Framkvæmd
Mat á einkennum
- Sár og fleiður á geirvörtu sem ekki grær eftir að búið er að leiðrétta álögn og stellingar á brjósti getur verið vísbending um bakteríusýkingu (sjá myndir 1 og 2).
- Sár eru flokkuð eftir alvarleika og dýpt með tilliti til meðferðar skv. fjögurra stiga greiningu á geirvörtusárum:
- Stig 1 - Á yfirborði húðar: Sársauki og vanlíðan í húð en ekki sár, getur verið roði, mar, rauðir blettir eða bólga.
- Stig 2 - Yfirborð húðar er rofið: Sársauki með grunnu húðrofi, fleiður, þrýstingssár, blæðing undir húð eða grunnt sár.
- Stig 3 - Miðlungs djúpt sár: Húðrof þar sem yfirborð húðar og undirhúð er ekki til staðar.
- Stig 4 - Djúpt sár: Skemmd á húð og í vef. Getur verið rof í undirhúð og dýpra niður í vefinn.
- Meðferð fer eftir því hvort sár sé hreint eða sýkt.
- Mikilvægt er að greina orsökina rétt og meðhöndla á réttan hátt eftir því hvort orsökin er bakteríu- eða sveppasýking. Sýkingin getur líka verið blanda af sveppa- og bakteríusýkingu.
Hreint sár á geirvörtu
- Notað er hydrogel rakagel á geirvörtu milli gjafa.
- Við verkjum er ráðlagt að gefa T. Íbúfen 400 mg 3-4 sinnum á dag og T. Parasetamól 1g fjórum sinnum á dag, sem skipt er jafnt yfir 24 klukkustundir.
- Móður er kennt að:
- Laga álögn barns á geirvörtu.
- Bleyta geirvörtu fyrir og eftir brjóstagjöf með því að nota volga rakabakstra.
- Hreinsa sár með því að þvo geirvörtur með mildri sápu án ilmefna tvisvar á dag.
- Leggja áherslu á handþvott og fær fræðslu um mikilvægi hreinlætis.
- Ráðlagt er að halda áfram að leggja barnið á brjóst ef konan treystir sér til, annars getur hún mjólkað sig og gefið barninu. Oftast er ekki sársauki milli gjafa af sárinu.