../ IS  
Útgefið gæðaskjal: Vinnulýsing
Skjalnúmer: LSH-3286
Útg.dags.: 02/14/2022
Útgáfa: 6.0
15.03 COVID-19 - fæðing og sængurlega

3. útgáfa: Breytingar eru merktar með gulri yfirstrikun.
    Hide details for TilgangurTilgangur
    Að lýsa viðbúnaði í fæðingu og sængurlegu hjá konu með staðfest COVID-19 smit eða grun um smit. Skjalið er uppfært reglulega þegar leiðbeiningar varðandi meðferð sjúklinga með COVID-19 veirusýkingu breytast.
    Hide details for FramkvæmdFramkvæmd
    Fjöldi starfsmanna sem umgangast konu er takmarkaður og þeir eiga ekki að sinna öðrum sjúklingum á sama tíma.

    Undirbúningur fyrir fæðingu og aðkoma á spítala
    • Kona er beðin um að láta vita af smiti þegar hún hringir til að láta vita að fæðing sé hafin. Í Snjókorni eiga að vera upplýsingar um einangrun. Í samtalinu er reynt að tryggja að fæðing sé örugglega hafin til að sem minnstar líkur séu á því að senda þurfi konu heim aftur. Ef vafi er á að fæðing sé hafin er auk hefðbundinna ráðlegginga í upphafi fæðingar konu ráðlagt að vera vakandi fyrir einkennum sem benda til versnunar COVID-19 og hafa samband ef hún fær hita yfir 38°C eða finnur fyrir öndunarerfiðleikum.
    • Maki/aðstandandi sem er einkennalaus hefur leyfi til að vera með í fæðingu óháð því hvort hann er með virkt COVID-19 smit eða ekki. Hann er með fínagnagrímu allan tímann og fer ekki út af fæðingarstofunni fyrr en að fæðingu lokinni. Hann fylgir ekki konu á skurðstofu og ekki á sængurlegudeild.
    • Vaktstjóri upplýsir sérfræðilækni á Kvennadeild sem sér um samráð við svæfingalækni og nýburalækni og lætur vaktstjóra Vökudeildar vita. Sjá COVID-19 - viðbragðsáætlun á Vökudeild.
    • Vaktstjóri á fæðingarvakt undirbýr fæðingarstofu 7 fyrir snerti- og dropasmitseinangrun. Stofa 6 er til vara en hún er þó ekki með neikvæðum loftþrýstingi. Sjá nánar COVID-19 - flutningur sjúklings.
    Ef áætlað er að kona verði keyrð í einkabíl
    • Konu er leiðbeint um aðkomu að Landspítala (sjúkrabílainngangur í kvennadeildarhúsi).
    • Ljósmóðir íklædd viðeigandi hlífðarbúnaði tekur á móti konu.
    • Kona á að vera með fínagnagrímu án ventils ef ástand leyfir annars skurðstofugrímu, í slopp og með sprittaðar hendur.
    • Farið er upp með lyftu á 3. hæð og beint inn á stofu 7.
    • Starfsmaður í viðeigandi hlífðarbúnaði fylgir ljósmóður og sprittar alla snertifleti á flutningsleiðinni. Hefur tiltækt auðkenniskort meðferðis til að opna dyr og lyftu. Teknir eru tveir plastpokar með, annar fyrir yfirhöfn konu og hinn fyrir umbúðir utan af hlífðarbúnaði.

    Ef áætlað er að kona verði flutt með sjúkrabíl
    • Vaktstjóri hringir á sjúkraflutningamenn (112) og lætur vita að flytja þurfi konu með COVID-19 smit á fæðingarvakt.
    • Sjúkraflutningamenn flytja konu gegnum sjúkrabílainngang og þaðan beint með lyftu upp á 3. hæð og inn á stofu 7. Ljósmóðir klædd viðeigandi hlífðarbúnaði tekur á móti konu.
    • Starfsmaður í viðeigandi hlífðarbúnaði fylgir sjúkraflutningamönnum til baka og sprittar alla snertifleti. Hefur tiltækt auðkenniskort meðferðis til að opna dyr og lyftu.

    Mat við komu á deild
    Auk hefðbundins mats í upphafi fæðingar er mælt með:
    • Að meta ástand konu m.t.t. COVID-19 smits, s.s. með því að mæla öndunartíðni og súrefnismettun.
    • Fósturhjartsláttarriti.

    Umönnun í fæðingu
      Engin einkenni af völdum COVID-19
      • Kona flokkast sem rauð vegna COVID-19 einangrunar.
      • COVID-19 smit ætti ekki að hafa áhrif á fæðingarmáta, nema ef öndunarerfiðleikar konu krefjist tafarlausrar fæðingar.
      • Þar sem veiran virðist ekki vera með blóðborna smitleið má, ef ábending er fyrir því, taka blóðsýni til að mæla laktat, setja elektróðu á koll barns og leggja sogklukku.
      • Ekkert bendir til þess að COVID-19 smitist með leggangavessum en COVID-19 hefur fundist í hægðum.
      • Ekki er talin þörf á síritun í fæðingu vegna COVID-19 og eru því notaðar venjulegar ábendingar fyrir síritun.
      • Auk hefðbundinnar umönnunar í fæðingu er mælt með:
        • Að fylgjast með súrefnismettun á klukkutíma fresti. Markmiðið er að súrefnismettun sé > 94%.
        • íhuga mænurótardeyfingu til að minnka líkur á svæfingu ef líkur eru á auknum inngripum.
    Einkenni af völdum COVID-19
    • Kona flokkast sem rauð vegna COVID-19 einangrunar.
    • COVID-19 smit ætti ekki að hafa áhrif á fæðingarmáta, nema ef öndunarerfiðleikar konu krefjist tafarlausrar fæðingar.
    • Þar sem veiran virðist ekki vera með blóðborna smitleið má, ef ábending er fyrir því, taka blóðsýni til að mæla laktat, setja elektróðu á koll barns og leggja sogklukku.
    • Ekkert bendir til þess að COVID-19 smitist með leggangavessum en COVID-19 hefur fundist í hægðum.
    • Auk hefðbundinnar umönnunar í fæðingu er mælt með:
      • Síritun í fæðingu
      • Að fylgjast með súrefnismettun á klukkutíma fresti. Markmiðið er að súrefnismettun sé hærri en 94%.
      • Íhuga mænurótardeyfingu til að minnka líkur á svæfingu ef líkur eru auknar á inngripum.
      • Að hafa vökvaskema hjá konum sem hafa töluverð öndunarfæraeinkenni

    Annað til umhugsunar í fæðingu
    • Ef glaðloft er notað þarf að vera filter til staðar. Mjög mikilvægt er að kona andi inn og út í gegnum grímuna vegna aukinnar hættu á úðasmiti.
    • Ekkert bendir til þess að þörf sé að skilja strax á milli og því óhætt að halda sama verklagi og hjá öðrum.
    • Einkennalausar konur sem þarfnast gangsetningar geta fylgt venjulegu gangsetningarferli. Skoðun fer fram í samráði við vaktstjóra á 22B og geta þessar konur farið heim að skoðun lokinni með Angusta töflur. Konur með einkenni eða aðra áhættuþætti sem þarfnast innlagnar á meðan á gangsetningu stendur leggjast inn á stofu 7 á 23B (eða stofu á 22A í samráði við vaktstjóra). Umönnun þessara kvenna er öllu jöfnu í höndum ljósmæðra á 23B.
    • Ef gera þarf keisaraskurð í fæðingu hjá konu með staðfest smit þá er skurðstofa 1 (21) fyrsta val, sjá COVID-19 kona í fæðingu fer í keisaraskurð. Hlífðarbúnaður er staðsettur fyrir utan skurðstofu 21.
    • Ef barn þarf aðstoð eða brátt mat nýburateymis þurrkar ljósmóðir vel af barninu, setur það í vöggu og færir það í hendur nýburateymis (nýburalæknir, hjúkrunarfræðingur og deildarlæknir) sem tekur við barninu við dyr fæðingarstofu. Aðstandandi fylgir ekki barninu. Sjá COVID-19 - viðbragðsáætlun á Vökudeild.

    Nýburi
    • Barnalæknar ákveða hvaða eftirlit þarf að hafa með nýburanum og hvenær barnið er skoðað.
    • Aðeins örfá tilvik eru þekkt um að fóstur hafi smitast af móður á lokaþriðjungi meðgöngu.
    • Ekki er þörf á að taka sýni úr barni nema það fái einkenni sem bent geta til COVID-19 sýkingar.
    • Ekki er mælt með aðskilnaði móður og barns, nema barn þurfi innlögn á Vökudeild
    • Við brjóstagjöf er konu veittar ráðleggingar samkvæmt: COVID-19 - brjóstagjöf.
    Sængurlega - útskrift
    • Konan ætti að dveljast á stofu 7 fram að heimferð ef hægt er. Ef losa þarf stofu 7 fyrir aðra fæðandi konu með COVID-19 flyst kona í einangrun á einangrunarstofu á meðgöngu- og sængurlegudeild.
    • Fylgst er með hita, öndunartíðni og súrefnismettun skv. fyrirmælum læknis.
    • Útskrift er ákveðin af fæðingalækni í samráði við barnalækni og smitsjúkdómalækni.
    • Kona og barn geta hugsanlega útskrifast í heimaþjónustu ljósmóður en annars eftir fulla sængurlegu.
    • Ef kona er mjög veik af COVID-19 flyst hún á A7 og er þá fylgt verklagi um flutning.

    Flutningur af 23B á 22A
    • Flutningsleið frá fæðingarvakt á meðgöngu- og sængurlegudeild er um lyftu í B-byggingu. Enginn annar en kona og nauðsynlegir flutningsaðilar mega vera í lyftu við flutning.
    • Vaktstjóri fæðingarvaktar lætur vaktstjóra á meðgöngu- og sængurlegudeild vita af væntanlegri innlögn.
    • Vaktstjóri meðgöngu- og sængurlegudeildar undirbýr stofu fyrir snerti- og dropasmitgát og ákveður hvaða ljósmóðir/hjúkrunarfræðingur sinnir konunni.
    • Flutningsleið er rýmd fyrir flutning.
    • Gangar eru rýmdir áður en farið er með sjúklinginn þar um og öllum hurðum lokað (sjúklingarými, starfsmannarými). Starfsmenn sem flytja konuna eru í hlífðarbúnaði við flutning, þ.e. með fínagnagrímu, skurðstofuhúfu, í sloppi, með hanska og hlífðargleraugu. Kona á að vera með fínagnagrímu án ventils ef ástand hennar leyfir, annars skurðstofugrímu, í slopp og með sprittaðar hendur.
    • Starfsmaður í viðeigandi hlífðarbúnaði fylgir ljósmóður og sprittar alla snertifleti á flutningsleiðinni. Hefur tiltækt auðkenniskort til að opna hurðar og lyftu.
    Þrif
    Ekki er þörf á sýnatöku að loknum þrifum.
    1. Fyrir meðgöngu- og sængurlegudeild: COVID þrif eru pöntuð í beiðnakerfi á innri vef Landspítala.
    2. Fæðingarvakt: Sérhæfðir starfsmenn fæðingarvaktar sjá um þrif á stofu samkvæmt leiðbeiningum um þrif við snerti- og dropasmitgát.

Ritstjórn

Kolbrún Gísladóttir
Margrét Sjöfn Torp
Birna G Jónsdóttir
María G Þórisdóttir
Hulda Hjartardóttir

Samþykkjendur

Ábyrgðarmaður

Birna G Jónsdóttir
María G Þórisdóttir
Hulda Hjartardóttir

Útgefandi

Kolbrún Gísladóttir

Upp »


Skjal fyrst lesið þann 03/16/2020 hefur verið lesið 1362 sinnum