../ IS  
Útgefið gæðaskjal: Vinnulýsing
Skjalnúmer: LSH-3359
Útg.dags.: 04/14/2020
Útgáfa: 1.0
25.00.03.19 COVID-19 - stuðningur við fjölskyldur í heimsóknarbanni
    Hide details for TilgangurTilgangur
    Að lýsa stuðningi við fjölskyldur á meðan heimsóknarbann er í gildi á Landspítala.

    Markmið er að veita:
    • Faglega og góða fjölskylduhjúkrun, þrátt fyrir að aðstandendur geti ekki verið á staðnum.
    • Upplýsingar um sjúkdómsástand, meðferð og framvindu.
    • Aðstandendum tilfinningalegan stuðning og meta líðan þeirra.
    Hide details for Hver framkvæmir og hvenærHver framkvæmir og hvenær
    Hjúkrunarfræðingur og/eða læknir sem sinnir sjúklingi hverju sinni hringir daglega í aðstandendur þeirra sjúklinga sem eru inniliggjandi lengur en sólarhring. Ákjósanlegt er að það sé alltaf gert á stofugangi eða strax eftir hann, annars á kvöldvakt og oftar eftir þörfum, t.d. við bráðar breytingar eða ný tíðindi.
    Hide details for FramkvæmdFramkvæmd
    Mikilvægt er að stuðla að því að aðstandendur geti átt myndsamtal við ástvini sína og heilbrigðisstarfsfólk. Myndsamtöl við heilbrigðisstarfsfólk geta aukið á traust, stuðlað að betra meðferðarsambandi og meðferðaheldni.

    Nauðsynlegt er að heilbrigðisstarfsmaður eigi samskipti við aðstandendur þó svo að sjúklingur sé sjálfur í miklu sambandi við þá. Samskipti við aðstandendur eru sérstaklega mikilvæg við eftirfarandi aðstæður:
    • Þegar sjúklingur kemur á deild.
    • Þegar fræðsla er veitt.
    • Við stofugang.
    • Þegar sjúklingur fær upplýsingar um sjúkdómsgreiningu.
    • Við nýjar fréttir.
    • Við útskriftarviðtal.
    • Við dánarbeð og andlát.
    Upplýsingar um nánustu aðstandendur og upplýsingagjöf
    Sjúklingur skilgreinir sjálfur hver er hans nánasti aðstandandi, við hvern starfsmenn hafa samband og hvaða upplýsingar viðkomandi má fá.

    Dæmi um hjálplegar setningar í samtali við sjúkling:
    • Ég myndi vilja heyra í einhverjum af þínum nánustu, hvern ætti ég að hringja í og hvaða upplýsingar má ég veita?
    • Má ég segja honum/henni það sem ég var að segja þér/kom fram á stofugangi?
    • Hvern eigum við að hafa sem tengilið fjölskyldunnar varðandi upplýsingar um veikindi þín og hvernig gengur?
    • Hver heldur þú að eigi erfiðast í þessum aðstæðum?
    • Er einhver af þínum aðstandendum sem þú hefur áhyggjur af?
    • Má ég skrá í sjúkraskrána þína að við hringjum daglega í hann/hana eða viltu að við spyrjum þig í hvert skipti?

    Samskipti við aðstandendur
    Þekkt er að aðstandendur sjúklinga á farsóttartímum geta upplifað óvissu, fordóma, kvíða, svefnleysi, ótta, einmanaleika, leiða og reiði, áhyggjur af smitleiðum og sorg yfir því að fá ekki að uppfylla siðferðilega skyldur sínar og annast ástvini.
    Í samtali er farið yfir gang sjúkdóms, hvernig meðferð er verið að veita og hvernig gengur hjá sjúklingi.

    Leiðir til að hafa rafræn samskipti
    Tækjabúnaður er ýmist sími eða spjaldtölva í eigu sjúklings (óskað eftir því að heiman) eða spjaldtölva í eigu deildar. Samskipti geta verið með eftirfarandi hætti:
    1. Símtal
    2. Myndsamtal
    3. Ljósmynd eða myndband:
      • Í samráði við sjúkling er hægt er að taka mynd eða myndband af viðkomandi á hans síma og með hans samþykki af nærumhverfi hans/hennar og senda til aðstandenda eða af framförum hjá viðkomandi t.d. fyrsta göngutúr eftir stóra aðgerð, fyrstu máltíðina eftir að kemur úr öndunarvél.
      • Einnig má hvetja aðstandendur til að senda sjúklingum "talað" bréf, kveðju í upptöku, spjall eins og þau myndu gera ef þau sætu við rúmstokkinn, eða lesa úr uppáhalds bók eða ljóðum sem sjúklingurinn þekkir og þykir vænt um - slíkt mætti gera fyrir sjúklinga sem eru jafnt vakandi og svæfðir.

    Dæmi um hjálplegar setningar í samtali við aðstandenda:
    • Eftir stofuganginn í dag var ákveðið að….
    • Er eitthvað sem þú ert að velta fyrir þér?
    • Það er ekkert nýtt að frétta af X í dag, en mér þykir mikilvægt að hitta ættingja svo mig langar að heyra í þér. Hvernig hefur þú það?
    • Nú er ég að sinna X í fyrsta skipti í dag en hann/hún búinn að vera hér í 3 daga, þar sem ég veit ekki nákvæmlega hvað upplýsingar þú hefur fengið langar mig að fara yfir það helsta sem er í gangi.
    Ráðleggingar til aðstandenda
    Veittar eru eftirfarandi ráðleggingar til aðstandenda:
    • Mikilvægt er að sækja stuðning til nærumhverfis ef hægt er t.d. ættingja, vina, stuðningshópa, presta eða annað.
    • Halda venjubundinni rútínu eins og hægt er, t.d. sækja vinnu eða skóla eins og vanalega.
    • Taka “andlega pásu” frá COVID-19 fréttum.
    • Nota náttúruna, fara í göngutúra eða aðra útiveru eins og leyfilegt er.
    • Nýta sér netúrræði sem eru í boði, t.d. sjúkraþjálfun, jóga, hugleiðslu, sjálfstyrkingu og samhjálp.
    Stuðningur við aðstandendur
    • Það getur verið erfið upplifun fyrir aðstandendur að sjá sína nánustu á spítala, jafnvel mikið veika og tengd í ýmis lækningatæki.
    • Hægt er að bjóða aðstandanda að fá myndsamtal við hjúkrunarfræðing sem útskýrir meðferðina sem viðkomandi er að fá, sýnir tæki og búnað og útskýrir hvað þau gera, líkt og gert er undir venjulegum kringumstæðum.
    • Meta þarf í hvert skipti hvort viðeigandi sé að hafa myndsamtal og hvort aðstandendur þurfi mögulega á stuðningi að halda á meðan á samtali stendur. Hægt er að:
      1. bjóða aðstandenda að hitta heilbrigðisstarfsmann á öðrum stað á Landspítala sem er þá til stuðnings við aðstandenda á meðan að á samtalinu stendur.
      2. hafa samband við sálgæslu presta og djákna.
    Úrræði ef starfmaður hefur áhyggjur af andlegri líðan aðstandenda
    Aðstandenda er bent á viðeigandi úrræði eftir alvarleika vandans:
    • Hjálparsíminn 1770.
    • Hafa samband við sína heilsugæslustöð og óska eftir stuðningi.
    • Bráðamóttaka geðsviðs virka daga kl. 12-19 og um helgar og á frídögum kl. 13-17 og bráðamóttaka í Fossvogi utan þess tíma.

    Skráning
    Skráning er sérstaklega mikilvæg til að hægt sé að taka út upplýsingar úr kerfinu um veittar meðferðir vegna COVID-19 seinna meir.
    • Dæmi um hjúkrunargreiningar: Röskun á fjölskyldulífi; Álag í umönnunarhlutverki.
    • Dæmi um hjúkrunarmeðferðir: Stuðningur við fjölskyldu; Stuðningur við umönnunaraðila; Aðlögunarleiðir efldar.

Ritstjórn

Anna Ólafía Sigurðardóttir
Brynja Ingadóttir
Erla Kolbrún Svavarsdóttir - erlaksv
Henný Hraunfjörð
Hlíf Guðmundsdóttir
Kolbrún Gísladóttir
Margrét Sjöfn Torp

Samþykkjendur

Ábyrgðarmaður

Sigríður Gunnarsdóttir - sigridgu

Útgefandi

Kolbrún Gísladóttir

Upp »


Skjal fyrst lesið þann 04/14/2020 hefur verið lesið 1404 sinnum