../ IS  
Útgefið gæðaskjal: Leiðbeiningar
Skjalnúmer: Rsýk-194
Útg.dags.: 10/10/2023
Útgáfa: 9.0
2.02.16 Kviðarholsvökvi - bakteríur, sveppir, mýkóbakteríur
Hide details for Rannsóknir - Heiti, ábendingar, grunnatriðiRannsóknir - Heiti, ábendingar, grunnatriði
Heiti rannsóknar:
    Kviðarholssýni/strok - almenn ræktun
    Kviðarholssýni/strok - svepparæktun
    Kviðarholssýni/strok - berklaræktun
    Kviðskilunarvökvi - almenn ræktun

Pöntun: Beiðni um sýklarannsókn eða Cyberlab innan LSH. Verð: Sjá Gjaldskrá
    Hide details for ÁbendingÁbending
    Grunur um lífhimnubólgu. Algengustu einkenni eru kviðverkir og eymsli, hiti og ógleði. Bakteríur eru helstu sýkingarvaldar í lífhimnubólgu, en það fer eftir orsökum hvaða örverur er líklegast að finna.
    Helstu orakir lífhimnubólgu eru:

    1. Rof á görn af ýmsum orsökum (t.d. vegna botnlangabólgu, sarpbólgu í ristli (e. diverticulitis), rof á magasári, brisbólgu, gallblöðrubólgu).
      Sýkingarvaldar eru yfirleitt þær bakteríur (og sveppir) sem eru hluti af þarmaflórunni. Stundum eru margar tegundir sem valda sýkingu.

    2. Lífhimnubólga í kjölfar ascites (uppsöfnun kviðarholsvökva t.d. v/ skorpulifurs og/eða lifrarbilunar), þ.e. 'Spontaneous bacterial peritonitis'.
      Bakteríur berast oftast blóðleiðis og yfirleitt er ein bakteríutegund sýkingarvaldurinn.

    3. Kviðskilun
      Við kviðskilun vegna nýrnabilunar er skilunarvökva hellt inn í kviðarholið, hann látinn liggja um stund meðan að úrgangsefni sogast úr háræðum lífhimnunnar í hann og síðan látinn renna út aftur. Þetta er að jafnaði gert á nóttunni heima hjá sjúklingunum. Bakteríur geta borist inn i kviðarholið með þessu lagi og leitt til alvarlegrar sýkingar. Því er ræktað frá vökvanum ef sýkingareinkenni (t.d. skýjaður vökvi, kviðverkir, hiti, ógleði) eru til staðar.
      Sýkingarvaldar í kviðskilun eru oftast bakteríur komnar utanfrá, en nánast hvaða baktería sem er (eða sveppur) getur valdið sýkingu. Stafýlokokkar frá húð, Enterobacteriaceae og viridans Streptokokkar eru þó algengastir.
    Lífhimnusýkingar af völdum sveppa sjást oftast í tengslum við lífhimnuskilun og við rof á meltingarvegi t.d. vegna skurðagerða. Candida er algengasti sveppurinn í lífhimnu- og kviðarholssýkingum, sem eru næstalgengustu ífarandi Candidasýkingar (á eftir blóðsýkingum) (3,4). Sjúklingar með Candida í lífhimnusýkingu hafa verri horfur en þeir sem einungis hafa bakteríusýkingu (5-7).
    Atýpískar mýkóbakteríur geta valdið lífhimnubólgu hjá sjúklingum sem er í kviðskilun. Mycobacterium tuberculosis veldur örsjaldan lífhimnubólgu.
    Mögulegar viðbótarrannsóknir: Actinomycesræktun.
    Hide details for Grunnatriði rannsóknarGrunnatriði rannsóknar
    Bakteríurannsókn. Sýnið er ræktað í lofti og loftfirrt og að auki smásjárskoðað Gramslitað. Kviðskilunarvökva er að auki sáð til talningar baktería.
    Við sýkingu sjást bakteríur ekki nema í hluta tilfella, en langoftast sést mikið af margkjarna átfrumum. Bakteríur sem ræktast eru tegundagreindar og gert næmispróf.
    Svepparannsókn. Eftir skiljun kviðarholsvökva er botnfall notað til smásjárskoðunar og ræktunar. Smásjárskoðun er gerð eftir Grams litun og ræktun fer fram í 2 vikur. Sýni sem sett eru í blóðræktunarkolbur eru ræktuð skemur, en við merki um vöxt er sáð á æti og ræktað eins og áður segir. Allur gróður er tegundagreindur. Upplýsingar um næmispróf á sveppum má finna í leiðbeiningum.
    Mýkóbakteríurannsókn. Sýni er skilið niður og botnfall er notað til smásjárskoðunar, eftir sýrufasta litun með Auramin O, og til ræktunar í BactAlert kolbum (fyrir BactAlert kerfi) og á
    Lövenstein-Jensen æti. Ræktun fer fram í 6 vikur. Þegar sýrufastir stafir ræktast er gróðurinn sendur í stofngreiningadeild Sýklafræðideildar þar sem greining mýkóbakteríunnar er gerð. Ef M. tuberculosis komplex greinist er leitað að lyfjaónæmisgenum sem skrá fyrir ónæmi gegn rifampicin og isoniazid. Biðja þarf sérstaklega um næmispróf á öðrum mýkibakteríutegundum.
    Hide details for SýnatakaSýnataka
      Hide details for Ílát og áhöldÍlát og áhöld
      Forðast ber að taka sýni á strokpinna.
      Bakteríu- og svepparannsókn. Eitt sett af blóðræktunarflöskum og/eða dauðhreinsað ílát með utanáskrúfuðu loki.
      Mýkóbakteríurannsókn. Sýni sett í dauðhreinsað glas með utanáskrúfuðu loki. Í blóðugum sýnum má hindra storku með sodium polyanethole sulfonate eða heparín storkuvara, en ekki EDTA.
      Hide details for Gerð og magn sýnisGerð og magn sýnis
      Kviðarholsvökvi: eins mikið og hægt er eða að minnsta kosti 1 ml fyrir bakteríurannsókn og > 10 ml fyrir sveppa- og mýkóbakteríurannsókn.
      Kviðskilunarvökvi: 2 x 20ml úr kviðskilunarpoka (20ml fara í glas og 10 + 10ml í blóðræktunarflöskur) fyrir bakteríu- og svepparannsókn. > 10 ml í dauðhreinsað glas fyrir mýkóbakteríurannsókn.
      Hide details for Lýsing sýnatökuLýsing sýnatöku
      Ef sýni er tekið með ástungu skal hreinsa húð með sótthreinsandi efni og láta þorna fyrir sýnatöku. Ef sýni er tekið í blóðræktunarflösku skal sótthreinsa tappann með sótthreinsandi efni sem er látið þorna fyrir sýnatöku.
      Kviðskilunarvökvi er tekinn með ástungu á pokann: 20 ml sem látnir eru í dauðhreinsað glas. Síðan eru aðrir 20 ml dregnir og þeim sprautað í eitt blóðræktunarsett, 10 ml í hvora flösku.
      Örugg losun sýnatökuefna og áhalda

    Hide details for Sending og geymslaSending og geymsla
      Hide details for FlutningskröfurFlutningskröfur
      Flytja sem fyrst á Sýklafræðideild, helst innan 15 mínútna. Má flytja við stofuhita.

    Hide details for NiðurstöðurNiðurstöður
      Hide details for SvarSvar
      Bakteríurannsókn. Greinist bakteríur úr kviðarholsvökva er látið vita símleiðis (nema t.d. Gram jákvæðir klasakokkar í kviðskilunarvökva og skv mati vakthafandi læknis). Neikvæðri ræktun er svarað út eftir 5 sólarhringa. Alltaf er gefið upp tegundarheiti og gert næmispróf.
      Svepparannsókn. Látið er vita símleiðis strax ef sveppir sjást í smásjárskoðun á kviðskilunarvökva. Jákvæð svör: niðurstöður fást venjulega innan 7 daga frá sýnatöku. Neikvæð svör fást eftir 2 vikur.
      Mýkóbakteríurannsókn. Látið er vita símleiðis strax ef sýrufastir stafir sjást í sýni eða ræktast. Niðurstöður úr smásjárskoðun liggja fyrir eftir 1 – 2 virka daga og úr ræktun oftast < 3 vikna frá sáningu. Svörun jákvæðrar smásjárskoðunar er í plúsum: (i) + táknar 3 – 9 sýrufastir stafir á gleri; (ii) ++ táknar > 10 sýrufastir stafir á gleri; (iii) +++ táknar > 1 sýrufastur stafur í hverju svæði. Ef einungis 1 – 2 sýrufastir stafir sjást á glerinu er greint frá því í athugasemd á svari. Niðurstöður jákvæðrar smásjárskoðunar eru sendar bréflega, og endanleg greining á bakteríum fylgir síðar. Neikvæð svör fást eftir 6 vikur.
      Hide details for TúlkunTúlkun
      Bakteríurannsókn. Smásjárskoðun er ekki jákvæð nema í stöku tilfella jafnvel þótt bakteríur ræktist.
      Algengustu sýkingarvaldarnir eru Gram jákvæðar bakteríur, þar næst koma Gram neikvæðir stafir. Kóagúlasa neikvæðir stafýlókokkar geta smitast frá húðinni og þess vegna getur verið erfitt að meta þýðingu þeirra. Flestar aðrar bakteríur sem ræktast eru álitnar meinvaldar.
      Svepparannsókn. Þekktir meinvaldar sem ræktast úr ástungusýnum er taldir sýkingarvaldar; niðurstöður úr drenum skal meta með hliðsjón af ástandi og sögu sjúklings. Þegar lítið meinvirkir umhverfissveppir, s.s. Penicillium, vaxa á skálum þarf að meta tilfellið; oftast er um mengun að ræða, annað hvort við sýnatöku eða á rannsóknastofu.
      Mýkóbakteríurannsókn. Túlkað í samræmi við tegund og bakteríumagn, einkenni og undirliggjandi ástand sjúklings, gerð sýnis og líkur á umhverfismengun, s.s. úr skolvökva. Næmi smásjárskoðunar er 22 til 81% samanborið við ræktun mýkóbaktería. Sértækið er >99% fyrir Mycobacterium ættkvíslina; örfáar aðrar bakteríur eru einnig sýrufastar s.s. Nocardia og Rhodococcus. Ekki er hægt að greina tegund í smásjárskoðun og litunin greinir bæði lifandi og dauðar mýkóbakteríur. Smásjárskoðun hefur takmarkað gildi við eftirlit með meðferðarárangri, þar sem dauðir sýrufastir stafir geta fundist í nokkra mánuði í sýnum eftir upphaf meðferðar.

    Hide details for HeimildirHeimildir
    1. Karen C. Carroll og Michael A. Pfaller. Manual of Clinical Microbiology.
    2. Amy L. Leber. Clinical Microbiology Procedures Handbook.
    3. Maldonado NA, Cano LE, De Bedout C, et al. Association of clinical and demographic factors in invasive candidiasis caused by fluconazole-resistant Candida species: a study in 15 hospitals, Medellin, Colombia 2010-2011. Diagn Microbiol Infect Dis 2014;79:280-6.
    4. Li F, Wu L, Cao B, Zhang Y, Li X, Liu Y. Surveillance of the prevalence, antibiotic susceptibility, and genotypic characterization of invasive candidiasis in a teaching hospital in China between 2006 to 2011. BMC Infect Dis 2013;13:353.
    5. Sandven P, Qvist H, Skovlund E, Giercksky KE, Group N, the Norwegian Yeast Study G. Significance of Candida recovered from intraoperative specimens in patients with intra-abdominal perforations. Crit Care Med 2002;30:541-7.
    6. Hwang SY, Yu SJ, Lee JH, et al. Spontaneous fungal peritonitis: a severe complication in patients with advanced liver cirrhosis. Eur J Clin Microbiol Infect Dis 2014;33:259-64.
    7. Lichtenstern C, Herold C, Mieth M, et al. Relevance of Candida and other mycoses for morbidity and mortality in severe sepsis and septic shock due to peritonitis. Mycoses 2015;58:399-407.

      Ritstjórn

      Sigríður Ólafsdóttir
      Kristján Orri Helgason - krisorri
      Una Þóra Ágústsdóttir - unat
      Guðrún Svanborg Hauksdóttir
      Ingibjörg Hilmarsdóttir
      Katrín Helga Óskarsdóttir - katrinho

      Samþykkjendur

      Ábyrgðarmaður

      Kristján Orri Helgason - krisorri
      Guðrún Svanborg Hauksdóttir
      Ingibjörg Hilmarsdóttir

      Útgefandi

      Katrín Helga Óskarsdóttir - katrinho

      Upp »


      Skjal fyrst lesið þann 04/29/2010 hefur verið lesið 142765 sinnum