æð og síðan 1,2 g (2 millj. ein) í æð á 4 klst. fresti.

      Varalyf
      Ef um penicillinofnæmi er að ræða má gefa:
      • Kefzole 2 g í æð í upphafi , síðan 1 g á 8 klst fresti eða Dalacin (clindamycin) (2-4) 900 mg í æð á 8 klst. fresti. Þekkt er 25% ónæmi GBS fyrir Dalacin (Landspítali, 2017).
      • Ef um alvarlegt pencillinofnæmi er að ræða má íhuga Vancomycin (1,2) 1 g í æð á 12 klst. fresti.

      Kona og aðstandendur hennar eru upplýstir um tilgang og framkvæmd meðferðar. Upplýst er um að mælt sé með að barnið verði undir nánu eftirliti fyrst eftir fæðingu, sjá: nýburar með áhættuþætti ífarandi bakteríusýkingar - eftirlit. (1).

      Skráning
      Sýklalyfjagjöf móður er skráð á barnablað skv. vinnulýsingu um viðveru barnalækna við fæðingar og í Therapy.
      Hide details for Eftirlit með klínískum einkennum og aukaverkunum hjá móðurEftirlit með klínískum einkennum og aukaverkunum hjá móður
      Metin er þörf móður fyrir fyrir breiðvirkari sýklalyf með því að fylgjast með klínískum einkennum um sýkingu í legi (chorioamnionitis), sérstaklega ef til staðar eru áhættuþættir fyrir snemmkominni GBS sýkingu nýbura (1,4):
      • Þekkt GBS sýklun eða saga um sýkt eldra barn
      • Fyrirmálsrifnun himna (PROM/PPROM)
      • Fyrirburafæðing (≤ 36+6)
      • Hiti ≥ 38°C
      • Sýklalyfjagjöf síðustu 24 klst. fyrir fæðingu eða í fæðingu

      Fylgst er vel með ofnæmisviðbrögðum eftir sýklalyfjagjöf í æð sem koma fram hjá um 0,7-4,0% kvenna, en algengustu viðbrögðin eru útbrot í húð (3). Alvarleg ofnæmisviðbrögð eru talin geta komið fram í 1-4 af hverjum 100.000 tilfella (1,3). Þar sem sýklalyfjagjöf í æð á sér oftast stað á sjúkrahúsum verða alvarleg ofnæmisviðbrögð við henni sjaldnast banvæn (3).
      Hide details for Ýmsar aðstæður -  til nánari útskýringarÝmsar aðstæður - til nánari útskýringar
        Hide details for GBS í fyrri meðgönguGBS í fyrri meðgöngu
        Ef kona hefur greinst með GBS í fyrri meðgöngu eru 50% líkur á endursýklun og mælt með að taka sýni frá leggöngum við 35-37 vikur, eða 3-5 vikum fyrir áætlaðan fæðingardag. Ekki er þörf á sýklalyfjagjöf í fæðingu nema GBS greinist í því stroki (1). Neikvætt forspárgildi GBS ræktunar sem tekin er 1-5 vikum fyrir fæðingu er 95-98%. Ef meira en sex vikur líða frá sýnatöku lækkar forspárgildið (10). Ef ekki hefur verið tekið strok til GBS ræktunar á núverandi meðgöngu er mælt með fyrirbyggjandi sýklalyfjagjöf í fæðingu.
        Hide details for Ef GBS greinist fyrir tilviljunEf GBS greinist fyrir tilviljun
        Ef kona greinist fyrir fyrir tilviljun með GBS í leggöngum á meðgöngu, er ekki þörf á meðferð á meðgöngu ef hún er án einkenna. Þegar kemur að fæðingu er mælt með sýklalyfjagjöf í æð (1).
        Hide details for Ef GBS greinist í þvagiEf GBS greinist í þvagi
        Ef GBS er í þvagi móður er það vísbending um mikið magn af GBS í leggöngum (2,3). Við þessar aðstæður eru auknar líkur á chorioamnionitis og veikindum nýbura.
        Mælt er með að meðhöndla GBS þvagfærasýkingu á meðgöngu og aftur í fæðingu (1-3).
        Hide details for Fæðing með valkeisaraskurðiFæðing með valkeisaraskurði
        Áður en himnur rofna er ekki þörf á sérstakri meðferð þó móðir hafi verið með GBS í þvagi eða leggöngum á meðgöngu (1-3). Ef himnur rofna hjá móður með þekkta GBS sýklun áður en keisaraskurður hefst er mælt með fyrirbyggjandi sýklalyfjagjöf í æð samkvæmt ofangreindum leiðbeiningum (penicillin). Því til viðbótar er mælt með almennri fyrirbyggjandi sýklalyfjagjöf í æð fyrir aðgerð hjá öllum konum sem fæða með keisaraskurði til að draga úr líkum á sýkingu í legi og í skurðsári.
        Hide details for Framköllun fæðingarFramköllun fæðingar
        • GBS sýklun móður breytir ekki vali á aðferð við framköllun fæðingar og er ekki frábending fyrir belgjalosun í lok meðgöngu (1).
        • Við farið vatn hjá konu með GBS sýklun og fullburða barn er mælt með því að bjóða framköllun fæðingar sem fyrst (1), sjá: Fyrirmálsrifnun himna 37-42 vikur.
        • Ef GBS sýklun er ekki þekkt hjá konu með farið vatn og fullburða barn má bjóða konu framköllun fæðingar eða að bíða í allt að 24 klst. en að þeim tíma liðnum er ráðlagt að framkalla fæðingu (1,4).
        • Við legvatnsleka við ≤ 33+6 hjá konu með þekkta GBS sýklun má íhuga að bíða fæðingar og gefa sýklalyf p.o. en ef legvatn fer milli 34+0 og 36+6 má íhuga að bjóða framköllun fæðingar (1).
        Hide details for Ólíkar gjafaleiðir sýklalyfjaÓlíkar gjafaleiðir sýklalyfja
        Æskilegt er að sýklalyf sé gefið í æð til að ná sem fyrst hárri blóðþéttni hjá móður og barni og draga úr magni GBS í fæðingarvegi og legvatni (3). Rannsóknir á annars konar fyrirbyggjandi meðferð, s.s. sýklalyfjagjöf á meðgöngu í vöðva eða um munn, sýklalyfjagjöf í vöðva í fæðingu eða klórhexidínþrifum á leggöngum í fæðingu, hafa ekki sýnt fram á slík meðferð dragi úr líkum á snemmkominni GBS sýkingu nýbura (1,3,7,11).

      Hide details for HeimildirHeimildir
      1. Prevention of Early-onset Neonatal Group B Streptococcal Disease: Green-top Guideline No. 36. Bjog. 2017;124(12):e280-e305.
      2. Baker CJ. Neonatal group B streptococcal disease: Early-onset neonatal group B streptococcal disease: Prevention. UpToDate. 2021. Sótt 13.01.2022 af: https://www.uptodate.com/contents/early-onset-neonatal-group-b-streptococcal-disease-prevention
      3. Verani JR, McGee L, Schrag SJ. Prevention of perinatal group B streptococcal disease--revised guidelines from CDC, 2010. MMWR Recomm Rep. 2010;59(Rr-10):1-36.
      4. National Institute for Health and Care Excellence. Neonatal infection (early onset): antibiotics for prevention and treatment. London: National Institute for Health and Care Excellence; 2012.
      5. Ohlsson A, Shah VS. Intrapartum antibiotics for known maternal Group B streptococcal colonization. Cochrane Database Syst Rev. 2014(6):Cd007467.
      6. Li S, Huang J, Chen Z, Guo D, Yao Z, Ye X. Antibiotic Prevention for Maternal Group B Streptococcal Colonization on Neonatal GBS-Related Adverse Outcomes: A Meta-Analysis. Front Microbiol. 2017;8:374.
      7. World Health Organization. WHO recommendations for prevention and treatment of maternal peripartum infections. Geneva: World Health Organization; 2015.
      8. Azad MB, Konya T, Persaud RR, Guttman DS, Chari RS, Field CJ, et al. Impact of maternal intrapartum antibiotics, method of birth and breastfeeding on gut microbiota during the first year of life: a prospective cohort study. Bjog. 2016;123(6):983-93.
      9. National Institute for Health and Care Excellence. Intrapartum care: care of healthy women and their babies during childbirth London: National Institute for Health and Care Excellence; 2014.
      10. Yancey MK, Schuchat A, Brown LK, Ventura VL, Markenson GR. The accuracy of late antenatal screening cultures in predicting genital group B streptococcal colonization at delivery. Obstet Gynecol. 1996;88(5):811-5.
      11. Baecher L, Grobman W. Prenatal antibiotic treatment does not decrease group B streptococcus colonization at delivery. Int J Gynaecol Obstet. 2008;101(2):125-8.

    Ritstjórn

    Hulda Hjartardóttir
    Kolbrún Gísladóttir
    Margrét Sjöfn Torp
    Birna G Jónsdóttir

    Samþykkjendur

    Ábyrgðarmaður

    Hulda Hjartardóttir
    Birna G Jónsdóttir

    Útgefandi

    Kolbrún Gísladóttir

    Upp »


    Skjal fyrst lesið þann 10/27/2016 hefur verið lesið 4833 sinnum