../ IS  
Útgefið gæðaskjal: Vinnulýsing
Skjalnúmer: LSH-2416
Útg.dags.: 11/10/2022
Útgáfa: 2.0
22.01.03 Lífsmörk fullorðinna - réttstöðublóðþrýstingur
    Hide details for TilgangurTilgangur
    Að lýsa verklagi við framkvæmd réttstöðublóðþrýstingsmælingar hjá fullorðnum (18 ára og eldri) og mati á niðurstöðum mælingar.
    Hide details for Hver framkvæmir og hvenærHver framkvæmir og hvenær
    Hjúkrunarfræðingur, læknir, sjúkraliði eða starfsmaður, sem hefur þjálfun í að mæla réttstöðublóðþrýsting.
    Hide details for FramkvæmdFramkvæmd
    Algengt er að mæla réttstöðublóðþrýsting þegar sjúklingur hefur fengið byltu eða er óstöðugur á fótum. Tryggja þarf öryggi sjúklings við mælinguna, t.d. með því að tveir aðilar eru við framkvæmd mælingar ef sjúklingur er óstöðugur á fótum. Ef sjúklingi fer að líða illa og er í hættu á að detta er hætt við mælingu og hann aðstoðaður við að leggjast.

    Mæling á réttstöðublóðþrýstingi fer fram á þremurmapunktum:
    1. Liggjandi í hvíld (mæling 1)
    2. Standandi innan einnar mínútu (mæling 2)
    3. Standandi eftir þrjár mínútur (mæling 3)
    Nauðsynlegt er að mæla tímann á milli mælinga.
    Framkvæmd
    1. Framkvæmd mælingar er útskýrð fyrir sjúklingi.
    2. Þegar sjúklingur hefur legið láréttur í a.m.k. fimm mínútur er blóðþrýstingur mældur (mæling 1).
    3. Sjúklingur stendur upp, með aðstoð ef þörf er á. Þegar sjúklingur er staðinn upp er hann mældur (mæling 2).
    4. Þegar sjúklingur hefur staðið uppréttur í þrjár mínútur er blóðþrýstingur mældur í þriðja sinn (mæling 3).
      • Ef blóðþrýstingur er lægri í mælingu þrjú en mælingu tvö er hann mældur aftur þegar sjúklingur hefur staðið í fjórar mínútur. Endurtekið þar til blóðþrýstingur er hættur að lækka.
    5. Sjúklingur er upplýstur um niðurstöður mælinga.

    Skráning
    1. Niðurstöður eru skráðar í sjúkraskrá. Skráð er við hverja mælingu:
      • Líkamsstaða sjúklings
      • Tímasetningar mælinga
    2. Einkenni sem sjúklingur fær þegar mælingin var framkvæmd eru skráð í framvinduskráningu eða dagál/bráðamóttökuskrá. Einkenni geta verið:
      • Svimi
      • Höfuðverkur
      • Fölvi
      • Sjóntruflanir
      • Slappleiki
      • Hjartsláttarónot
    3. Ef mælingarnar eru sendar í sjúkraskrá með þráðlausri sendingu þarf heilbrigðisstarfsmaður að fara í sjúkraskrá og skrá líkamsstöðu sjúklings við hverja mælingu fyrir sig.

    Túlkun niðurstaðna
    Jákvæð niðurstaða telst:
    • Efri mörk blóðþrýstings (systóla) lækka um 20 mmHg eða meira (með eða án einkenna)
    • Efri mörk blóðþrýstings (systóla) fara niður fyrir 90 mmHg standandi jafnvel þó að lækkunin sé minni en 20 mmHg
    • Neðri mörk blóðþrýstings (díastóla) lækka um 10 mmHg og sjúklingur fær einkenni. Þó er það klínískt minna mikilvægt en lækkun á efri mörkum.
    Viðbrögð
    1. Meðferðaraðili er upplýstur um niðurstöður mælinga.
    2. Ef niðurstöður eru jákvæðar, eru mælingar endurteknar reglulega skv. fyrirmælum.
    3. Brugðist er við byltuhættu skv. verklagi.
    4. Sjúklingi er leiðbeint um að sýna aðgát við að standa á fætur, sitja í nokkrar mínútur áður en staðið er á fætur eða biðja um aðstoð við fótaferð.

Ritstjórn

Anna María Þórðardóttir

Samþykkjendur

Ábyrgðarmaður

Elísabet Benedikz

Útgefandi

Anna María Þórðardóttir

Upp »


Skjal fyrst lesið þann 09/11/2019 hefur verið lesið 2419 sinnum