../ IS  
Útgefið gæðaskjal: Vinnulýsing
Skjalnúmer: LSH-3486
Útg.dags.: 02/25/2021
Útgáfa: 6.0
27.00.01.11 COVID-19 - komur sjúklinga og gesta á Landspítala

Útg. 6 - Breytingar eru gullitaðar
    Hide details for TilgangurTilgangur
    Að lýsa komum sjúklinga og gesta á Landspítala þegar spítalinn er á óvissustigi eða hættustigi vegna heimsfaraldurs COVID-19.
    Hide details for FramkvæmdFramkvæmd
    Komur sjúklinga í rannsókn eða meðferð
    1. Allir sem eiga bókaðan tíma í rannsókn eða meðferð eiga að fá smáskilaboð þar sem minnt er á bókaðan tíma og sjúklingur beðinn að:
      • koma einn sé þess nokkur kostur.
      • koma ekki ef hann er með einkenni sem geta bent til COVID-19 eða er í sóttkví.
    2. Starfsmenn spyrja alla sjúklinga skimunarspurninga við komu.
      • Ef grunur vaknar um COVID-19 smit á sjúklingur að fara í einangrun.
      • Ef sjúklingur var erlendis sl. 14 daga á hann að fara í sóttkví.
      • Ef sjúklingur er í sóttkví vegna útsetningar heldur hún áfram.
    3. Sjúklingar nota einnota skurðstofugrímu innan spítalans.

    Heimsóknarreglur
    Heimsóknartími er á milli 16:30-19:30 á virkum dögum en frá 14:30-19:30 um helgar og á almennum frídögum. Sömu reglur gilda fyrir alla, hvort sem þeir eru óbólusettir, hafa lokið bólusetningu fyrir COVID-19 eða hafa fengið COVID-19.
    • Einn gestur í einu má heimsækja sjúkling (með fylgdarmanni ef nauðsyn krefur) í að hámarki eina klukkustund í einu.
    • Gestir nota grímu og hreinsa hendur skv. leiðbeiningum.
    • Starfsmönnum er heimilt að vísa fólki frá ef fleiri en einn gestur mætir í heimsókn.
    • Tímasetningar geta verið mismunandi milli deilda, mikilvægt er að kynna sér reglur viðkomandi deildar. Sérstakar heimsóknarreglur gilda á einstökum deildum spítalans, t.d. bráðamóttöku og COVID-deildum. Nánari útfærsla á þeim reglum er að finna á heimasíðu Landspítala.
    • Ef stjórnandi telur áríðandi að takmarka heimsóknir umfram það sem hér er kveðið á um er rökstutt erindi um það sent til farsóttanefndar á netfangið farsottanefnd@landspitali.is
    • Stjórnanda er heimilt að veita undanþágu frá heimsóknartíma ef það truflar ekki starfsemi deildar.

    Reglur um komur gesta
    • Aðstandendur sem eru með COVID-19 mega ekki koma í heimsókn fyrr en eftir útskrift frá COVID-göngudeild (Birkiborg) en þurfa þó að sýna ítrustu aðgát í nálægð við viðkvæma sjúklingahópa í tvær vikur eftir útskriftina.
    • Aðstandendur sem eru með einkenni sem geta samrýmst COVID-19 mega ekki koma í heimsókn þar til einkenni eru gengin yfir og ljóst er að ekki er um COVID-19 að ræða.
    • Aðstandendur sem hafa ferðast erlendis mega ekki koma í heimsókn fyrr en 14 dagar eru liðnir frá komu til landsins eða niðurstöður úr tveimur sýnum með fimm daga millibili eru neikvæðar.
    • Aðstandendur sem hafa verið útsettir fyrir COVID-19 mega ekki koma í heimsókn fyrr en neikvætt sýni á 7. degi liggur fyrir. Aðstandendur þurfa þó að sýna aðgát og ekki hitta viðkvæma hópa fyrr en 14 dagar eru liðnir frá útsetningu.

    Undanþágur frá reglum um komur gesta
    • Heimilt er að veita undanþágu frá reglum um komur gesta sem eru í sóttkví, með einkenni COVID-19 eða greindir með COVID-19 við sérstakar aðstæður eins og t.d. ef sjúklingur er alvarlega veikur, í aðdraganda andláts og þegar um börn er að ræða. Sjónarmið um velferð sjúklings og fjölskyldu hans eru höfð að leiðarljósi við ákvörðun um hvort undanþága er veitt.
    • Gestur í sóttkví/með einkenni um COVID-19/staðfest COVID-19 má ekki koma í heimsókn á sama tíma og aðrir aðstandendur.
    • Undanþága frá reglum um komur gesta er háð leyfi frá farsóttanefnd (1).
    • Deildarstjóri, yfirlæknir, vaktstjóri, hjúkrunarfræðingur eða læknir sjúklings sækir um leyfi farsóttanefndar fyrir heimsókn aðstandanda sem er í sóttkví, með einkenni COVID-19 eða greindur með COVID-19. Sendur er tölvupóstur á netfangið farsottanefnd@landspitali.is þar sem fram kemur:
      • Nafn gests
      • Kennitala gests
      • Gestur í sóttkví: Ástæða sóttkvíar og hvenær sóttkví hófst
      • Gestur með COVID-19 eða grun um COVID-19: dagsetning greiningar, upphaf einkenna, núverandi einkenni
      • Rökstuðningur fyrir beiðni um undanþágu
    • Þegar leyfi liggur fyrir hringir starfsmaður deildar í gest og ákveður heimsóknartíma og tilgreinir um hvaða inngang gestur kemur á Landspítala. Það er á ábyrgð deildar að tryggja örugga móttöku og brottför gests.
    • Starfsmaður deildar klæðist viðeigandi hlífðarbúnaði (eftir því hvort gestur er í sóttkví eða grunur um COVID-19/staðfest COVID-19) og tekur á móti gesti við inngang spítalans með þann hlíðfarbúnað sem gestur þarf. Starfsmaður aðstoðar gest eftir þörfum og tryggir að:
      • Gestur í sóttkví spritti hendur, klæðist gulum langerma hlífðarsloppi og skurðstofugrímu.
      • Gestur með einkenni sem geta bent til COVID-19/með staðfest COVID-19 spritti hendur, klæðist hlífðarsloppi (gulum langerma eða einnota langerma) og fínagnagrímu án ventils.
      • Starfsmaður fylgir gesti til sjúklings og sprittar mögulega snertifleti sem kynnu að hafa mengast á leiðinni.
      • Starfsmaður fylgir gesti út af spítalanum að lokinni heimsókn og sprittar mögulega snertifleti sem kynnu að hafa mengast á leiðinni. Notaður er sami hlífðarbúnaður á útleið og við komu. Starfsmaður gengur frá notuðum hlífðarbúnaði gests á viðeigandi hátt.
    ATHUGIÐ!
    Ef upp koma aðstæður þar sem ekki er hægt að bíða eftir svari farsóttanefndar, t.d. utan vinnutíma farsóttanefndar (frá kl. 23:00-08:00 á virkum dögum og kl. 23:00-09:00 um helgar), tekur deildarstjóri/vaktstjóri/hjúkrunarfræðingur ákvörðun og upplýsir farsóttanefnd um hana eftir á með pósti á farsottanefnd@landspitali.is. Ef gestur er grunaður um COVID-19 eða greindur með COVID-19 er sú ákvörðun tekin í samráði við vakthafandi smitsjúkdómalækni sem metur áhættu tengda heimsókn og ráðleggur um smitvarnir.
    Hide details for HeimildirHeimildir
    1. Með samþykki sóttvarnalæknis, Þórólfs Guðnarssonar skv. símtali 30. október 2020 kl. 10 við Má Kristjánsson formann farsóttanefndar.
Ritstjórn

Ásdís Elfarsdóttir
Anna María Þórðardóttir
Lovísa Björk Ólafsdóttir - lovisao
Hólmfríður Erlingsdóttir
Ólafur Guðlaugsson
Ingunn Steingrímsdóttir - ingunnst

Samþykkjendur

Ábyrgðarmaður

Ingunn Steingrímsdóttir - ingunnst

Útgefandi

Ingunn Steingrímsdóttir - ingunnst

Upp »


Skjal fyrst lesið þann 08/31/2020 hefur verið lesið 756 sinnum