../ IS  
Útgefið gæðaskjal: Vinnulýsing
Skjalnúmer: LSH-2074
Útg.dags.: 12/20/2023
Útgáfa: 5.0
16.03.04 Brjóstagjöf - bakteríusýking í geirvörtu
    Hide details for TilgangurTilgangur
    Að lýsa mati og meðferð við bakteríusýkingu í geirvörtu og til að minnka hættu á sýkingu.
    Hide details for Hver framkvæmir og hvenærHver framkvæmir og hvenær
    Ljósmóðir, hjúkrunarfræðingur eða læknir við mat og meðferð konu þegar grunur er um bakteríusýkingu í geirvörtu.
    Hide details for FramkvæmdFramkvæmd
    Mat á einkennum
    • Sár og fleiður á geirvörtu sem ekki grær eftir að búið er að leiðrétta álögn og stellingar á brjósti getur verið vísbending um bakteríusýkingu (sjá myndir 1 og 2).
    • Sár eru flokkuð eftir alvarleika og dýpt með tilliti til meðferðar skv. fjögurra stiga greiningu á geirvörtusárum:
      1. Stig 1 - Á yfirborði húðar: Sársauki og vanlíðan í húð en ekki sár, getur verið roði, mar, rauðir blettir eða bólga.
      2. Stig 2 - Yfirborð húðar er rofið: Sársauki með grunnu húðrofi, fleiður, þrýstingssár, blæðing undir húð eða grunnt sár.
      3. Stig 3 - Miðlungs djúpt sár: Húðrof þar sem yfirborð húðar og undirhúð er ekki til staðar.
      4. Stig 4 - Djúpt sár: Skemmd á húð og í vef. Getur verið rof í undirhúð og dýpra niður í vefinn.
    • Meðferð fer eftir því hvort sár sé hreint eða sýkt.
    • Mikilvægt er að greina orsökina rétt og meðhöndla á réttan hátt eftir því hvort orsökin er bakteríu- eða sveppasýking. Sýkingin getur líka verið blanda af sveppa- og bakteríusýkingu.



    Hreint sár á geirvörtu
    • Notað er hydrogel rakagel á geirvörtu milli gjafa.
    • Við verkjum er ráðlagt að gefa T. Íbúfen 400 mg 3-4 sinnum á dag og T. Parasetamól 1g fjórum sinnum á dag, sem skipt er jafnt yfir 24 klukkustundir.
    • Móður er kennt að:
      • Laga álögn barns á geirvörtu.
      • Bleyta geirvörtu fyrir og eftir brjóstagjöf með því að nota volga rakabakstra.
      • Hreinsa sár með því að þvo geirvörtur með mildri sápu án ilmefna tvisvar á dag.
      • Leggja áherslu á handþvott og fær fræðslu um mikilvægi hreinlætis.
    • Ráðlagt er að halda áfram að leggja barnið á brjóst ef konan treystir sér til, annars getur hún mjólkað sig og gefið barninu. Oftast er ekki sársauki milli gjafa af sárinu.
    Bakteríusýking í geirvörtu
    • Ef sár er lengur en viku að gróa eða sársauki fer versnandi er sárið mögulega sýkt. Sýkingin er oftast af völdum Staphylococcus aureusen aðrar bakteríur geta komið til greina.
    • Móður er kennt að:
      • Leggja áherslu á handþvott og er upplýst um mikilvægi hreinlætis.
      • Þvo geirvörtur fyrir og eftir gjöf með volgu vatni og með mildu sápuvatni tvisvar á dag.
    • Ef einkenni sýkingar koma fram t.d. gulleitur vessi úr sári (sjá mynd 3), þá er sár meðhöndlað með Fucidin sýklalyfjakremi þrisvar á dag í 7-10 daga skv. ávísun læknis.
    • Tekið er strok úr sári til að greina orsök sýkingar ef hún svarar ekki meðferð.
    • Ef sár grær ekki við meðferð með kremi getur þurft að ávísa sýklalyfjum um munn og er það metið eftir alvarleika húðsýkingar. Gefið er C. Dicloxacillin 1 g x 4 um munn og skammtur minnkaður í 500 mg x 4 eftir 3-4 daga ef svörun er góð í samtals 10 daga, sjá ráðleggingar um meðferð við brjóstabólgu. Við ofnæmi er gefið C. Clindamycin (Dalacin) 300 mg x 3 um munn í 7-10 daga.
    • Ráðlagt er að halda áfram að leggja barnið á brjóst ef konan treystir sér til, annars getur hún mjólkað sig og gefið barninu. Oftast er ekki sársauki milli gjafa af sárum nema þau séu mjög djúp eða sýkt.
    • Hafðar eru í huga aðrar hugsanlegar orsakir fyrir sáramyndun á geirvörtum:
      • Exem, ofnæmi eða psoriasis
      • Sveppasýkingu
      • Stíflaðir mjólkurkirtlar (white spot)
      • Erysipelas (streptococca húðsýking)
      • Herpes zoster
      • Pagets sjúkdómur (krabbamein í brjósti/geirvörtu - mjög sjaldgæft)


    Mynd 3. Sýkt sár á geirvörtu (Staphylococcus aureus)

    Skráning

    • Meðferð er skráð í sjúkraskrá.
    • Greiningarnúmer er skráð ef sýking er til staðar: ICD-O91.0 Sýking í geirvörtu tengt barnsburði.
    Hide details for HeimildirHeimildir
    1. Walker, M. Breastfeeding Management for the Clinician. Using the evidence. Fifth edt. Canada: Jones and Bartletts Publishers; 2021.
    2. Walker, M. Are there any cures for sore nipples? Clinical Lactation; 2013 4(3).
    3. Tait, P. Nipple pain in breastfeeding women: Causes, treatment and prevention strategies. Journal of Midwifery & Women´s Health. (vol. 45, nr. 3). May/June, 2000.
    4. Mohrbacher, N. (2020). Breastfeeding answers. A guide for helping families.Sec. edt. Arlington (IL, USA):Nancy Mohrbacher Solutions, Inc.
    5. Wamback, K. Og Spencer, B. (2021). Breastfeeding and human lactation. Sixth edt. Burlington, MA: Jones & Bartlett Learning.
    6. Cadwell, K., Turner-Maffei, C., Blair, A., Brimdyr, K., og McInerney, Z. M.(2004). Pain reduction and treatment of sore nipples in nursing mothers. The Journal og Perinatal Education. 13(1). bls. 29-35.
    7. Niazi, A., Rahimi, V. B., Soheili-Far, S., Askari, N., Rhamanian-Devin, p., Sanei_Far, Z., Sahebkar, A., Rakhshan-deh, H., og Askari V. R. (2018). A systematic review on prevention and treatment of nipple pain and fissure: Are they curable? Journal of Pharmapuncture. 21(3), bls. 139-150.
    8. Barrett, m. E., Heller, M. M., Stones, H.F. og Murase, J. E. (2013). Dermatoses of the breast in lactation. Dermatologic therapy. 26, bls. 331-336.

Ritstjórn

Eva Jónasdóttir - evajonas
Ingibjörg Eiríksdóttir - ingieiri
Kolbrún Gísladóttir
Margrét Sjöfn Torp

Samþykkjendur

Ábyrgðarmaður

Jóhanna Ólafsdóttir - joholafs
María G Þórisdóttir
Hulda Hjartardóttir

Útgefandi

Kolbrún Gísladóttir

Upp »


Skjal fyrst lesið þann 11/22/2016 hefur verið lesið 332 sinnum