../ IS  
Útgefið gæðaskjal: Leiðbeiningar
Skjalnúmer: Rklín-092
Útg.dags.: 03/14/2023
Útgáfa: 4.0
2.02.01.01 Ísóprópanól
Hide details for AlmenntAlmennt
Verð: Sjá Gjaldskrá
Grunnatriði rannsóknar: Ísóprópanól (isopropyl alcohol) er m.a. notað sem sótthreinsunarspritt og sem leysiefni í ýmsum iðnaðarvörum t.d. málningu og bleki. Ísóprópanól frásogast hratt frá meltingarvegi og hámarksþéttni í blóði næst eftir 1-2 klst frá inntöku. Ísóprópanól er brotið niður í asetón og er niðurbrotið hvatað af alkóhól dehýdrógenasa. Asetón útskilst með útöndunarlofti og með þvagi. Helmingunartími ísóprópanóls í blóði er stuttur, 2-8 klst en helmingunartími asetóns er lengri eða 17 - 27 klst.
Eitrunaráhrif ísóprópanóls koma fljótt fram. Áhrif ísóprópaóls á miðtaugakerfið líkjast áhrifum etanóls og geta verið allt frá vægum ölvunareinkennum yfir í dauðadá. Niðurbrotsefnið asetón hefur einnig slævandi áhrif á miðtaugakerfið en þó mun vægari. Alvarlegar ísóprópanóleitranir geta valdið öndunarlömun, lágþrýstingi (hypotension), lækkun á líkamshita (hypothermia), blæðingum í meltingarvegi og krömpum.
Etanól er samkeppnishvarfefni fyrir alkóhóldehýdrógenasa og lengir helmingunartíma ísóprópanóls umtalsvert (eitt skráð tilfelli sýndi lengingu t1/2 í 28 klst). Lyfið fómepízól (4-methýlpýrazól) sem er sértækur hamlari á alkóhóldehýdrógenasa gerir hið sama. Engin rök eru fyrir því að hamla niðurbroti ísóprópanóls með gjöf þessara efna þar sem niðurbrotsefnið asetón er minna eitrað en ísoprópanólið sjálft. Ísóprópanól eitranir eru yfirleitt meðhöndlaðar með stuðningsmeðferð. Í svæsnustu tilfellum getur þurft að grípa til blóðskilunar. Lífshættulegir skammtar af ísóprópanóli hafa verið áætlaðir vera u.þ.b. 250 ml af hreinu ísóprópanóli (mikilvægt er þó að benda á að bæði fullorðnir og börn hafa lifað af mun hærri skammta með réttri meðhöndlun). Ísóprópanól eitranir eru yfirleitt ekki eins alvarlegar og metanól og etýleneglýkól eitranir.

Helstu ábendingar: Grunur um ísóprópanól eitrun.
Hide details for Sýnataka, sending, geymsla, hvenær mæling er framkvæmd og pöntunarkóði.Sýnataka, sending, geymsla, hvenær mæling er framkvæmd og pöntunarkóði.
Gerð og magn sýnis:
Ekki skal hreinsa húð með alkóhóli fyrir blóðtöku. Sermi, a.m.k. 1,5 ml. Sýni tekið í serum glas með rauðum tappa án gels (svört miðja) . Litakóði samkvæmt Greiner.

Geyma skal sýnið í vel lokuðu glasi til að varna uppgufun. Sýnið geymist í 7 daga kæli.

Hafa þarf samband við rannsóknastofuna til að fá mælinguna gerða. Utan dagvinnutíma þarf að kalla út sérfræðilækni til að framkvæma mælinguna.
Mæling framkvæmd á rannsóknakjarna í Fossvogi.
Pöntunarkóði: ÍSÓP
Hide details for ViðmiðunarmörkViðmiðunarmörk
Neikvætt.

Eitrunarmörk: Meðvitundarskerðing sést við þéttni > 1 g/L. (Dæmi er um sjúkling sem mældist með S-ísóprópanól 4,4 g/L, var meðhöndlaður með blóðskilun og lifði af. Eins er dæmi um sjúkling sem mældist með S-asetón 18,8 g/L, var meðhöndlaður með kviðskilun og lifði af).
    Hide details for NiðurstöðurNiðurstöður
    Túlkun
    Sé ísóprópanól til staðar í sýninu staðfestir það grun um ísóprópanóleitrun. Aðferðin sem notuð er við mælinguna greinir jafnframt asetón. Styrkur asetóns hækkar samhliða niðurbroti ísóprópanóls, þ.e. eftir því sem líður á eitrunina.
    Ísóprópanól + asetón valda auknu osmólal bili (osmólal bil = mælt S-osmólalitet – reiknað osmólalitet í sermi (2 x Na
    + + glúkósi + urea) - sé munurinn meiri en 10 mOsm/kg H2O er um aukningu að ræða).
    Ísóprópanól og asetón auka ekki anjóna bilið.
    Asetón er ábyrgt fyrir ketósunni sem fylgir flestum ísóprópanól eitrunum og jákvætt svar fæst við prófun á ketónum í þvagi.


    Margföldunarstuðlar til að breyta einingum ísóprópanóls: (mg/dL x 0.01 = g/L) (g/L x 100 = mg/dL) (mg/dL x 0,1664 = mmól/L) (mmól/L x 6,010 = mg/dL).
    Hide details for HeimildirHeimildir
    Tietz Textbook of Clinical Chemistry and Molecular Diagnostics, Fifth Edition, Elsevier Saunders, 2012

      Ritstjórn

      Sigrún H Pétursdóttir
      Guðmundur Sigþórsson

      Samþykkjendur

      Ábyrgðarmaður

      Ísleifur Ólafsson

      Útgefandi

      Sigrún H Pétursdóttir

      Upp »


      Skjal fyrst lesið þann 03/04/2011 hefur verið lesið 4008 sinnum