../ IS  
Útgefið gæðaskjal: Leiðbeiningar
Skjalnúmer: Rsýk-331
Útg.dags.: 11/18/2019
Útgáfa: 8.0
2.02.07.40 Öndunarfæri - hráki, barkasog, berkjuskol - bakteríur, sveppir, mýkóbakteríur
Hide details for Rannsóknir - Heiti, ábendingar, grunnatriðiRannsóknir - Heiti, ábendingar, grunnatriði
Heiti rannsókna
Hráki - almenn ræktun, Hráki - svepparæktun, Hráki - berklaræktun
Barkasog - almenn ræktun, Barkasog - svepparæktun, Barkasog - berklaræktun
Berkjuskol - almenn ræktun, Berkjuskol - svepparæktun, Berkjuskol - berklaræktun

Pöntun
Beiðni um sýklarannsókn eða Cyberlab innan LSH. Verð: Sjá Gjaldskrá
    Hide details for ÁbendingÁbending
    Bakteríurannsókn
    Grunur um lungnabólgu eða berkjubólgu. Lungnabólga er algeng, bæði utan spítala og innan. Sýkingarvaldarnir geta verð margir, bakteríur, veirur og sveppir. Talið er að bakteríur séu algengustu sýkingarvaldarnir, en erfitt getur verið að rækta margar þeirra. Í daglegu tali er lungnabólga oft flokkuð gróflega í tvennt eftir einkennum. Komi einkennin hratt með hita, hósta og uppgangi er talað um bráða lungnabólgu. Við atýpíska lungnabólgu koma einkennin hægt með vaxandi slappleika, hita og hósta, oftast án uppgangs. Bakteríur sem valda atýpískri lungnabólgu ræktast ekki með venjulegum aðferðum, þær þarf að greina með öðrum hætti. Þær bakteríur sem eru þekktar af því að valda bráðri lungnabólgu eru meðal annars Streptococcus pneumoniae,sem veldur flestum lungnabólgum utan sjúkrahúss, Haemophilus influenzae, Staphylococcus aureus,beta-haemólýtískir streptókokkar og Moraxella catarrhalis.Sjaldgæfari eru Gram neikvæðar bakteríur eins og til dæmis Klebsiella pneumoniae. Pseudomonas aeruginosasest gjarnan að í öndunarfærum inniliggjandi sjúklinga, en hann er helst talinn vera sýkingarvaldur hjá ónæmisbældum og lungnasjúklingum.

    Svepparannsókn
    Í Evrópu eru sveppasýkingar í berkjum og lungnavef einkum af völdum Aspergillus. Candida er líklega sjaldan sýkingarvaldur, og þar sem gersveppurinn er hluti af eðlilegri líkamsflóru er erfitt að greina bólfestu og sýklun frá sýkingu þegar hann ræktast úr öndunarfærasýnum. Tvíbreytisveppir s.s. Histoplasma og Coccidioides eru algengir lungnasýklar í N-, M- og S-Ameríku; Histoplasma hefur greinst á nokkrum öðrum stöðum í heiminum en ekki Coccidioides.
    Ábendingar fyrir rannsókn byggja fyrst og fremst á ónæmisástandi sjúklings (allir sveppir), ferðalögum (tvíbreytisveppir) og einkennum:
    1. Ónæmisbældir einstaklingar (t.d.vegna neutrópeníu eða langvarandi steranotkun): hiti, hósti, takverkur, og stundum blóðspýja ættu alltaf að vekja grunsemdir um sveppasýkingu, einkum ef einkenni svara ekki bakteríulyfjum;
    2. Ferðalangar frá N-, M- og S-Ameríku: hiti, takverkur og hósti. Í báðum tilvikum styður myndataka greiningu.
    3. Aðrir sjúklingahópar geta einnig fengið ífarandi sveppasýkingar, t.d. í tengslum við króníska lungnasjúkdóma eða nærdrukknun (Aspergillus og aðrir myglusveppir)

    Mýkóbakteríurannsókn
    1. Grunur um lungnasýkingu af völdum mýkóbaktería, annaðhvort M. tuberculosis komplex eða NTM tegunda (nontuberculous mycobacteria) s.s. M. avium komplex, M. kansasii, M. abscessus ofl.
    2. Eftirlit eftir meðferð.

    Mögulegar viðbótarrannsóknir
    Leit að loftfælnum bakteríum.
    Legionellaræktun
    Leit að Pneumcystis jiroveciimeð PCR aðferð eða silfurlitun
    Leit að erfðaefni Legionella pneumophila, Mycoplasma pneumoniae og Chlamydophila pneumoniae með PCR aðferð.
    Leit að erfðaefni Bordetella pertussis með PCR aðferð.
    Leit að erfðaefni M. tuberculosis komplex beint úr hráka, berkjuskoli og barkasogi með PCR aðferð.
    Hide details for Grunnatriði rannsóknarGrunnatriði rannsóknar
    Bakteríurannsókn
    Það er mjög erfitt að ná sýni frá neðri öndunarfærum án þess að það mengist að einhverju leyti af munnflóru, jafnvel mikið. Oft er erfitt að ná upp hráka og stöku sinnum virðast sýni eingöngu vera munnvatn. Smásjárskoðun getur hjálpað til við að meta hve gott sýnið er ásamt því að veita aðrar gagnlegar upplýsingar. Í nokkrum tilfellum er hægt að greina mögulega sýkingarvalda, en sjaldnast með nokkurri vissu. Sjáist þekjufrumur komnar neðarlega úr öndunarfærum er sýnið gott og mikið af kleyfkjarna hvítum blóðkornum bendir til sýkingar. Sjáist fleiri en 25 flöguþekufrumur á hverju svæði við hundraðfalda stækkun er sýnið líklega að mestu eða öllu leyti munnvatn. Sé svo er sýninu hafnað, því það sem ræktast gefur ekki rétta mynd af því sem er í lungunum. Því er svarað út samdægurs með athugasemdinni: "Sýnið virðist vera mjög blandað munnvatni og er því óhæft til leitar að sýkingarvöldum í neðri öndunarfærum. Vinsamlegast sendið nýtt og betra sýni ef ennþá er grunur um sýkingu."
    Að jafnaði er eingöngu leitað að loftháðum bakteríum og einungis hluti þeirra greinast við almenna ræktun. Berklabakterían greinist t.d. ekki við almenna ræktun, né heldur Mycoplasma pneumoniae, Legionella spp., Bordetella pertussis eða Chlamydophila pneumoniae, sem valda atýpískri lungnabólgu.
    Þær bakteríur sem taldir eru líklegir meinvaldar eru greindar og gefin út tegundargreining með næmisprófi.

    Svepparannsókn
    Leitað er að blóði, greftri og ostkenndum (caseous) flekkjum til rannsóknar. Sýni er smurt á gler til smásjárskoðunar eftir Gramslitun. Ræktun fer fram í 2-3 vikur (fer eftir tegund sýnis). Allur gróður er greindur með viðeigandi aðferðum. Upplýsingar um næmispróf má finna í leiðbeiningum.

    Mýkóbakteríurannsókn
    Sýni er skilið niður og botnfall er smásjárskoðað eftir sýrufasta litun með Auramin Rhodamin. Eftir afmengun sýnis er það ræktað í BactAlert kolbum og á Lövenstein-Jensen æti í 6 vikur. Þegar sýrufastir stafir ræktast er framkvæmd kjarnsýrumögnun á gróðrinum til að greina mýkóbakteríur til tegundar. Ef M. tuberculosis komplex greinist er leitað að lyfjaónæmisgenum sem skrá fyrir ónæmi gegn rifampicin og isoniazid. Biðja þarf sérstaklega um næmispróf á öðrum mýkóbakteríutegundum. Ónæmisgen á M. tuberculosis komplex er alltaf athugað, en biðja þarf sérstaklega um næmispróf á öðrum tegundum.
    Hide details for SýnatakaSýnataka
    Hrákasýni
    Fylgt er leiðbeiningum um töku hrákasýna.

    Fyrir svepparannsókn gildir að ef grunur er um sýkingu af völdum tvíbreytisveppa (dimorphic fungi) er nauðsynlegt að láta rannsóknastofuna vita, þar sem þessir sveppir eru bráðsmitandi í gróðri og geta sýkt starfsfólk.

    Barkasog
    Slöngu er rennt niður barkaslöngu/rennu sjúklinga sem eru í öndunarvél og sýni sogað upp. Það sem sogast er sett í dauðhreinsað ílát með utanáskrúfuðu loki.

    Berkjuskol og berkjuburstasýni
    Við berkjuspeglun er 25-30 ml af ísótónísku saltvatni (5-10 ml. fyrir börn) dælt niður í berkjur og það síðan sogað upp aftur. Fyrsta skoli hent, en síðari skol send til ræktunar í dauðhreinsuðu íláti með utanáskrúfuðu loki.
    Berkjuburstasýni eru ætluð til veiruræktana og vefjameinafræðirannsókna (cytologiu), en eru líka nauðsynleg, ef rækta á loftfælnar bakteríur. Sýnið sett í dauðhreinsað ílát með 1 ml af ísótónísku saltvatni og sent á viðeigandi rannsóknastofu.

    Mikilvægt er að berkjuspeglunartæki séu hreinsuð vel til að forðast mögulega krossmengun frá fyrri sjúklingi. Tækið má ekki hreinsa með kranavatni, það getur innihaldið mýkóbakteríur sem lifa í umhverfi.

    Örugg losun sýnatökuefna og áhalda
    Hide details for Sending og geymslaSending og geymsla
    Fylgt er leiðbeiningum um merkingu, frágang og sendingu sýna og beiðna
    Flutningur við stofuhita innan tveggja klukkustunda annars geyma sýnið í kæli í allt að 24 klukkustundir.
    Hide details for NiðurstöðurNiðurstöður
      Hide details for SvarSvar
      Bakteríurannsókn
      Við ræktun á hráka er neikvæðri ræktun svarað út eftir tvo sólarhringa, en berkjuskol eru ræktuð í fjóra sólarhringa. Jákvæð ræktun gæti tekið lengri tíma. Greindar eru þær bakteríur sem líklegt þykir að séu sýkingarvaldar og gert næmi. Virðist sýnið vera að mestu frá munnholi, með miklu af flöguþekjum, er það ekki unnið frekar, heldur svarað út samdægurs með athugsemdinni: "Sýnið virðist vera mjög blandað munnvatni og er því óhæft til leitar að sýkingarvöldum í neðri öndunarfærum. Vinsamlegast sendið nýtt og betra sýni ef ennþá er grunur um sýkingu."

      Svepparannsókn
      Neikvæð svör fást eftir 2 -3 vikur. Jákvæð svör: Ef myglusveppaþræðir sjást við smásjárskoðun á sýni, Aspergillus ræktast frá ónæmisbældum einstakling eða sjaldgæfari meinvaldar ræktast er hringt til meðferðaraðila; endanlegar niðurstöður með greiningu sveppa fylgja.

      Mýkóbakteríurannsókn
      Neikvæð svör fást eftir 6 vikur. Niðurstöður úr smásjárskoðun liggja að jafnaði fyrir eftir einn til tvo virka daga. Sjáist sýrufastir stafir í sýni, eða ræktast, eru niðurstöður hringdar til læknis sjúklings.
      Hide details for TúlkunTúlkun
      Bakteríurannsókn
      Hráki er alltaf blandaður gróðri frá munnholi. Ekki er víst að sýkingarvaldar finnist í sýninu, stundum ná þeir sér ekki á strik vegna vaxtar annarra baktería. Þær bakteríur sem greinast eru ekki alltaf sýkingarvaldar, þær gætu hafa komið frá munnholi.

      Svepparannsókn
      Myglusveppir finnast í andrúmslofti og geta verið í loftvegum undir eðlilegum kringumstæðum eða mengað sýni við sýnatöku og – vinnslu. Gersveppir finnast oft í munnflóru. Niðurstöður skal því meta með hliðsjón af ástandi og sögu sjúklings. Þegar meinvaldandi myglusveppir greinast hjá áhættusjúklingum, sem ekki hafa aðrar augljósar orsakir einkenna sinna, eru sveppirnir taldir sjúkdómsvaldar og sýking meðhöndluð. Erfiðara er að meta hlutverk gersveppa hjá þessum sjúklingum og er myndgreining sérstaklega mikilvægt hjálpartæki í þeim tilvikum. Þegar lítið meinvirkir umhverfissveppir, s.s. Penicillium, vaxa á skálum þarf einnig að meta tilfellið; oftast er um mengun að ræða, annað hvort við sýnatöku eða á rannsóknastofu. Tvíbreytisveppir eru alltaf sjúkdómsvaldar og er meðferð á sýkingu nauðsynleg.

      Mýkóbakteríurannsókn
      M. tuberculosis er alltaf sjúkdómsvaldur. Greining annarra mýkóbaktería verður að túlka í samræmi við tegund og bakteríumagn, einkenni og undirliggjandi ástand sjúklings, gerð sýnis og líkur á umhverfismengun, til dæmis úr vatni.
      Næmi smásjárskoðunar er 22 til 81% samanborið við ræktun mýkóbaktería. Til að mykóbakteríur finnist við smásjárskoðun þarf að vera um 5000 til 10.000 stafir í hverjum ml af hráka, sjáist bakteríur telst sjúklingur vera smitandi.
      Sértækni smásjárskoðunar er >99% fyrir Mycobacteriumættkvíslina; örfáar aðrar bakteríur eru einnig sýrufastar , til dæmis Nocardia og Rhodococcus. Ekki er hægt að greina ættkvísl né tegund í smásjárskoðun og er því aðeins tilgreint að sýrufastir stafir hafi sést eða ekki. Litunin greinir bæði lifandi og dauðar mýkóbakteríur og hefur smásjárskoðun takmarkað gildi við eftirlit með meðferðarárangri, þar sem dauðir sýrufastir stafir geta fundist í nokkra mánuði í sýnum eftir upphaf meðferðar. Ræktun er næm rannsókn og nægir að hafa 10 - 100 lifandi Mycobacterium til að fá jákvætt svar, svo framarlega sem sýni er unnið fljótlega eftir sýnatöku, og eykst næmi ef fleiri en eitt sýni eru tekin. Árangur ræktunar minnkar á þriðja geymsludegi sýnis.
      Neikvæð ræktun útilokar ekki sýkingu af völdum mýkóbaktería.

    Hide details for HeimildirHeimildir
    1. Jorgensen JH, Pfaller MA og fél. Manual of Clinical Microbiology. ASM Press, Wasington D.C.
    2. Amy L. Leber og fél. Clinical Microbiology Procedures Handbook. ASM Press, Washhington D.C.

    Ritstjórn

    Ólafía Svandís Grétarsdóttir
    Una Þóra Ágústsdóttir - unat
    Ingibjörg Hilmarsdóttir
    Ágústa Jóna Þorsteinsdóttir
    Hjördís Harðardóttir
    Katrín Helga Óskarsdóttir - katrinho

    Samþykkjendur

    Ábyrgðarmaður

    Ingibjörg Hilmarsdóttir
    Hjördís Harðardóttir

    Útgefandi

    Katrín Helga Óskarsdóttir - katrinho

    Upp »


    Skjal fyrst lesið þann 04/29/2010 hefur verið lesið 64363 sinnum