../ IS  
Útgefið gæðaskjal: Leiðbeiningar
Skjalnúmer: Rsýk-360
Útg.dags.: 11/12/2020
Útgáfa: 5.0
2.02.40 Öndunarfæri - PCR fyrir Chlamydia pneumoniae, Legionella pneumophila, Mycoplasma pneumoniae
Hide details for Rannsóknir - Heiti, ábendingar, grunnatriðiRannsóknir - Heiti, ábendingar, grunnatriði
Heiti rannsóknar: Chlamydia (Chlamydophila) pneumoniae PCR, Legionella pneumophila PCR, Mycoplasma PCR
Samheiti: Atýpísk lungnabólga
Pöntun: Beiðni um sýklarannsókn eða Cyberlab innan LSH. Verð: Sjá Gjaldskrá
    Hide details for ÁbendingÁbending
    Grunur um lungnabólgu af völdum Mycoplasma pneumoniae, Chlamydia pneumoniae,og Legionella pneumophila. Einkenni sýkinga af völdum þessara þriggja tegunda eru mjög áþekk og er lungnabólgan oft kölluð "atýpísk" lungnabólga. Einkennin koma hægt, jafnvel með einkennum utan lungna og sýkingum fylgir sjaldan uppgangur. Þetta er ólíkt bráðri lungnabólgu eins og þeirri sem til dæmis Streptococcus pneumoniae veldur, og dregur nafn sitt af því. Það er einnig sameiginlegt þessum bakteríum að þær er erfitt að rækta og að einungis ákveðnar gerðir lyfja virka á þær.

    Mycoplasma pneumoniaeer af ætt Mycoplasmataceae, en það eru smæstu bakteríur sem þekktar eru, reyndar smæstu þekktu lífverur sem lifa óháðar öðrum frumum. Þær eru án bakteríuveggjar og eru því ónæmar fyrir lyfjum sem verka á bakteríuvegg auk þess sem þær litast ekki með Grams lit. Bakterían veldur oftast efri öndunarfærasýkingu og/eða bráðri berkjubólgu en hluti sjúklinga fær lungnabólgu. Meðal fullorðinna er M. pneumoniae talin valda um 2-12% tilfella lungnabólgu sem áunnin eru utan sjúkrahúsa. Einkennin koma oft hægt með vaxandi hóstakjöltum, oft með talverðum slappleika. Meðgöngutími sjúkdómsins er tvær til þrjár vikur.

    Chlamydia pneumoniaeer af ætt Chlamydiaceae. Þetta eru smáar bakteríur sem geta ekki fjölgað sér án hjálpar annarra frumna. Lífsferill þeirra skiptist í tvennt. Annars vegar eru þær utan frumna og eru þá í eins konar dvala (kallað á ensku elementary body). Þær eru óvirkar og lítt næmar fyrir utanaðkomandi áhrifum en geta þó ekki lifað þannig nema í takmarkaðan tíma. Berist þessar óvirku agnir að frumu sem þær geta sýkt, í tilfelli Chlamydia pneumoniaefrumum öndunarfæranna, bindast þær yfirborði frumunnar og eru teknar inn í hana í átbólu. Í átbólunni umbreytist óvirka ögnin í virka ögn (kölluð á ensku reticulate body) sem tekur til við að skipta sér þannig að átbólan þenst út. Síðan verða agnirnar aftur óvirkar og eftir tvo til þrjá sólarhringa frá því að fruman sýktist losar hún út fjölda óvirkra agna sem geta sýkt nýjar frumur. C. pneumoniae getur valdið sýkingum í efri og neðri öndunarfærum. Hér á landi er talið að bakterían valdi um 1% tilfella lungnabólgu utan sjúkrahúsa meðal fullorðinna. Til meðferðar þarf að nota sýklalyf sem komast inn í frumur.

    Legionella pneumophila er af ættkvíslinni Legionella, en af henni eru að minnsta kosti sextíu tegundir. Þetta eru Gram neikvæðir stafir sem lifa í vatni í náttúrunni, helst inni í frumum, oftast amöbum. Um þriðjungur Legionellu-tegunda hefur fundist hjá mönnum, en L. pneumophila er talin valda langflestum lungnabólgutilfellum og er sú tegund sem mest hefur verið rannsökuð. Af henni er sermisgerð 1 algengasti sýkingavaldurinn. Smit berst í menn þegar þeir anda að sér vatnsúða menguðum af Legionella-bakteríum. Í öndunarfærunum sest bakterían að í átfrumum (makrófögum) þar sem hún skiptir sér og dreifist síðan yfir til annarra átfrumna. Sjúkum og veikluðum er hættara við slæmri sýkingu. Til meðferðar þarf lyf sem komast inn í frumur.
    Rannsóknin er gerð þegar grunur vaknar um lungnabólgu af völdum Mycoplasma pneumoniae, Chlamydia pneumoniaeeða Legionella pneumophila.Sameindafræðilegar aðferðir, og þá fyrst og fremst PCR, hafa reynst vel til greiningar á þessum bakteríutegundum, en þær eru bæði næmari og sértækari en mótefnamælingar (auk ræktunar og antigenprófa fyrir Legionella)

    Prófið byggir á rauntíma PCR mögnun með sértækum vísum (prímerum) gegn markröðum í hverri bakteríu fyrir sig. Markraðir PCR mögnunar eru P1 genið í M. pneumonia, Pst-1 genið í Chlamydia pneumoniae, og MIP (macrophage infectivity potentiator) genið í L. pneumophila.
    Hide details for SýnatakaSýnataka
    Sýni frá neðri öndunarvegi, til dæmis gott hrákasýni og/eða berkjuskol, eru bestu sýnin.

    Oft er enginn uppgangur og því erfitt að ná í þessi sýni. Því verður oft að notast við hálsstrok, en hætt er við að rannsóknin sé þá mun ónæmari, sérstaklega til leitar að Legionella.
    Miklar líkur eru á því að sýni frá nefkoki geti verið falskt neikvæð. Berist slík sýni eru þau unnin, en þeim er svarað út með athugasemd: „Leit að Mycoplasma pneumoniae, Chlamydia pneumoniae, Legionella pneumophila er næmust ef sent er sýni frá neðri öndunarfærum. Neikvæða niðurstöðu úr nefkokssýni ber að skoða með fyrirvara.”

    Hrákasýni
    Fylgt er leiðbeiningum um töku hrákasýna.

    Berkjuskol
    Við berkjuspeglun er örlitlu vatni dælt niður í berkjur og það síðan sogað upp aftur og sent til ræktunar. Mikilvægt er að berkjuspeglunartæki séu hreinsuð vel til að forðast mögulega krossmengun frá fyrri sjúklingi. Tækið má ekki hreinsa með kranavatni, það getur innihaldið mýkóbakteríur sem lifa í umhverfi.
    Sýnið er tekið í dauðhreinsað glas með skrúfuðu loki.

    Stroksýni
    Fylgt er leiðbeiningum um töku stroksýna frá öndunarfærum.

    Örugg losun sýnatökuefna og áhalda
    Hide details for Sending og geymslaSending og geymsla
    Fylgt er leiðbeiningum um Útfylling beiðna, merking, frágangur og sending sýna
    Flutningur við stofuhita strax annars geyma sýnið í kæli í allt að 24 klukkustundir.
    Hide details for NiðurstöðurNiðurstöður
    Svar
    Niðurstaða liggur fyrir eftir sólarhring á virkum dögum. Reynist sýni jákvætt fyrir Legionella pneumophila er læknir sjúklings látinn vita.

    Túlkun
    Jákvætt svar bendir til þess að M. pneumoniae, C. pneumoniae eða Legionella pneumophila sé til staðar í öndunarfærum sjúklingsins en það gefur ekki til kynna hvort bakterían sé lifandi eða dauð, þar sem erfðaefni magnast upp í báðum tilfellum.

    Neikvætt svar útlokar ekki sýkingu af völdum áður upptalinna baktería. Magn þeirra í sýnunum gæti hafa verið fyrir neðan næmi prófsins.
    Hide details for HeimildirHeimildir
    1. Murdoch DR. Nucleic Acid Amplification Tests for the Diagnosis of Pneumonia. Clinical Infectious Diseases 2003;36:1162-1170
    2. Welti Martine, Jaton Katia, Altwegg Martin, Sahli Roland, Wenger Aline, Bille Jacques. Development of a multiplex real time quantitative PCR assay to detect Chlamydia pneumonaie, Legionella pneumophila and Mycoplasma pneumonaie in respiratory tract secretions. Diagnostic Microbiology and Infectious Disease 2003;45:85-9.
    3. Jain S et al. N Enl J Med. 2015; 373(5):415.
    4. Bjarnason A et al. Open Forum Infect Dis. 2018;5(2).ofy010.


    Ritstjórn

    Brynja Ármannsdóttir - brynjaa
    Gunnsteinn Ægir Haraldsson
    Freyja Valsdóttir
    Lena Rós Ásmundsdóttir - lenaros
    Katrín Helga Óskarsdóttir - katrinho

    Samþykkjendur

    Ábyrgðarmaður

    Lena Rós Ásmundsdóttir - lenaros

    Útgefandi

    Katrín Helga Óskarsdóttir - katrinho

    Upp »


    Skjal fyrst lesið þann 03/22/2011 hefur verið lesið 262811 sinnum