../ IS  
Útgefið gæðaskjal: Vinnulýsing
Skjalnúmer: LSH-3251
Útg.dags.: 12/06/2023
Útgáfa: 5.0
16.03.03 Stálmi í brjóstum
    Hide details for TilgangurTilgangur
    Að lýsa fyrirbyggingu og meðferð við stálma í brjóstum.
    Hide details for SkilgreiningSkilgreining
    Stálmi er þroti og óþægindi í brjóstum sem byrjar 2-7 dögum eftir fæðingu og gengur yfir á 12-48 klukkustundum ef rétt er brugðist við. Hann er tilkominn vegna aukins blóðflæðis til brjósta og bjúgsöfnunar. Brjóstin verða heit, þrútin, viðkvæm og húðin glansandi. Geirvörtubaugur verður harður vegna bjúgsöfnunar og geirvörtur geta orðið sléttar (fletjast út) og þá er erfiðara að leggja barn á brjóst. Í verstu tilfellum verða brjóst hörð, rauð og aum, móðir fær verki í brjóstin og hitahækkun upp að 38°C.

    Einkenni stálma í brjóstum
    • Eymsli
    • Þroti
    • Spenna
    • Verkur
    • Bjúgur
    • Geirvörtur fletjast út (verða sléttar)
    Hide details for FramkvæmdFramkvæmd
    Fyrirbygging stálma
    Móðir sem fær mikinn vökva í fæðingu er líklegri til að fá stálma. Mikilvægt er að barn fari á brjóst sem fyrst og að kenna móður að leggja barn rétt á brjóst. Það getur komið í veg fyrir að stálmi myndist ef barn fer á brjóst eins oft og það vill (8-12 sinnum á sólarhring).
      Meðferð við stálma
      Brjóstagjöf, handmjólkun eða mjólkun með mjaltavél
      1. Fullburða, heilbrigt barn: Barn er lagt á brjóst eins oft og kostur er og þess gætt að barn taki geirvörtuna rétt og sjúgi vel. Æskilegt er að fyrsta brjóstagjöf sé innan 30-60 mínútna frá fæðingu. Stuttar (5-15 mín.) og örar gjafir á 1-2 klst. fresti eru ráðlagðar og að oft sé skipt um brjóst. Ef þroti er í geirvörtubaug getur það haft áhrif á álögn barns á geirvörtu og þá er er mælt með að beita fingurgómaþrýstingi fyrir gjöf til að minnka þrota.
      2. Fyrirburi eða veikt barn: Ef barnið tekur ekki nógu vel geirvörtu og nær ekki að sjúga á árangursríkan hátt eða er á Vökudeild eða fjarri móður, er móður kennt að handmjólka brjóst eftir þörfum (a.m.k. átta sinnum á sólarhring) eða fara í mjaltavél þar til stálmi gengur yfir. Sjá myndband um handmjólkun. Mjólkað er eins oft og þarf til að fá næga næringu fyrir barnið.

      Kaldur bakstur er lagður um brjóstin (ekki yfir geirvörtur) og hafður í 10-20 mínútur. Baksturinn má vera klútur undinn úr köldu rennandi vatni, gel eða annað, kælt í ísskáp eða frysti. Frystir hlutir eru ekki settir beint á brjóst, haft er klæði á milli. Þess er gætt að yfirborð baksturs sé ekki óhreint eða ofnæmisvaldandi. Kaldan bakstur má nota eftir hvert skipti sem brjóst er mjólkað.

      Baklega er talin stuðla að minnkandi bjúg í brjóstum og einnig getur sogæðanudd á brjóstin í átt að holhönd hjálpað til við að minnka bjúg.

      Bólgueyðandi lyf
      Bólgueyðandi lyf eins og Íbúfen® geta bætt líðan á meðan stálmi er í brjóstum. Ráðlagt er að forðast það sem eykur bjúg, óþægindi mar eða þrýsting í brjóstum á meðan stálmi varir svo sem hita í formi tíðra baða eða heitra bakstra, að bogra yfir barni í sitjandi stöðu og fast nudd á brjóstin með höndum eða nuddtæki. Ekki er þörf á að draga úr vökvainntekt.

      Eftir seint fósturlát eða andvana fæðingu
      Eftir seint fósturlát eða andvana fæðingu er ekkert hreyft við brjóstum (engin örvun til mjólkurmyndunar) en mælt með þéttum toppi til stuðnings við brjóst, köldum bökstrum og bólgueyðandi verkjalyfjum eftir þörfum.
      Hide details for HeimildirHeimildir
      1. Mass, S. Breast pain. Engogement, nipple pain and mastitis. Clinical Obstetrics and Gynecology; 2004,47(3), 676-682.
      2. Wilson-Clay, B., og Hoover, K. (2022). The Breastfeeding Atlas.Seventh edt. Austin, Texas: LactNews Press.
      3. Walker, M. (2017). Breastfeeding Management for the Clinician. Using the evidence. Fourth edt. Canada: Jones and Bartletts Publishers.
      4. Wamback, K. Og Spencer, B. (2021). Breastfeeding and human lactation. Sixth edt. Burlington, MA: Jones & Bartlett Learning.
      5. ABM Clinical protocol #20. Engorgement - Revisited 2016. Breastfeeding Medicine. 11(4). DOI: 10.1089/bfm.2016.29008.pjb

    Ritstjórn

    Kolbrún Gísladóttir
    Margrét Sjöfn Torp
    Ingibjörg Eiríksdóttir - ingieiri

    Samþykkjendur

    Ábyrgðarmaður

    Jóhanna Ólafsdóttir - joholafs
    María G Þórisdóttir

    Útgefandi

    Kolbrún Gísladóttir

    Upp »


    Skjal fyrst lesið þann 11/25/2016 hefur verið lesið 478 sinnum