Almennt
Verð: Sjá Gjaldskrá
Grunnatriði rannsóknar: Litíum er notað sem lyf (Litarex) í fyrirbyggjandi meðferð við geðhvarfasýki (bipolar disorder) og til meðhöndlunar á oflæti (mania). Ekki er vitað með vissu hver lífefnafræðileg verkun lyfsins er en talið er að litíum hafi áhrif á örvandi og hamlandi G-protein í frumuhimnum.
Lyfið frásogast að fullu frá meltingarvegi og hámarksþéttni í blóði næst eftir 2-5 klst frá inntöku. Í líkamanum hagar litíum sér í stórum dráttum eins og natríum, þ.e. dreifist um vökvafasa líkamans (hratt um utanfrumuvökvafasann en hægt um innanfrumuvökvafasann) og skilst út um nýru. Helmingunartími lyfsins í plasma er að meðaltali um 24 klukkustundir ( +/- 10 klst), en er lengri ef nýrnastarfsemi er skert. Jafnvægi næst á styrk litíums eftir töku lyfsins í 7 daga.
Fyrstu einkenni eitrunar af völdum litíums eru sljóleiki, þreyta, syfja, þvoglumælgi, vöðvatitringur, grófur skjálfti og jafnvel uppköst og niðurgangur. Skert meðvitund eða meðvitundarleysi og lífshættulegir krampar geta fylgt í kjölfarið. Langvarandi meðferð með litíum getur valdið hyperkalsemíu.
Helstu ábendingar: Meðferðareftirlit og grunur um eitrun af völdum lyfsins.
Sýnataka, sending, geymsla og hvenær mæling er framkvæmd.
Undirbúningur sjúklings: Við meðferðareftirlit skal safna blóðsýni 12 klukkustundum eftir síðasta lyfjaskammt. Sýni skal ekki safnað fyrr en komið er jafnvægi er komið á lyfjastyrkinn í blóði sem er eftir u.þ.b. 5 helmingunartíma lyfsins (á bæði við í upphafi lyfjameðferðar og eins eftir breytingar á skömmtum).
Gerð og magn sýnis:
Sýni tekið í serum glas með rauðum tappa án gels (svört miðja)
Litakóði samkvæmt Greiner
Sermi, 0,5 ml. Blóð skal skilið innan 2 klukkustunda frá töku. Ef geyma á sýnið í meira en 4 klukkustundir þarf að takar sermi ofan af og setja í nýtt glas.
Sermi geymist í 7 daga við 2 - 8°C eða 6 mán fryst.
Mæling er gerð allan sólarhringinn, alla daga vikunnar á rannsóknakjarna Hringbraut.
Niðurstöður
Túlkun niðurstaðna: Meðferðarmörk miðast að sýni sé safnað 12 klst eftir inntöku lyfsins. Við sermisstyrk > 1,5 mmól/L er hætta á eitrun og fari sermisstyrkurinn > 2,5 mmól/L er hætta á alvarlegum eitrunum. Einkenni frá miðtaugakerfi geta varað í nokkra daga eftir öfskömmtun litíums þrátt fyrir að S-litíum hafi lækkað niður fyrir efri viðmiðunarmörk og skýrist það m.a. af því hve hægt litíum ferðast yfir heila-blóðþröskuld.
Heimildir
Method Sheet Lithium REF04679598 190, V12.0. Roche Diagnostics, 2021-11
Tietz Textbook of Clinical Chemistry and Molecular Diagnostics. Sixth Edition. Elsevier Saunders. 2017.
Laurells Klinisk kemi í praktisk medicin. Studentlitteratur, Lund, Svíþjóð, 2012; síða 668