../ IS  
Útgefið gæðaskjal: Vinnulýsing
Skjalnúmer: LSH-508
Útg.dags.: 08/23/2019
Útgáfa: 1.0
12.08.02 Þrýstingssáravarnir
    Hide details for TilgangurTilgangur
    Að lýsa aðferðum við þrýstingssáravarnir skv. HAMUR – þrýstingssáravarnir hjá þeim sem metnir eru í þrýstingssárahættu eða eru með þrýstingssár.

    HAMUR – þrýstingssáravarnir er eyðublað þar sem helstu verkþættir/hjúkrunarmeðferðir þrýstingssáravarna eru tilgreindir og hægt að laga að þörfum hvers einstaklings.
    Hide details for Hver framkvæmir og hvenærHver framkvæmir og hvenær
    Hjúkrunarfræðingur, sjúkraliði og læknir, þegar sjúklingur er metinn í þrýstingssárahættu eða er með þrýstingssár.
    Hide details for FramkvæmdFramkvæmd
    HAMUR er skammstöfun þar sem hver bókstafur stendur fyrir hvern verkþátt. Merkt er við eyðublaðið HAMUR - þrýstingssáravarnir þegar verkþættir eru framkvæmdir.

    H - Hreyfa og snúa
    Hagræðing einstaklings er til að draga úr eða dreifa þrýstingi á álagssvæði en einnig til að stuðla að hreinlæti, þægindum og reisn.
    • Öllum einstaklingum sem eru í þrýstingssárahættu eða eru með þrýstingssár er snúið eða hagrætt, nema sérstakar frábendingar séu fyrir því
    • Notkun þrýstingsdreifandi dýnu eða loftdýnu er íhuguð þegar ekki er unnt að snúa einstaklingi vegna sjúkdómsástands.
    • Tíðni snúnings eða hagræðingar fer eftir:
      • Ástandi húðar og vefja á álagssvæðum
      • Getu einstaklings til að hagræða sér sjálfur
      • Sjúkdómsástandi
      • Þægindum
      • Meðferðarmarkmiðum
    • Einstaklingi eru kenndar leiðir til að aflétta þrýstingi
    • Einstaklingi er snúið eða hagrætt þannig að hann liggi ekki eða sitji með þunga yfir útstæðum beinum
    • Einstaklingi sem er með þrýstingssár er snúið eða hagrætt þannig að hann liggi hvorki né sitji á sárinu. Ef nauðsyn ber til, takmarkið þá setu í stól við hámark 60 mínútur, þrisvar á sólarhring
    • Einstaklingi er hagrætt í rúmi í 30° hliðarlegu eftir því sem hægt er
    • Rúmliggjandi einstaklingi er hagrætt þannig að höfðalag fari hæst í 30°, nema frábendingar séu fyrir því, til dæmis sondumötun
    • Notaðar eru hælahlífar sem lyfta hælum frá undirlagi og dreifa þunganum á allan kálfann, án þess að þrýstingur komi á hásinina. Hjá einstaklingi sem ekki getur hreyft sig er hægt að nota kodda til að lyfta hælum.
    • Einstaklingi er hagrætt í stól þannig að hann sitji stöðugur með góðan stuðning við bak og þannig að hann renni ekki til í stólnum
    • Þess er gætt að stólseta sé í réttri stöðu og að fætur hafi stuðning af gólfi eða fótaskemli
    • Íhugað er að nota þrýstingsdreifandi stólsessu fyrir einstakling í þrýstingssárahættu
    • Einstaklingi er snúið eða hagrætt þannig að ekki sé hætta á að húð sjúklings dragist eftir yfirborði
    • Notuð eru hjálpartæki eins og snúningslök, lyftara, bretti eftir því sem við á
    • Hjálpartæki eins og snúningslök, lyftarasegl og annað úr rúmi/stól eru fjarlægð eftir notkun, nema það sé til þess gert að liggja/sitja á því
    • Þess er gætt að:
      • Einstaklingur liggi/sitji ekki á slöngum, snúrum eða öðrum aðskotahlutum
      • Einstaklingur liggi ekki á bekkeni, hnoðbrettum eða öðrum aðskotahlutum lengur en nauðsynlegt er
      • Einstaklingur sitji ekki á salerni lengur en nauðsynlegt er
      • Einstaklingur sitji ekki á hringlaga sessu
      • Nudda ekki svæði sem útsett eru fyrir þrýstingi
    A - athuga ástand húðar
    Mat á ástandi húðar er nauðsynlegur þáttur í þrýstingssáravörnum.
    • Ástand húðar er metið að minnsta kosti tvisvar á sólarhring hjá öllum sem eru í þrýstingssárahættu eða með þrýstingssár
    • Áhersla er lögð á að skoða svæði yfir útstæðum beinum eða aðliggjandi lækninga- eða hjálpartækjum

    M – matur, drykkur, næring
    Næringarástand hefur áhrif á þrýstingssárahættu og sárgræðslu. Skimað er fyrir áhættuþáttum vannæringar og fylgt verklagi: Þrýstingssár - eftirlit með næringu.
    • Fylgst er með hvernig einstaklingur nærist
    • Einstaklingi er boðinn drykkur, viðbótarnæring eða millibiti eftir því sem við á

    U – undirlag
    Áhættuþættir þrýstingssára eru einstaklingsbundnir. Dýnur og stólsessur fyrir einstaklinga í þrýstingssárahættu eða með þrýstingssár hafa mismunandi eiginleika og þarf að velja eftir áhættu.
    • Val á rúmi, dýnu, stólsessu fer eftir þörfum og ástandi einstaklings og eftirfarandi er haft í huga:
      • Hreyfigeta og virkni einstaklings
      • Þörf fyrir að draga úr svitamyndun
      • Þörf fyir að draga úr hættu á togi á húð
      • Stærð og þyngd einstaklings
      • Hætta á þrýstingssárum
      • Fjöldi, alvarleiki og staðsetning þrýstingssára sem einstaklingur er þegar með
    • Valið er undirlag sem hæfir einstaklingi og aðstæðum
      1. Mælt er með þrýstingsdreifandi svampdýnu fyrir alla einstaklinga sem eru í þrýstingssárahættu
      2. Mælt er með loftdýnu fyrir einstaklinga sem eru í mikilli áhættu ef ekki er hægt að snúa þeim eða hagræða
    • Metið er og fylgst með ástandi og virkni dýnu/sessu sem einstaklingur er að nota
    • Þess er gætt að dýna/sessa snúi rétt og passi í rúm/stól
    • Þegar um loftdýnu/loftsessu er að ræða, er fylgst með hvort hæfilegt loft er í dýnu. Þykkt loftdýnu á að vera yfir 10 cm
    • Valin eru lök og undirbreiðslur sem hæfa undirlagi. Notkun þverlaka og undirbreiðsla eru takmörkuð eins og kostur er
    • Haldið er áfram að snúa/hagræða einstaklingum þó þeir liggi á loftdýnum
    • Hælar eru varðir, jafnvel þó einstaklingur liggi á loftdýnu

    R – raki, útskilnaður
    Bleyta við húð til dæmis þvag, hægðir, munnvatn eða sviti, gerir hana viðkvæmari fyrir t.d. togi, núningi og þrýstingi. Blaut húð er einnig viðkvæmari fyrir sýkingum af völdum baktería og sveppa. Hæfilega rök húð verndar hana gegn ytri áverkum svo sem togi, núningi, þrýstingi og sýkingum.
    Þurr húð hefur minni teygjanleika og hætta á afrifum og sprungum eykst eftir því sem húðin er þurrari. Mikilvægt er að:
    • Halda húð hreinni og þurri
    • Útbúa áætlun fyrir einstaklinga með þvag- eða hægðaleka til að minnka líkur á að hún sé lengi útsett fyrir þvagi eða hægðum. Til að hafa stjórn á þvagleka er ráðlegt að íhuga notkun hjálparbúnaðar, t.d. uridoms. Ef þvag- eða hægðaleki er viðvarandi vandamál er fengin ráðgjöf frá sérfræðingi.
    • Takmarka eins og unnt er að raki af völdum líkamsvessa eins og þvags, hægða, svita, vessa úr sárum, munnvatns liggi við húðina.
    • Hreinsa húð varlega eftir þvag- og hægðalosun með hreinsiefnum og mjúkum klútum.
    • Verja húð fyrir bleytu með rakaverjandi áburði eða fljótandi filmum.
    • Halda vökvaskrá
    • Ef sápa þarf sápu, er notuð sápa með lágu pH gildi eða annað viðurkennt húðhreinsiefni
    • Bera á húð ofnæmisprófuð rakakrem

Ritstjórn

Berglind G Chu
Guðbjörg Pálsdóttir - gpsara
Guðný Einarsdóttir - gudnye
Hulda Margrét Valgarðsdóttir - huldamv
Margrét Sjöfn Torp
Kristrún Þórkelsdóttir

Samþykkjendur

Ábyrgðarmaður

Sigrún A Hafsteinsdóttir

Útgefandi

Kolbrún Gísladóttir

Upp »


Skjal fyrst lesið þann 10/25/2017 hefur verið lesið 1349 sinnum