../ IS  
Útgefið gæðaskjal: Vinnulýsing
Skjalnúmer: LSH-3853
Útg.dags.: 12/22/2021
Útgáfa: 2.0
16.03.02 Sárar geirvörtur
    Hide details for TilgangurTilgangur
    Að lýsa meðferð við sársauka eða sárum á geirvörtum hjá konu við brjóstagjöf.

    Skilgreining
    Sár og/eða sársauki í geirvörtum sem eykst og/eða viðhelst fram yfir fyrstu viku í brjóstagjöf.
    Hide details for FramkvæmdFramkvæmd
    Skoðun, greining og mat á sársauka
    Eftirfarandi þættir eru metnir og skráðir í sjúkraskrá:
    • Lýsing á sársauka í geirvörtu, t.d. sviði, sársauki, brunatilfinning eða kláði.
    • Húð á geirvörtu; lit, mar, áferð, fleiður eða sár, glansandi húð eða blæðir. Verður húð hvít og er sársauki í geirvörtu eftir brjóstagjöf?
    • Útferð úr sárum, hreint eða merki um sýkingu (gulleitur vessi).
    • Hvort mögulega sé mjólkurbóla (bleb") í mjólkurgangi fremst á geirvörtu.
    • Tímasetning sársauka; í upphafi brjóstagjafar, stendur alla brjóstagjöfina eða eftir brjóstagjöf. Er sársauki á milli brjóstagjafa?
    • Staðsetning og styrkleiki sársauka.
    • Þættir hjá móður sem valdið geta sársauka, sjá sárar geirvörtur - mögulegar orsakir.

    Meðferð til að minnka sársauka í geirvörtum við brjóstagjöf
    • Álögn barns á brjóst er metin og hvort barn sjúgi á árangursríkan hátt og kyngir í brjóstagjöfinni.
    • Klippt er á tunguhaft ef greining liggur fyrir.
    • Móður er ráðlagt að:
      • Setja rakan og volgan bakstur yfir geirvörtu í um tvær mínútur fyrir brjóstagjöf.
      • Byrja á því að gefa það brjóst sem er betra.
      • Gefa brjóst í mismunandi gjafastellingum, hægindastelling getur verið hjálpleg (laid back position).
      • Leggja oft á brjóst og í styttri tíma í einu.
      • Setja fingur í munnvik þegar barnið er tekið af brjóstinu.
      • Forðast snuð á meðan sársauki er í geirvörtunni vegna þess að börnin nota aðra sogtækni við að sjúga snuðið.
      • Nota aðeins mexíkanahatt ef sársaukinn er það mikill að hún treystir sér ekki til að leggja barn á brjóst án þess.
      • Nota aðeins geirvörtukrem í undantekningartilvikum. Kremið getur valdið eymslum í húð og ofnæmiseinkennum.
      Meðferð við sárum á geirvörtum
      • Sár á geirvörtum eru skoðuð og alvarleiki (stigun) skráður í sjúkraskrá:
        1. Stig 1 - Á yfirborði húðar: Sársauki og vanlíðan í húð en ekki sár, getur verið roði, mar, rauðir blettir og/eða bólga.
        2. Stig 2 - Yfirborð húðar er rofið: Sársauki með grunnu húðrofi, fleiður, þrýstingssár (því barn tekur geirvörtu skakkt), blæðing undir húð og grunnt sár.
        3. Stig 3 - Miðlungs djúpt sár: Húðrof þar sem yfirborð húðar og undirhúð er ekki til staðar.
        4. Stig 4 - Djúpt sár: Skemmd á húð og í vef. Getur innifalið rof í undirhúð og dýpra niður í vefinn.
      • Móður er veitt fræðsla um:
        • Álögn og stellingar barns á brjósti en það er lykilatriði varðandi fyrirbyggingu sára.
        • Aðferðir við að laga grip barns á brjóstinu og huga að stellingu barns.
        • Að nota volgar og blautar grisjur á geirvörtuna í um tvær mínútur fyrir og eftir brjóstagjöf.
        • Að þvo geirvörtu með mildu sápuvatni án ilmefna 2-3 sinnum á dag.
        • Að dreifa móðurmjólk yfir geirvörtu eftir gjöf og láta hana þorna ef sár er á stigi 1. Ekki má setja móðurmjólk á rofna húð vegna sýkingahættu.
        • Að nota mexíkanahatt tímabundið meðan sárin eru að gróa, en það er aðeins gert í völdum tilvikum ef sársauki er mjög mikill.
        • Að forðast notkun á kremi, geli eða smyrsli til að laga aumar og sárar geirvörtur þar sem lítið er til af rannsóknum sem mæla með því. Mæður þurfa að gæta varúðar við notkun á slíkum efnum. Efnin geta truflað eðlilegt ferli eins og smurefni Montgomerís kirtlanna. Þekkt er ofnæmi eins og fyrir ull sem er í lanolíni. Deyfikrem geta valdið ofnæmi og truflað tæmingarviðbragðið.
      Ef komið er opið sár á geirvörtu og sárið er án sýkingarmerkja er hægt að nota sjálfviðloðandi rakaumbúðir (Hydrogel pads) á sárið milli brjóstagjafa. Rakabaksturinn hylur sárið sem auðveldar frumuuppbyggingu og fyrirbyggir uppgufun úr sárinu og að það þorni. Rakabakstur hjálpar frumunum að græða sárið innan frá. Ef blæðir úr geirvörtu og barn kyngir blóði þá er það ekki skaðlegt fyrir barnið.

      Ef móðir treystir sér ekki til að leggja barn á brjóst vegna sársauka getur þurft að hætta að leggja barn á brjóst í 1-2 daga og nota þá mjaltavél á meðan sárið er að gróa.

      Meðferð við sársauka vegna sýkingar í geirvörtum
      Ef sár og fleiður í geirvörtum nær ekki að gróa, getur ástæðan verið bakteríu- eða sveppasýking. Þá er veitt meðferð skv. verklagi um bakteríusýkingu í geirvörtum eða sveppasýkingu í geirvörtum eftir því sem við á.

      Hide details for HeimildirHeimildir
      1. Kent, J.C., Aston, E., Hardwock, C.M., Rowan, M.K., Chia, E.S., Fairclough, K.A., menon, L.L., Scott, C., Mather-McCaw, G.M., Navrro, K., og Geddes, D.T. (2015). Nipple Pain in Breastfeeding Mothers: Incidence, Causes and Treatments.(12) 12247-12263. doi:10.3390/ijerph121012247.
      2. Walker M. Breastfeeding Management for the Clinician, Using the Evidence. 5th Ed. Massachusetts: Jones and Bartlett; 2021.
      3. McClellan H, Hepworth A, Garbin C, Rowan M, Deacon J, Hartmann P and Geddes D. (2012). Nipple Pain during Breastfeeding with or without Visible Trauma. Journal of Human Lactation. 28(4): p. 511-521.
      4. Cindy-Lee Dennis , Kim Jackson, Jo Watson. (2014). Cochrane Database Syst Rev. Interventions for treating painful nipples among breastfeeding women. 15(12). doi: 10.1002/14651858.CD007366.pub2.
      5. Wamback K., og Spencer, B. (2021). Breastfeeding and Human lactation. Sixth edt. Boston: Jones and Bartlett Publishers.
      6. Berens, P., Eglash, A., Malloy, M., Alison M. Steube, A.M., and the Academy of Breastfeeding Medicine. (2016). ABM Clinical Protocol #26: Persistent Pain with Breastfeeding. BREASTFEEDING MEDICINE. ( 11), 2. Mary Ann Liebert, Inc. DOI: 10.1089/bfm.2016.29002.pjb
      7. Marsha Walker,(2013). Are There Any Cures for Sore Nipples. ? (2013). Clinical Lactation, 4(3). http://www.clinicallactation.org/
      8. Genna, C.W. (2016). Supporting sucking skills in breastfeeding infants. Sundburry (MA): Jones & Bartlett Publishers.
      9. Bolourian, M., og fl. (2020) The effect of peppermint on the treatment if nipple fissure during breastfeeding: A systematic review. International Journal of Pediatrics. 8(7).
      10. Wambach K. andSpencer, B. (2021). Breastfeeding and Human Lactation.Boston: Jones and Bartlett Publishers.
      11. Cotterman, J.(2018). Engorgement help: Reverse pressure softening ...a technique to aid latching when a mother is engorged. Kelly Mom. Parenting breastfeeding.
      12. Srinivasan, A. og fl. (2019). Frenotomy in infants with tongue tie and breastfeeding problems. Journal of Human Lactarion. 35(4), 706-712.
      13. Walker, M. (2013). Are there any cures for sore nipples? Clinical Lactation, 4(3). http://www.clinicallactation.org

    Ritstjórn

    Eva Jónasdóttir - evajonas
    Ingibjörg Eiríksdóttir - ingieiri
    Kolbrún Gísladóttir
    Margrét Sjöfn Torp

    Samþykkjendur

    Ábyrgðarmaður

    Ingibjörg Th Hreiðarsdóttir
    María G Þórisdóttir

    Útgefandi

    Kolbrún Gísladóttir

    Upp »


    Skjal fyrst lesið þann 11/25/2015 hefur verið lesið 590 sinnum